Trúlausi guðfræðingurinn og guðfræðideild Háskóla Íslands!

Eftirfarandi grein mun birtast í Fréttablaðinu á næstu dögum í styttri útgáfu. Set hana inn hér í þeirri lengd sem hún var upphaflega skrifuð til birtingar. Ég verð ekki í netsambandi næstu vikuna þannig að ég svara þeim athugasemdum sem kunna að koma þegar ég sný úr óbyggðum LoL!
 

Trúlausi guðfræðingurinn og guðfræðideild Háskóla Íslands.

 

Þann 16. Júní síðastliðinn birtist opnulöng grein í Fréttablaðinu eftir Teit Atlason er ber yfirskriftina ,,Trúlausi guðfræðingurinn”. Greinin sem er tekin af bloggsíðu höfundar lýsir trúleysisafstöðu hans og því hvernig að tveggja ára nám við guðfræðideild Háskóla Íslands hafi haft áhrif á þá trúarafstöðu. Í greininni gagnrýnir höfundur guðfræðideildina, sem hann segir gallaða stofnun, og tiltekur m.a. eftirfarandi rök fyrir því: ,,Í mínum huga eiga að vera skýr skil á milli hinnar trúarlegu innrætingar og hinnar fræðilegu kennslu. Það vantar einnig ýtarlegri (sic) biblíugagnrýni, kenningar um hinn sögulega Jesú, kynningu á trúarlegu umhverfi þegar Biblían er rituð, trú Egypta, kynningu á (sic) betri kynningu á gnóstískum ritum. Svo ekki sé talað um Júdarsarguðspjall sem er merkilegasti fornleifafundur síðustu árhundruða.”

 

Gagnrýni Teits á guðfræðideildina er af tvennum toga og snýr sú fyrri að tvíþættu hlutverki deildarinnar. Guðfræðideildin annast annarsvegar rannsóknir og kennslu á sviði trúarbragðafræði og guðfræði. Hinsvegar er próf úr guðfræðideild forsenda þess að öðlast vígslu í íslensku þjóðkirkjunni. Þurfa þeir sem vígjast til prests að hafa lokið svokölluðu embættisprófi sem er 5 ára nám eða 150 einingar. Er venja að þeir einir kalli sig guðfræðinga sem hafa lokið 5 ára námi líkt og tíðkast meðal annarra fræðinga á borð við verkfræðinga og lögfræðinga. Að uppfylltum skilyrðum um háskólapróf á sviði guðfræði annast þjóðkirkjan síðan þjálfun prestsefna. Fyrirkomulagið er sambærilegt öðrum starfsstéttum sem krefjast háskólamenntunar, lögmanna, endurskoðenda, lækna ofl. Nemendum í guðfræðideild Háskóla Íslands er ekki mismunað á grundvelli trúarafstöðu sinnar.

 

Síðari gagnrýni höfundar á guðfræðideildina snýr að kennslu á sviði biblíufræða og þá sérstaklega nýjatestmentisfræði sem undirrituð hafa valið að sérsviði. Prófessor í nýjatestamentisfræði er dr. Jón Ma. Ásgeirsson en hann er menntaður frá Claremont háskóla í BNA og er þekktur á alþjóðavísu sem fræðimaður á þessu fræðasviði. Við guðfræðideildina eru kennd fjölmörg námskeið á sviði nýjatestamentisfræða og til að ljúka embættisprófi í guðfræði þarf nemandi að hafa lokið 33 einingum á því sviði. Til að sækja framhaldsnámskeið í nýjatestamentisfræðum þurfa nemendur að hafa lokið grunnnámskeiðum í samtíðarsögu, inngangsfræði og guðfræði Nýja testamentisins auk 10 eininga í forn-grísku. Þekking á forn-grísku, frummáli textans, er forsenda allrar umræðu um ritskýringu og greiningu á Nýja testamentinu. Venja er að nemendur sæki framhaldsnámskeið í nýjatestamentisfræðum á þriðja til fimmta ári náms en ekki á BA stigi. Fjallað verður nú sérstaklega um þau sex atriði sem að Teitur nefnir í þessu samhengi.

 

Ítarleg biblíurýni á sér stað í framhaldsnámskeiðum sem kallast ritskýring en þar eru tekin fyrir einstaka rit Gamla- og Nýja testamentisins. Í inngangsnámskeiðum nýjatestamentisfræða er eðli málsins samkvæmt farið nokkuð hratt yfir sögu en í ritskýringarnámskeiðum gefst rými til ítarlegri umfjöllunar. Uppbygging kennslunnar er þannig háttað að í hverri viku eru lesnir textar á gríska frummálinu og þeir krufðir ítarlega með tilliti til málfræði, setningarfræði og merkingarsviða. Textarnir sjálfir eru síðan settir í samhengi við rannsóknir á sviði biblíuvísinda og er reynt að gefa fjölbreyttum sjónarmiðum gaum. Nýjatestamentisfræðin er þverfagleg fræðigrein sem notfærir sér þekkingu og rannsókir á sviði fjölmargra fræðigreina til að varpa ljósi á texta Nýja testamentisins. Má þar nefna klassísk fræði, fornleifafræði, sagnfræði, málvísindi, bókmenntafræði, mannfræði, félagsvísindi, kynjafræði og þannig mætti lengi telja.

 

Kenningar um hinn sögulega Jesú eiga langa hefð í umfjöllun um Nýja testamentið og persóna Jesú hefur heillað trúaða jafnt sem efasemdamenn öldum saman. Fyrstu vísindalegu rannsóknir á Jesú sem sögulegri persónu áttu sér stað í Þýskalandi á átjándu öld en þær voru mjög gagnrýndar fyrir að endurspegla frekar aðstæður og áherslur rannsakenda frekar en forsendur fyrstu aldar. Nútíma rannsóknir byggja á grunni nákvæmra textarannsókna og heimildarýni. Í guðfræðideild Háskóla Íslands eru kenningar um hinn sögulega Jesú kynntar í inngangsnámskeiðum í trúfræði og nýjatestamentisfræðum og í framhaldsnámskeiðum takast nemendur á við slíkar kenningar með því að rannsaka þær frumheimildir sem fyrir hendi eru.

 

Trúarlegt umhverfi á ritunartíma biblíunnar er viðfangsefni inngangsnámskeiða og liggur til grundvallar allri ritskýringu. Þar fá nemendur innsýn í fjölbreytilegt efni sem tekur til jafnt stjórnmálasögu, hugmyndafræði og trúarbragða í umhverfi Nýja testamentisins. Í inngangsfræði Nýja testamentisins er farið yfir bókmenntasögu alls Nýja testamentisins ásamt kynningu á ýmsum skyldum ritum.

 

Þekking á trú Egypta er mikilvæg í samhengi Nýja testamentisins vegna þess samruna grískrar og austrænnar menningar sem átti sér stað eftir tíma Alexanders mikla á þessu landsvæði og lögð er mikil áhersla á að textarnir séu lesnir í því samhengi. Prófessor Jón Ma. er sérmenntaður í egypskum fræðum en rannsóknir hans í bandaríkjunum voru á textum úr frumkristni sem varðveist hafa á egypskri tungu.

 

Hvað snertir gnóstísk rit hefur prófessor Jón Ma. komið að rannsóknum og þýðingum rita af þeim flokki. Leggur hann áherslu á í kennslu sinni að nemendur m.a. kynnist ritum Nag Hammadi safnsins, flokki gnóstískra rita sem fundust í Egyptalandi  1945, og voru rannsökuð í Claremont þar sem Jón starfaði. Nýleg lokaritgerð við guðfræðideildina fjallar ítarlega um gnóstísk rit og tengsl þeirra við Jóhannesarguðspjall.

 

Júdasarguðspjall hefur þá vakið mikla athygli vegna þess að eintak þess komst nýlega í hendur fræðimanna, illa farið eftir langa og sorglega meðferð forngripabraskara. Ritið var boðið Claremont háskóla til sölu á þeim tíma er Jón starfaði þar og fékk rannsóknarhópur hans að skoða ritið. Því miður hafði háskólinn ekki burði til að borga eigendum þess það verð sem sett var upp og því komst það ekki fyrr en nýlega í hendur fræðimanna og í mun verra ásigkomulagi. Jón Ma. greindi frá þessari atburðarás ítarlega í erindi á Hugvísindaþingi haustið 2006 og fór þar yfir rannsóknarsögu Júdasarguðspjalls. Auk þess var nemendum Jóns sem stunda rannsóknir á sviði nýjatestamentisfræða boðið að sækja norræna ráðstefnu 2007 þar sem kynntar voru nýjustu niðurstöður rannsókna á Júdasarguðspjalli. Þess má geta að í haust er í boði námskeið í guðfræðideild um apókrýf guðspjöll, m.a. Júdasarguðspjall.

                                   

Í greininni ,,Trúlausi guðfræðingurinn” er vegið að kennslu á sviði biblíufræða við Háskóla Íslands af nemanda sem ekki hefur setið framhaldsnámskeið á sviði nýjatestamentisfræða. Við sem þessa grein ritum stundum bæði rannsóknir á sviði nýjatestamentisfræða við Háskóla Íslands undir handleiðslu Jóns Ma. Ásgeirssonar. Við finnum okkur því knúin til að leiðrétta þá aðför sem í orðum hans felst. Þau atriði kennslu og rannsókna sem að Teitur Atlason kallar eftir eru gerð vegleg skil í starfi deildarinnar og sitja þar allir nemendur við sama borð.

 

Sigurvin Jónsson guðfræðingur og MA nemi á sviði nýjatestamentisfræði.

Sunna Dóra Möller útskriftarnemi í guðfræði.


 

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þetta.  Skil ekki mikið í málinu en tek þín orð fyrir réttmætinu.

Loveu

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.7.2008 kl. 10:21

2 Smámynd: Sunna Dóra Möller

..takk Jenný !

Sunna Dóra Möller, 7.7.2008 kl. 10:26

3 identicon

Flott hjá þér

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 10:35

4 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Takk Birna

Sunna Dóra Möller, 7.7.2008 kl. 10:56

5 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Þetta virðist mér, óupplýstum manninum, vera ljómandi málefnaleg og hugguleg umfjöllun.

Það verður gaman að sjá hvort að Teitur sér ástæðu til að svara hér einhverju.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 7.7.2008 kl. 11:49

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Frábært hjá ykkur - ég renndi aðeins yfir þetta, en mun lesa betur í kvöld.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 7.7.2008 kl. 11:58

7 identicon

Flott umfjöllun hjá ykkur.

Mér brá við að lesa grein hans Teits. Ég kannaðist engan vegin við það sem hann var að tala um. Sagnfræðin og ritrýnin virðist vera allsráðandi. Jafnvel í siðfræðinni er trú einstaklingsins látin víkja fyrir jarðýtu frjálshyggjunnar.

Hvergi, þar sem sanngjörn umfjöllun krefst þess, er því sleppt að vega að biblíunni í fræðilegri umfjöllun. Því held ég að deildin sé frekar erfið fyrir hörundsárt bókstafstrúarfólk, frekar en hlutlausa trúargrúskara. Jafnvel í inngangsfræðum NT. er öllu leyft að njóta efans upp á versta veg, eins og ég hef nefnt áður. (Ekki að það sé neinn sannleiksstimpill fyrir vikið )

En þið gerið þessu öllu mun betri skil en ég. Bestu kveðjur og mikið hrós fyrir þessa umfjöllun.

Jakob (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 13:13

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Knús á þig Sunna Dóra mín.  Það er gott að verja sig og það sem maður trúir á.  Það er heilbrigt og þarft. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.7.2008 kl. 15:30

9 identicon

Blessuð Sunna Dóra

Mér fannst miður þegar ég sá, í síðustu viku, að þú hafir hreinsað borðið þitt upp í guðfræðistofnun.

Ég get ekki verið annað en sammála um ágæti kennslu Jóns Magnúsar Ásgeirssonar og eru tímarnir sem ég sat hjá honum mér mjög eftirminnilegir. Hann er bæði góður kennari og ekki síður góður fræðimaður og hafði einstakt lag á að ögra nemendum sínum til að íhuga með gagnrýnum hætti það sem af mörgum er talið til óhrekjanlegs sannleika. Ég tel mig lánsama að hafa átt þess kost að sitja kennslustundir hjá honum.

Ég var líka svo lánsöm að vera samtíða Teiti Atlasyni í guðfræðideildinni og finnst hann einn eftirminnilegasti samnemandi minn. Hann lífgaði uppá deildina, var viðræðugóður og hafði áhugaverðar og ígrundaðar skoðanir. Því gladdi það mig að sjá grein hans í Fréttablaðinu og tek heilshugar undir margt sem þar kom fram.

Það er fjarri að ég, trúvillingurinn í félagsvísindadeildinni, ætli að rengja það sem þið Sigurvin eruð að segja enda eru Nýja testamentisfræði ykkar fræðasvið. En miðað við þær aðfarir sem gerðar hafa verið að Teiti í vetur,af fyrrverandi samnemendum okkar, þá dreg ég mjög í efa að fólki sé ekki mismunað á grundvelli trúarafstöðu sinnar í guðfræðideildinni. Ég vil taka fram að þá er ég ekki að tala um kennara deildarinnar.

Ég ákvað að fara, að mestu leiti, út úr guðfræðideildinni því mér fannst trúarinnrætingin kæfandi og hversu mjög námið er miðað að þeim nemendum sem ætla í prestskap. Mér fannst ég ekki fá svigrúm til að leggja stund á hugarefni mín innan deildarinnar. Ég veit að svo er komið með fleiri nemendur og með vísan í samtöl sem ég haf átt við þig Sunna Dóra meðan við vorum samnemendur þá tel ég að þú vitir hvað ég er að tala um og hvað Teitur var að tala um í greininni. Það er eitthvað sem ég ætla ekki að tíunda hér á veraldarvefnum.

Guðfræðideildin er ekki yfir gagnrýni hafin frekar en aðrar deildir Háskólans og þjóðkirkjan er því síður yfir gagnrýni hafin. Mér finnst mjög leiðinlegt að verða hvað eftir annað vitni af því að ráðist sé að fólki fyrir það eitt að segja það sem því býr í brjósti.

Ég lærði margt af læriföður ykkar Sigurvins, honum Jóni Magnúsi ,og ekki síst að hafa kjark til að sigla á móti straumnum og standa á sannfæringu sinni. Það fannst mér aðdáunarverður eiginleiki í hans fari.

Ingibjörg María Gísladóttir (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 23:51

10 identicon

Sæl Sunna.  Ég póstaði svari á bloggi mitt.  Hérna er það:  http://www.eimreidin.is/2008/07/gagnrni-svara.html

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 09:55

11 identicon

Skritid ad reyna ad draga ur vaegi menntunar Teits med thvi ad segja ad hann hafi bara lokid tveimur arum i deildinni. Hid retta er ad hann lauk thriggja ara nami a tveimur arum og utskrifadist med B.A. gradu.

Agnar (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 23:08

12 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Mjög vel gert og frábært ef þú færð þetta birt í blöðunum. 

Ég skildi hreinlega ekki um hvaða deild Teitur var að tala þegar ég las þessa lýsingu hans. Hann lætur eins og að í guðfræðideildinni sé bara boðuð trú en ekki fræði. Ég fann enga trú í guðfræðideildinni heldur helling af fræðum og skoðunum ýmissa fræðimanna, sem eflaust eru sumir hverjir (hér jafnvel færri en fleiri) trúaðir. Guðfræðideildin er að mínu viti nokkuð hlutlaus fræðileg stofnun. Enda segja kennararnir þar, að sé maður kominn til að finna Guð, þá eigi maður að hætta hið snarasta og skrá sig fremur í Biblíuskóla, því maður finni ekki Guð í guðfræðideildinni. Guðfræðideildin er ekki að boða trú, eingöngu fræði og reyna kennararnir þar að viðhalda sýnu fræðilega hlutleysi.

Í raun fannst mér hann meira vera að rita þessa grein sem einskonar atvinnuauglýsingu. Hann fjallar það mikið um sjálfan sig í henni. Kannski erum við að misskilja ásetning hans með greininni. Kannski hefði fyrirsögnin átt að vera: ,,Trúlausum guðfræðing vantar vinnu" Vona að hann fái vinnu við sitt hæfi (sé það málið).

þessi grein ykkar er afburðar vel gerð og málefnaleg. Hún á eftir að leiðrétta þennan furðulega ,,misskilning" Teits um  að guðfræðideildin sé ekki hlutlaus. Kannski hann hafi í reynd viljað að guðfræðideildin viki frá hlutleysi sýnu og boðaði hreina vantrú. Því vantrúarmenn telja sig margir hverir vera að tala í anda hlutleysis, þegar þeir eru í reynd að tala í anda vantrúar. Hlutleysi er það að boða hvorki trú né vantrú. Fólk verður að fá að heyra skoðanir fræðimanna báðumegin við borðið, í þeim ritum sem kennararnir setja nemendunum fyrir að lesa. Ég hef ekki orðið vitni að því að nokkur kennari guðfræðideildarinnar sé að boða trú í tímum. 

Bryndís Böðvarsdóttir, 9.7.2008 kl. 18:55

13 identicon

Sæl Bryndís

Ég finn mig knúna til að svara athugasemd þinni og verð að segja að ég get ekki varist því að hugsa hvort við lásum sömu greinina eftir Teit.

Hann er að lýsa upplifun sinni á veru sinni í guðfræðideildinni og því er hann óhjákvæmilega frumlag í því sem þar er sagt. Ég velti því alvarlega fyrir mér hvort hægt sé að dæma reynslu og upplifun annarra sem misskilning, finnst það full hrokafullt.

Ég undrast ummæli þín um að þetta sé dulbúin atvinnuauglýsing hjá Teiti og get ekki skilið þau á annan hátt en hér sé um að ræða tilraun til að gera lítið úr honum með háði.

Þér til upplýsingar þá býr Teitur erlendis og er í fullu starfi við að hugsa um börn sín og bú og er því, mér vitanlega,  ekki að leita sér að atvinnu hérlendis. Greinin var upphaflega bloggfærsla sem ritstjóri Fréttablaðsins falaðist eftir.

Ég efast að hæfileikaríkur og klár maður eins og Teitur sem lauk B.A námi á tveimur árum og það með fyrstu einkunn þurfi að falbjóða starfskrafta sína með þeim hætti sem þú ýjar að.

Kveðja Ingibjörg María

Ingibjörg María Gísladóttir (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 01:11

14 identicon

Sæl Sunna Dóra.

Ég skil ekki þetta fjaðrafok yfir greininna hans Teits Atlasonar fyrrverandi samnemenda okkar í guðfræðideildinni. Hann er að skýra frá sínum upplifunum og ég get sjálf tekið undir margt af því sem hann skrifaði.  Námið í guðfræðideild miðar mikið við embættispróf og framhaldsnámið í guðfræði miðar nær eingönguófið. Nú hafa verið gerðar einhverjar breytingar á því, en ég stóð uppi með BA-próf í guðfræði fyrir ári síðan og ætlaði að fara í mastersnám í siðfræði eða trúarbragðafræði innan guðfræðideildar, þar sem það er boðið upp á það í kennsluskrá. Þegar á reyndi voru engin námskeið í boði, nema fyrir embættispróf og þá eingöngu blessuðu ritskýringarnámskeiðin.

Mér finnst margt við áherslur kennslunnar að athuga og tek undir með Ingibjörgu að guðfræðideilin er ekki yfir gagnrýni hafin frekar en aðrar deildir innan háskólans. Megingagnrýnin er á áhersluna á embættisprófið í guðfræði, eftir BA-nám. Auk þess hef ég aldrei skilið þá áherslu sem er lögð á ritskýringar á kostnað t.d sálgæslu  þar sem ég  ekki ímyndað mér að einn kúrs í sálgæslu sé nóg fyrir prestefni.  Því sitja nemendur ekki við sama borð ef þeim hugnast ekki að fara í embættispróf. Mér var því ráðlagt að leita í aðrar deildir því guðfræðideildin hefði ekki það nám að bjóða sem það auglýsti í kennsluskrá. Varla þýðir þetta að allir nemendur sitji við sama borð, eða hvað?

Ég er algjörlega sammála ykkur með það að í  guðfræðideildinni eru sumir kennarar á heimsmælikvarða. Hins vegar eru margir þeirra ekki eru nýttir nema að hluta. Ég mundi vilja sjá guðfræðideildina vaxa þar sem aukin áhersla er á trúarbragðafræði og siðfræði svo eitthvað sé nefnt. Þar sem námið verður meira veraldlegt ekki lútúrgískt og ritskýringar á Biblíutextum. Ég mundi líka vilja sjá aukið umburðarlyndi nemenda gagnvart samnemendum sínum þar sem fólki er leyft að hafa ólíkar skoðanir og upplifanir og borin er virðing fyrir því hvaða leið þeir velja. Ég hef of oft orðið vitni af hinu gagnstæða og veit til þess að það hafi sært manneskjur mikið. Kannski er ofuráherslan á trúvörn og predíkun sem skilar sér á þennann hátt og allt of lítil sálgæslukennsla sem kemur fram í því að það gleymist að hafa aðgát í nærveru sálar.

Ég veit það ekki Sunna og Sigurvin, en sumar uppákomurnar í guðfræðideildinni fæla mann frá því að leita til kirkjunnar ef að þjónar hennar eru ekki betur í stakk búnir að virða náunga sinn en raun bar vitni oft á tíðum. Þá held ég að skipti ekki máli hversu lengi fólk hefur stundað nám, hvaða gráðu það hefur eða hvaða einkunn það hlaut eða hversu vel það er að sér í hinum ýmsu fræðigreinum guðfræðinnar.

Ég vona bara að við getum fundið farveg fyrir því að vera sammála um að vera ósammála og að við sjáum yfirleitt hlutina eins og við erum en ekki eins og þeir eru.

kær kveðja

Anna Bentína

Anna Bentína Hermansen (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 13:30

15 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Sæl veriði og takk fyrir skrifin öll. Hef verið á ferð og flugi um Norðurland og ekki getað fylgst mikið með umræðunni hér.

Ég hef svo sem ekki miklu við greinina að bæta. Ég tel okkur ekki vera að veitast að Teiti, með þessari grein og í raun ekki mikið fjaðrafok heldur. Hann segir í sinni grein (klausan sem við svörum) að þetta vanti, við svörum og segjum þetta vera til staðar innan nýja testamentisfræðanna sem eru svo miklu meira en bara ritskýring, þó að kúrsarnir beri það nafn. Nýja testamentisfræðin fer svo miklu dýpra en bara bein ritskýring á textum og er algjörlega þverfagleg eins og kemur fram. Hún nýtir sér tæki og tól annarra fræðigreina og það er það sem gerir hana svo spennandi.

Varðandi meintar árásir á nemendur og deilur tel ég ekki við hæfi að fara hér útí. Ég vona og tel að ég hafi komið nokkurn vegin eins fram við fólk á mínum tíma í deildinni óháð trúarskoðunum enda finnst mér það í raun ekki skipta máli í samskiptum við fólk hvar það stendur varðandi lífsskoðanir. Teit kynntist ég lítið, en það sem ég sá af honum var gott, hann var duglegur og atorkusamur kaffistofustjóri og án efa duglegur námsmaður. Ég kæri mig ekki um að fara út í skæting við einn eða neinn og mér finnst það heldur ekki við hæfi að rökræða á nótum tilfinningaraka. Það er þess vegna til dæmis að við ákváðum að taka þau orð Teits fyrir þar sem hann lýsir því sem honum finnist vanta í deildina, hitt er eins og sagt er hér að ofan lýsing á reynslu manns af deildinni og tilfinningamál sem ég tel mig ekki hafa forsendur til að deila á.

Eflaust er reynsla fólks af deildinni ólík og það sem einn upplifir trúarinnrætingu gæti annar eflaust ekki tekið eftir. Ég hef fundið fyrir togstreitu meðal fólks og man eftir þungri undiröldu á tíma í deildinni og þá var líka deilt á þau sem voru í prestsnáminu og var talað um prestaklíku ef mig minnir rétt. Þannig að það þarf tvo til þegar deilt er. Það er engin sérstakt fórnarlamb þegar kemur að þessu málefni og við öll ábyrg gerða okkar enda fullorðið fólk.  

Það er eðlilegt að þetta togist á í fólki, sumir vilja meiri trúarbragðafræði og siðfræði.....ég myndi vilja sjá meiri Nt fræði ...þannig að sitt sýnist sannarlega hverjum með þetta allt saman. En málefnaleg umræða og gagnkvæm virðing er grundvöllur að allri umræðu og forsenda þess að fólk geti talað saman. Guðfræðideildin er sannarlega ekki hafin yfir gagnrýni og ekki Teitur heldur, ég eða einhver annar. 

Ingibjörg: Ég tók saman af borðinu mínu um daginn...fannst ekki hægt að halda því lengur ...enda var ég aldrei uppfrá og skrifa mest heima. Það verða víst aðrir að komast að...! Kannski ég mæti bara í kynjafræðina einn daginn enda heilla þau fræði mig mikið og ég nota mikið kynjafræði í mínum skrifum innan Nt-fræðanna. Gangi þér vel í náminu þínu og gaman væri að sjá einhvern tímann hvað þú ert að fást við !

Bestu kveðjur! 

Sunna Dóra Möller, 14.7.2008 kl. 16:37

16 identicon

Sæl Sunna og velkomin heim

Það var ekki ásetningur minn að fara af stað með ritdeilu milli okkar tveggja en þegar ég sagði að vegið væri að Teiti í svargrein ykkar Sigurvins þá byggi ég það á orðræðugreiningu á henni. Þið byrjið á því að segja lesendum ykkar að hann hafi einungis verið tvö ár í deildinni og hafi í raun ekki  rétt á að kalla sig guðfræðing. Það tryggir strax ákveðna túlkun á því sem eftir kemur og ljúkið svo greininni á því að segja að hann hafi ekki setið framhaldsnámskeið í Nt-fræðum. Skrif Teits virka því fremur léttvæg, að minnsta kosti fyrir þá sem ekki þekkja til málsins.

Það er rétt að fólk upplifir námið við guðfræðideildina með misjöfnum hætti eftir því hver trúarsannfæring þeirra er. Þ.a.s að þeir sem tengja sig við ríkjandi orðræðu deildarinnar séu sáttir en þeir sem gera það ekki upplifi jaðarsetningu af einhverju tagi.  Þeir sem staðsetja sig í ríkjandi orðræðunni hafa öllu jafnan meiri vald og því þurfa raddir hinna líka að fá að heyrast. Er það ekki einmitt það sem femíníska guðfræðin gengur út á t.d er þetta rauður þráður hjá Fiorenzu sem þú ert að vinna með, ef mig misminnir ekki. Þó að hún vinni ekki með kenningar Foucault, mér vitanlega.

Við getum sammælst um að ekki sé vert að tiltaka einstök mál úr deildinni hér á veraldarvefnum en ég er ekki eins viss og þú um að hér sé ekki hægt að tala um þolendur. Í það minnst veit ég til þess að deildarforseti hafi greint ástandið sem trúarofbeldi þegar slík mál rataði inn á borð hans. Í slíkum málum eru alltaf gerendur og þolendur.

Annars líst mér vel á að þú skellir þér í kynjafræðina og þá sérstaklega í ljósi þess að þú ert að nýta þér hana í þínum skrifum. Mín reynsla er að námið þar auðgar og bætir heilmiklu við það sem femínísku guðfræðingarnir skrifa.

Annars er ég búin að ljúka rannsókninni minni og sit nú við greiningu og skriftir og m.a verkefnið verður tilbúið og þar með sýningarhæft um næstu jól.

Gangi þér sömuleiðis vel í því sem þú ert að fást við.

Kveðja, Ingibjörg María

Ingibjörg María Gísladóttir (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 18:41

17 Smámynd: Sunna Dóra Möller

hæhæ

Það var heldur ekki ásetningur minn að fara í ritdeilu enda höfum við átt hin bestu samskipti og átt góð samtöl saman í bæði í deildinni og utan hennar. Það má vel vera að það megi misskilja greinina sem svo að við höfum verið að gera lítið út Teiti og hans námi. ætlun okkar var bara að benda á að það sem Teitur segir að vanti er kennt í kúrsum sem eru kenndir á seinni stigum námsins, á þriðja til fimmta ári. Ætlun okkar var ekki að gera lítið úr því sem Teitur tók og því prófi sem hann er með. Heldur að benda á að þau atriði sem hann tiltekur að vanti í deildina séu nú þegar til staðar fyrir þau semhafa áhuga á.Þeim eru nefnilega gerð ríkuleg skil og kúrsarnir hjá Jóni eru svo fjarri því að vera trúarlega innrættir heldur algjörlega byggðir upp á fræðilegum forsendum þar sem víða er komið við! En vissulega eru kúrsar sem eru trúarlega innrættir og settir upp í samhljómi við prestsnámið. 

Ég er að vinna með Fiorenzu að hluta og nýjustu skrif hennar og það er rétt að hún leggur áherslu á að allar raddir fái að heyrast og ég er svo sammála því að svo eigi að vera innan deildarinnar enda kom ég að starfi jafnréttisnefndar deildarinnar í fyrra til að móta áætlun fyrir deildina að starfa eftir til framtíðar. Ég minnist þess ekki að hafa séð hana nota Foucault. 

Ég viðurkenni að mér varð á í messunni varðandi þolendur/gerendur og tek til baka þau orð mín. um að fórnalömbin! Eins og þú segir þá er ekki hægt að tiltaka einstök mál en vissulega þekki ég til slíks mál og hér varð ég heldur fljót á mér!

Gaman að sjá hve vel gengur með MA námið þitt, ég efast ekki um að þú sért að vinna að áhugaverðu verkefni sem ég myndi hafa áhuga á að sjá þegar því er lokið!

bestu kveðjur!

Sunna Dóra Möller, 14.7.2008 kl. 20:08

18 identicon

Þetta er athyglivert að lesa.  Sunna segir:

"Ætlun okkar var bara að benda á að það sem Teitur segir að vanti er kennt í kúrsum sem eru kenndir á seinni stigum námsins, á þriðja til fimmta ári". 

Hún segir s.s að ég hafi sagt að nokka hluta hafi vantað í kennsluna.  Þetta er rangt hjá Sunnu því orðrétt sagði ég:

 "Varðandi guðfræðideildina sem mannaði mig, menntaði mig og skerpti á gáfum mínum og veitti þeim í þennan óvænta farveg er að vissu leiti gölluð stofnun. Í mínum huga eiga að vera skýr skil á milli hinnar trúarlegu innrætingar og hinnar fræðilegu kennslu. Það vantar einnig ýtarlegri biblíugagnrýni, kenningar um hinn sögulega Jesú, kynningu á trúarlegu umhverfi þegar Biblían er rituð, trú Egypta, kynningu á ýtarlegri kynningu á gnóstískum ritum. Svo ekki sé talað um Júdasarguðspjall sem er merkilegasti fornleifafundur síðustu árhundruða

Ég sagði að það vantaði "ýtarlegri" biblíugagrnýni, kenningar um hinn sögulega Jesús osfr.  Ég sagði ALDREI að það vantaði bibliugagnrýni, kenningar um hinn sögulega Jesús osfr.  þarna er munur á sem Sunna og Sigurvin hljóta að átta sig á.  Mér sýnist af þessari forsendu gefinni að grein Sunnu og Sigurvins sé ástæðu og innistæðulaus.

Eins og ég sagði í svar mínu við grein Sunnu og Sigurvins þá deili ég aðdáun minni á Jóni MA.  Hann er fræðilegur fram í fingurgóma, nokkuð sem mun hafa valdið kergju meðal margra nemenda við guðfræðideilidina.  Mun svo rammt hafa kveðið að þessari kergju að uppi voru þreyfingar um að kaupa kennslu utan úr bæ svo að nemendur þyrftu ekki að sitja í tímum Jóns með sína "hommaguðfræði" eins og það var kallað.

 Aðal gagnrými mín á guðfræðideildina í grein minni um trúlausa guðfræðingin var samblástur trúarinnrætingar/réttlætingar og hinna akademísku fræða. -Þetta tvennt fer ekki saman. Hefði Sunna og Sigurvin lesið næstu greinaskil þá er þar að finna aðalgagnrýni mína á námið í guðfræðideildinni.  

 Ég sé fyrir mér að ríkiskirkjan reki skóla á mastersstigi sem sér eingöngu um að mennta starfsmenn sem hyggja á þjónustu innan hennar. Allt BA nám í HÍ ætti að vera secular eða veraldlegt eins og það er kallað. Mér sem baráttumanni fyrir aðgreiningu ríkis og trúar finnst fáheyrt að opinber háskóli sjái um að mennta presta og annað starfsfólk fyrir eina kirkjudeild sem í landinu starfar. Mér finnst það bara óréttlátt.

Ég skil ekki afhverju Sunna og Sigurvin deila ekki þessari skoðun með mér?  Með þessu móti (skýrum skilum milli hins trúarlega og hins fræðilega) græða allir.  


Teitur Atlason (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 11:45

19 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Greinin er Teitur ekki innistæðurlaus vegna þess að "ítarleg" Biblíugagnrýni er til staðar osfrv. Það er það sem við erum benda á! Það er ítarlega farið yfir umhverfi Biblíunnar og gnostísk rit og allt hitt sem þú nefnir, ég mun til dæmis styðjast mikið við apókrýf rit í lokaverkefni mínu. Þannig að þessu er vel sinnt öllu....það er það sem við bendum á.

En ég er glöð að heyra að við deilum sömu aðdáun á prófessor Jóni, en hann er sá sem vakti áhuga minn á að læra meira í Guðfræðinni enda óendanlega gaman að stúdera þessi fræði sem hann kennir enda af nógu að taka þegar kemur að NT fræðum!

Það kæmi mér ekki á óvart þó að þetta verði aðskilið einhvern tímann, Guðfræðin og prestsnámið eins og hefur gerst út í heimi á mörgum stöðum og það má alveg færa rök fyrir því að eðlilegt sé að hver kirkjudeild sjái um að mennta sína presta. Ég er sjálf ekki hrifin af prestaskólum eða Biblíuskólum þar sem ekki er gætt hlutleysis í kennslu og hægt er að innræta fólki ákveðna skoðun. Ég trúi að á meðan prestsnámið er í háskóla að hluta þá sé enn hægt að komast hjá ýmsum hættum bókstafstrúar.....en svo gæti ég haft rangt fyrir mér hér, þetta er alla vega mín skoðun. Ég trúi til dæmis að barátta samkynhneigðra innan kirkjunnar sé komin þó þetta langt hér landi vegna þess að við fáum góða kennslu hjá kennurum  sem þora að hafa sínar eigin skoðanir á þessu máli óháð kirkjupólitík!

Bestu kveðjur, Sunna 

Sunna Dóra Möller, 15.7.2008 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hugsað upphátt

Höfundur

Sunna Dóra Möller
Sunna Dóra Möller
Guðfræðinemi sem stefnir á að útskrifast einhvern tímann og breyta svo heiminum í framhaldi af því!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Jóla
  • jólatrée
  • P1010337
  • P1010307
  • norðurferð 322

Annað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband