Hugleiðingar um hjónabandið!

Mig langaði af þessu tilefni að birta skrif um hjónabandið sem að ég sett á blað fyrr í vetur:

Það vill bregða við að þegar rætt er um málefni hjónabandsins að upp komi sá skilningur í samræðum og skrifum að menn telji að í hjónabandinu liggi fólgið hjálpræði.  Það er alveg ljóst að við verðum að átta okkur á því að skv. lúterskum skilningi er hjónabandið ekki hlut af hjálpræðisverkinu. Ég benti á tilvitnun Lúters úr Babýlónsku herleiðingunni þar sem hann talar um að umfjöllunin um hjónabandið innan Biblíunnar hafi ekki í sér fólgið það tákn sem er merking þess að um guðlega stofnun sé að ræða. Við þurfum að horfast í augu við það að innan kaþólskrar hefðar er hjónabandið sakramenti. Við yfirgáfum þann skilning fyrir um 500 árum síðan. Það er nú bara þannig. Þannig að allt tal um hjónabandið sem hluta af hjálpræðisverkinu verður að eiga sér stað innan annarrar hefðar og annars samhengis.  

Annað atriði sem mig langar líka til að taka upp varðandi hjónabandið er það að innan gagnkynhneigðra hjónabanda þrífast hlutir sem sjaldan eða aldrei er rætt um. Við getum t.d talað um þær syndir sem fyrirfinnast innan hjónabandsins en ekki utan þess. Það væri kannksi merkileg umræða!! Marie M. Fortune talar um þessar syndir í bók sinni Sexual Violence. Hún talar þar um aðgreiningu sem fundist hafa í leiðbeiningarritum varðandi kristið siðferði frá 15. öldinni fram á 19. öldina. Það er talað um syndir sem eru í samræmi við eðlið og þær sem eru andstæðar eðlinu. Forsendan fyrir hinum eðlilegu kynferðislegu syndum er sú að þær hafi æxlunarmöguleika. Það er að barn getur orðið til. Þess vegna er hórdómur; framhjáhald; sifjaspjell; nauðgun og brottnám allt álitið eðlilegar kynferðislegar syndir. Þrátt fyrir að þær eru syndir þá eru þær samt minna syndugar heldur en hinar, sem eru gegn því sem eðlilegt er. Í þann flokk falla sjálfsfróun; Saurlifnaður; samkynhneigð og dýrslegar hvatir. Ekkert af þessum syndum hefur möguleika á æxlun. Þess vegna eru þetta óeðlilegar syndir og voru litnar alvarlegum augum. Þetta syndastigveldi notar æxlunarhyggjuna sem forsendu til að dæma alvarleika synda. Þess vegna er til dæmis talað um að samkynhneigð sé í sama flokki og kynferðislegt ofbeldi. Innan þessar ramma eru sifjaspjell; naugðun og brottnám álitið syndugt ekki vegna þess að brotið er á líkamsrétti einstaklingsins heldur vegna þess að verið er að tala um verknaði sem eiga sér stað utan hjónabands. Þetta er minna syndugt samt heldur en verknaður sem í sjálfu sér hefur ekkert fórnarlamb. Til dæmis þá samkynhneigð og dýrslegt eðli. Af þessu leiðir að ekki er hægt að nota æxlunarhyggjuna sem forsendu fyrir siðfræði kynlífs og hjónabandsins, það hlýtur að liggja beint við. Með því erum við að réttlæta alvarlegustu brotin á líkamsrétti einstaklinga, sem eru oftar en ekki viðkvæmari fyrir þessum brotum eins og konur og börn. Það er kannski ekki skrýtið að við sjáum í dómaframkvæmd lágmarksrefsingar fyrir kynferðisbrot vegna þess að enn  þann dag í dag eimir eftir að þessari feðraveldishugsun þegar kemur að líkamsrétti kvenna og barna. 

Ef litið er á hjónabandið sjálft þá er það heldur engin trygging fyrir því að líkamsréttur sé virtur. Hjónabandsnauðganir eru algengar; heimilisofbeldi, bæði andlegt og líkamlegt. Kona er t.d. aldrei í jafnmikilli hættu á að verða fyrir ofbeldi af hálfu mannsins síns en þegar hún er ófrísk. Margt annað á sér stað innan hjónabandsins sem getur varla verið eðlilegt eða fjölskyldunni til góðs. Nú í dag stunda hjón t.d. makaskipti; kynlíf með fleirum en einum; eru í opnum hjónaböndum og ég veit ekki hvað og hvað. Getur þetta verið samfélaginu og hjónabandinu sem stofnun í samfélaginu til góðs. Er þetta hin dýrmæta stofnun sem við verndum af svo miklum krafti að við horfumst ekki í augu við þær brotalamir sem eru á hjónabandinu nú þegar.  

Ef að samkynhneigð er svo mikil synd að ekki má veita þeim rétt til að eigast hvað þá um allar þær syndir sem konur eru beittar með þögulu samþykki samfélagsins; hvað með öll börnin sem eru beitt ofbeldi í skjóli friðhelgi heimilsins. Hvað um öll þau brotnu hjónabönd sem ganga ekki upp vegna þess að fólk stendur ekki undir þeim kröfum sem það gerir um hið fullkomna líf og um leið gerir maka sinn ábyrgan fyrir því lífi einnig.  

Álit fólks á samkynhneigðum hefur oftar en ekki verið það að þeim er einmitt  líkt við kynferðisbrotamenn eins og t.d. Fortune talar um. Ellison segir að fyrir 20 árum síðan var andstaða við ást milli fólks af sama kyni vegna þess að talið var að samkynhneigðir gætu ekki átt í langtímasambandi og sinnt börnum. Nú í dag er ráðist á samkynhneigða vegna þess að þeir eru í langtímasamböndum og eru að ala upp börn. Í fortíðinni var veist að samkynhneigðum vegna þess að þeir voru álitnir sjálfselskir; lauslátir og óáreiðanlegir. Ellison segir jafnframt að menn tali um í dag að það megi vígja samkynhneigða sem presta en þegar talað eru um hjónbaband þá verður allt vitlaust.  

Ellison segir einnig að í menningu þar sem fólk er í auknum mæli að velja það að gifta sig ekki er það kaldhæðið að við eyðum svo mikilli orku í að koma í veg fyrir að fólk gifti sig. Hann segir einmitt að með því að leyfa hjónaband samkynhneigðra gæti það aukið á stöðugleikann í samfélaginu. Hann segir að staðreyndin er sú, að samkynhneigðir eru til, þeir eru að fullu mennskir, þeir elska og skapa fjölskyldur og sambönd sem hafa gildi. Spurningin er sú hvernig getur kirkjan og samfélagið náð utan um þessar félagslegu aðstæður þannig að samkynhneigð sambönd og fjölskyldur þeirra geti þrifist?? 

Þetta er 1.000.000 dollara spurningin og í henni felst einnig spurningin um trúverðugleika samfélagsins og kirkjunnar. Við erum fljót að veifa mannréttindasáttmálum þegar svo hentar, en gleymum þeim svo þegar óþægileg mál koma upp sem við erum “ekki  tilbúin” til að takast á við. Við erum það lítið tilbúin að meira segja æðsta löggjafarstofnun landsins, Alþingi, samþykkti að bíða eftir að kirkjan væri tilbúin þegar tillaga kom upp um að leyfa með lögum hjónaband samkynhneigðra. Hversu eðlilegt er það í lýðræðissamfélagi að mannréttindi þjóðfélagshópa séu virt að vettugi hjá löggjafanum og þeirri stofnum sem ætti að vera mest annt um að jöfn réttindi allra séu hið æðsta gildi! 

Það er stórt spurt..

Sunna

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Sunna, ég set þetta hérna þótt þetta á að vera svar frá blogginnu hennar Margrétar þar sem hún er búin að loka því. Að minnsta kosti fyrir mig.  Sunna, ég hef í rauninni ekki hugmynd hver þú ert, svo mér finnst ég vera í alveg sömu sporum og þú.  Varðandi munin á bréfunum, afhverju ertu mér ósammála að svona munur hefur litla sem enga þýðingu?  Maður getur gískað út frá svona atriðum en þetta verða alltaf mjög veik rök af því að menn geta skrifað hvernig sem þeir vilja.  Breytt sínum stíl eftir henti semi, eftir því við hvern þeir eru að tala og svo framvegis.  Engann veginn síðan sammála að það sé mismunandi guðfræði milla þessara bréfa.  Það sem síðan liggur á hreinu er að ef Páll skrifaði ekki t.d. Tímótesarbréf þá er bréfið lygi og ómerkilegur skeini pappír.  Þú síðan lætur kynlíf vera aðeins spurning um vald jafnvel þótt að alveg í gegnum alla Biblíuna þá hafa boðorðin tíu verið eitt af aðal atriðunum. Þau voru sett í hið allra helgasta, í sáttmáls örkina og fórnin í musterinu táknaði dauða Krist sem myndi borga fyrir það að við skyldum brjóta þessi boðorð. Í þessum boðorðum er síðan "þú skalt ekki drýgja hór" svo alveg frá upphafi hafa verið reglur um kynlíf.   Varðandi að Biblían geti ekki staðið óstudd, ef þú virkilega heldur að orð Guðs þurfi hjálpardekk þá verðuru að fyrirgefa en ég er ósammála.  Það getur verið gott að þekkja í kringum Biblíuna til að fá betri innsýn í hana en ekki mikið meira. Síðan ert þú alveg eins og ég, afsprengi þeirrar menningar sem þú fæðist í, hérna eru allir jafnir.  Kær kveðja, Mofi

Mofi (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 23:26

2 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Jú, sæll mofi! ég tók eftir þessu fyrst núna. Ég hef aldrei haldið öðru fram en að ég sé afspengi menningarinnar og þeirra sem að ég er komin af....þ.e.a.s. foreldrum mínum. ´´Eg er nú bara tiltölulega sátt við það!!

Svo ég segi það enn og aftur að þá eru ekki veik rök sem liggja undir textarannsóknum á Biblíunni. Það má vel vera að þér finnist það en svo er ekki. Það er marktækur munur á þessum bréfum og um það er ekki deilt í fræðaheiminum.

Svo er það þannig að kynlíf í fornöld snerist um vald og valdastöður. Það er algjörlega ljóst. Boðorðin fjalla ekki um á ást og virðingu milli tveggja einstaklinga, þau fjalla um eignarétt...sem var eignaréttur karlsins yfir konunni. Það að drýgja hór braut gegn þessum eignarétti, sama að girnast konu annars manns braut gegn eignarétti jafnt og að stela er að brjóta gegn eignarétti!!! Ekki setja hugsunarhátt 21. aldarinnar 2000-3000 ár aftur í tímann!!

kkv. Sunna

Sunna Dóra Möller, 27.4.2007 kl. 14:04

3 Smámynd: Mofi

Sæl Sunna, það er enginn ágreiningur um að það er munur milli bréfanna, spurningin er hvaða ályktanir getum við dregið af þessum mun. Ég fullyrði án nokkurs efa að allar þannig ályktanir eru mjög hæpnar. Geturðu ekki séð að ég og þú getum valið að skrifa allt öðru vísi eftir því í hvers konar skapi við erum í, til hverja við erum að skrifa og svo framvegis?   

Varðandi kynlífið og foröldina. Þarna finnst mér skína í gegn að þú lýtur ekki á Biblíuna sem orð Guðs heldur verk manna til að stjórna fólki.  Jesú tekur saman boðorðin sem kærleika til Guðs ( fyrstu fjögur af boðorðunum ) og kærleika til náungans ( restin af boðorðunum ).  Í síðan Móse lögunum er fjallað um hin og þessi brot í kynlífi, öll byggð á boðorðinu um að drýgja hór og þar kemur skýrt fram að það er kynlífið sjálft sem um ræðir. Mér finnst dáldið eins og þú trúir þróunarhugmyndinni þar sem við höfum verið að þróast síðustu fimm miljón árin frá öpum og ef svo er þá auðvitað hefur það gífurlega mikil áhrif á hvernig þú sérð þetta allt saman. Endilega fræddu mig um þína afstöðu í þeim efnum. 

Vina kveðja,
Mofi 

Mofi, 27.4.2007 kl. 17:50

4 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Í tilfellum bréfanna liggja flóknari rannsóknir að baki en að um einfalt dagsform sé að ræða á Páli það og það sinnið!

Biblían er skrifuð af mönnum inn í ákveðnar aðstæður á þeim tíma! Eins og bréfin eru beind að aðstæðum safnaðarins sem að þau eru skrifuð til í hvert sin. Snúast að safnaðaraga í stórum tilfellum!

Við komumst aldrei frá þeirri staðreynd að Biblían er skrifuð af mennsku, breysku fólki. En eitt skal ég segja þér mofi að ég trúi því heitt og innilega að, að baki öllum mannasetningunum, fordómum feðraveldsins og oftar en ekki kúgandi umhverfi fornaldar, sjáum við Jesú Krists sem að reisti fólk við og tók tal við þau sem að samfélagið áleit óhreina. Hér er ekki um vinsældahreyfingu að ræða. Ég trú á þennan krists sem lét lífið vegna þess að hann ögraði samfélagi síns tíma! Það eigum við líka að gera, að ögra og taka skrefið til mannréttinda á undan öðrum, áður en aðrir eru tilbúnir!! Ekki bíða eftir að aðrir geri það fyrir okkur! Það gerði Kristur ekki....þetta er mín trú!

Ef að engin þróun væri......þá værum við enn í hellum...

kkv. sunna

Sunna Dóra Möller, 27.4.2007 kl. 18:25

5 Smámynd: Mofi

Sunna, það hreinlega skiptir ekki máli hve flóknar rannsóknirnar eru, þær byggja á órökréttum grunni. Það er samt án efa hægt að rannsaka þetta á þann veginn og lesa eitthvað út úr því, endilega komdu með það sem þér finnst sterkast í þessum rannsóknum, það sem þér fannst vega þyngst.  Hvað síðan finnst þér um mína skoðun á því að ef einhver setur nafn Páls á bréf sem Páll skrifaði ekki þá er það bréf ómerkileg lygi sem ætti alls ekki heima í Biblíunni?

Varðandi Krist, það er rétt að Kristur fór til þeirra sem samfélagið hafði hafnað en oftar en ekki sagði Jesú að það væru hinir veiku sem þyrftu lækningu. Hann síðan reisti það fólk við, ekki til að halda áfram að lifa syndugu lífi heldur til að frelsast undan því. 

Varðandi þróun, það er slatti af fólki sem býr enn í hellum. Er ég að skilja rétt að þú hafnir þeirri sögu sem Mósebækurnar segja frá? Sköpuninni, syndafallinu, flóðinu og öllu því?

Mofi, 29.4.2007 kl. 20:40

6 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég er búin að segja þér hvað felst í þessum rannsóknum og ætla ekki að þrefa meira um þessi bréf. Mér er alveg sama hvað þér finnst um það, vegna þess að ég veit að þú hefur ekki tekið mið af því sem að ég hef sagt og tal þitt um órökréttann grunn er úr lausu lofti gripið.....! Ég nenni ekki að tala um þetta frekar....ég hef lýst því í hverju rannsóknirnar felast og ef þér finnst það ekki marktækt þá þú um það!!

Veistu það mofi að sköpunarsagan er ljóð og á sér hliðstæðu í Babýlónskri sköpunarsögu "Enuma Elish". Sömuleiðis á sagan af flóðinu sér nákvæma hliðstæðu í Babýlónskri trú. Gyðingar voru í útlegð í Babýlon og tóku þar mikið upp frá þeim enda ekki óvenjulegt að um samruna trúarhugmynda komi til þegar fólk býr saman af ólíkum trúarbrögðum. Þetta eru ekki nákvæmar sögur af atburðarrás sem átti sér stað. Við getum alveg horfst í augu við það. Spurningin er svo alltaf hvað gerum við með þessa þekkingu sem komin er til á tilurðarsögu biblíunnar!!

Sunna Dóra Möller, 30.4.2007 kl. 09:36

7 Smámynd: Mofi

Sunna, sem sagt að þegar kemur að því að koma með hvað þér finnst sannfærandi í þessum rannsóknum þá geturðu ekki komið með neitt en samt læturðu eins og þetta er voðalega merkileg vísindi. Er kannski ástæðan fyrir því að þú nennir ekki að ræða þetta frekar er vegna þess að það er lítið sem ekkert á bakvið þessa skoðun þína?  Afhverju segirðu ekkert um að þegar einhver lýgur að Páll hafi skrifað eitthvað að þá er það ómerkileg lýgi og á ekkert heima í Biblíunni?

Sköpunarsagan er ekki skrifuð sem ljóð.  Kannski er ástæðan fyrir því að margt í Mósebókunum er líka að finna í þjóðfélögum um allan heim er vegna þess að á bakvið það eru raunverulegir atburðir?  Þú setur þetta fram að gyðingar tóku margt frá Babelón, þú vonandi sérð að þetta hlýtur að þýða að minnsta kosti GT er bull og vitleysa og ekkert tengt Guði.  Ef saga heimsins er ekki í Biblíunni, hver er þá saga heimsins?  Er hún að við höfum verið að þróast frá hálfgerðum öpum síðustu þrem fjórum miljónum árum?

Mofi, 30.4.2007 kl. 10:42

8 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég hef sagt þér hvað mér finnst sannfærandi í þessum rannsóknum, það er merkingarfræði, málfarslegur samanburður á gríska textanum sem er ólíkur og það ólíkur að ekki er um sama höfund að ræða. Það er ólík mynd sem birtist af Páli í þessum bréfum. Í hinum 7 ekta er róttækur Páll að tala en í hinum er talað um meira "domesticated" Pál. Það er ekki efast um þetta í fræðunum í dag, jafnvel íhaldsamir fræðimenn samþykkja þennan mun. Þetta er skrifað af hópum sem eru kallaðir deutero pálínskir og nota kennivald Páls sem auðkennis stimpil á bréfin sín. Meira þarf ég ekki að segja um þetta mál! Ég hef þessa skoðun, þú ekki . Hér munum við ekki ná saman og þess vegna tel ég umræðunni lokið!!!!

Sköpunarsagan er skrifuð sem ljóð! Sú fyrri er talin vera frá því um 500 f. kr. eða i kringum herleiðingu. Sú síðari er reyndar talin aðeins eldri. Þú getur skoðað greinar Dr. Gunnlaugs A. Jónssonar annað hvort í ritröð Guðfræðistofnunar eða kirkjuritinu (Greinin heitir "Hvíldardagur í stað musteris") þar sem að hann tala um þetta, þó að þú munir líklega ekki gera það vegna þess að þú hefur nú svo sem ekki tekið mínum rökum hingað til. Gyðingar tóku margt frá Babýlon Það er bara staðreynd eins og Páll tók mikið úr grísk-rómverska umhverfinu þegar hann samdi guðfræði sína!!! Ég held að hér spili inn í þitt trúarumhverfi og ég geri ekki lítíð úr því en ég tel hér einnig að það hafi áhrif og þess vegna er þess umræða svo erfið vegna þess að þú tekur ekki mark á fræðirannsóknum heldur einungis því sem að þú trúr! Þess vegna finnst þér allar rannsóknir svo ómarktækar vegna þess að þær eru ekki í samræmi við trú þína!! Ég bara sé ekki tilganginn með þessum rökræðum.......sorrí!! kveðja, Sunna

Sunna Dóra Möller, 30.4.2007 kl. 11:26

9 Smámynd: Mofi

Sunna, það er greinilegt í mínum augum að þín afstaða til Biblíunnar er að hún er bull. Hvernig geturðu verið eitthvað að tala um Krist þegar allt um Hann og í kringum Hann er bara samið af hentisemi og oftar en ekki lygurum.  Ef einhver myndi skoða það sem ég hef skrifað á stuttri ævi þá gætu án efa margir ályktað að margt af því væri ekki eftir mig; fræðilega séð gæti það verið rökrétt en það væri eftir sem áður rangt.  Þegar þú talar um fræði þá leyfi ég mér að efast um að þú hafir virkilega skoðað margar hliðar á þessu, frekar það sem er sett fram sem sannleikur í HÍ.  Mæli með þessari bók hérna um NT: New Testament Introduction
Hef að vísu ekki lesið hana sjálfur en guðfræðingur sem ég hef mikið álit á mælti með henni sem bestu bókinni sem hann hafði lesið um þetta efni.

Afhverju er það staðreynd að gyðingar tóku eitthvað frá Babelón? Ég bara næ ekki svona hugmyndafræði. Afhverju er það ekki þannig að Babelón tók eitthvað frá gyðingum? Afhverju ekki að þetta var bara fólk sem hafði sömu sögurnar af því þær raunverulega gerðust og þess vegna höfðu þetta fólk svipaðar sögur?

Fyrstu kaflarnir í fyrstu Mósebók eru sett fram sem mannkynsaga þar ættartölur koma fram, atburðir og borgir og margt fleira.  Annað hvort var Jesú að segja satt þegar Hann sagði að í upphafi hafi Guð skapað þau karl og konu eða Hann var að ljúga og í rauninni þróuðumst við frá einhvers konar öpum. Annað hvort skapaði Guð heim þar sem dauði og þjáningar eru það sem bjó til hin æðri dýr eins og Darwin talaði um eða Biblían hefur rétt fyrir sér að Guð skapaði góðann heim en síðan kom synd í heiminn vegna þess sem menn gerðu.  Einhver hefur rangt fyrir sér og ég sé ekki betur en þú segir að Biblían hafi rangt fyrir sér.

Þú virðist halda að þú ert í einhverjum öðrum sporum en ég hérna, þú trúir ákveðnum fræðimönnum og þeirra kenningum en ég trúi þeim ekki. Ég trúi að Biblían er orð Guðs og annað hvort er það sannleikur eða lygi.

Mofi, 30.4.2007 kl. 16:33

10 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Flott! þá skulum við bara láta það vera lokaorð! Þú lest mikið inn í það sem ég hef hér verið að segja. Ég bara nenni ekki að standa í þessi þrefi. Ég bara ætla hvorki að fara að útlista það sem ég trúi eða reyna að gera grein fyrir fræðimrannsóknum þar sem að þú átt erfitt með að trúa öllu sem að ég set hér inn. Þá tel ég hreinlega mínum tíma betur varið í annað. Ég hef nóg fyrir stafni svona almennt og yfirleitt en að standa í þrasi sem að virðist geta haldið áfram endalaust án nokkurrar niðurstöðu í sjónmáli. Þú ert búin að ákveða að ég telji Biblíuna bull og það er bara fínt, hafði þá skoðun bara áfram! kkv. sunna

Sunna Dóra Möller, 30.4.2007 kl. 18:55

11 Smámynd: Mofi

Mér finnst dáldið undarlegt að fara í svona mikla vörn. Auðvitað les ég mikið inn í það sem þú hefur verið að segja, ég er aðeins að taka þín orð að þeirra rökrétta áfangastað. Ég á erfitt með að trúa innantómum fullyrðingum að skrifaðar heimildir sem eru í Biblíunni eru lygar af því að einhverjir kallar telja að mismunur milla þessara bréfa sanni eitthvað.  Þú verður að fyrirgefa en það er bara fyrir neðan allar hellur. Ég bað aðeins um dæmi um eitthvað sem þér þykir sannfærandi og þú flýrð í flæmingi við það, afhverju eiginlega fyrst þú ert svona sannfærð um ágæta þessara fræða? 

Ég sé ekki annað á skrifum þínum en þú teljir Biblíuna bull og mig langaði mjög svo að heyra þína skoðun á því, afhverju það er rangt eða afhverju það er rétt.  Kveðja, Mofi

Mofi, 1.5.2007 kl. 14:03

12 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég hef gefið þér dæmum færðlegrar rannsóknir á bréfunum og geri það ekki aftur. Ég hef ekki farið undan í flæmingi það ert þú sem ert ekki að ná því sem að ég hef sett hér fram.

Ég tel Biblíuna ekki bull en hún er full að mótsögnum sem þarf að skýra og gera grein fyrir!!

Sunna Dóra Möller, 1.5.2007 kl. 14:08

13 Smámynd: Mofi

Sunna, þú hefur vísað í rannsóknir en ekki getað bent á akkurat hvaða dæmi það eru sem þér finnst svona sannfærandi. Ég benti þér á bók eftir mjög merkilegann fræðimann sem hrekur þessar hugmyndir, endilega kíktu á þá bók við tækifæri. Maður getur aldrei verið með vitsmunalega afstöðu nema hafa skoðað í kjölin mismunandi sjónarhorn. Ég aftur á móti skil ekki afhverju þér finnst svona sannfærandi að fyrst það er munur á milli bréfanna að það sanni svona mismunandi höfunda.  Á maður ekki að þurfa ansi góð rök til flokka sagnfræðilega heimild sem lýgi? Þessi bréf eru síðan ómerkileg lýgi ef Páll skrifaði þau ekki.

Það er rétt að það virkar eins og Biblían innihaldi mótsagnir en ég fyrir mitt leiti hef aðeins fengið dýpri skilning við að glíma við dæmi um þannig mótsagnir. Niðurstaðan sem ég hef í dag er að þau dæmi sem ég hef rekist á voru ekki alvöru mótsagnir. Þau örfáu dæmi sem ég hef sit eftir með eru mjög ómerkileg sem hafa lítil sem engin áhrif á eitt eða neitt.

Mofi, 1.5.2007 kl. 21:17

14 Smámynd: Mofi

Vonandi virka ég ekki óvingjarnlegur, alls ekki meiningin en vinur minn sem ég bað um að lesa yfir og hann kommentaði að ég virkaði óvingjarnlegur; þarf að vinna eitthvað í því.

Mofi, 1.5.2007 kl. 21:20

15 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Viðhorf Páls til kvenna til dæmis, þau eru ólík hvort um er að ræða tild dæmis Gal eða Kor, þó að hann vísi í í Kor að konur eigi að þegja á safnaðarsamkomum í 14. kafla en þau ummæli eru talin seinni tíma viðbætur. Í 1 kor talar hann um konur sem samverkamenn, djákna og postula eins og dæmið um Júní sýnir. Í 1Tím eru konum ýtt á jaðarinn og inn á heimilin í hjónabandið þar sem að þeirra eina hjálpræði er´í gegnum barnsburðinn. Þetta lýsir samskonar viðhorfum og koma fram á 2. öldinni í skrifum Tertullíanusar og Ireneusar t.d. kveðja, sunna

Sunna Dóra Möller, 2.5.2007 kl. 10:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hugsað upphátt

Höfundur

Sunna Dóra Möller
Sunna Dóra Möller
Guðfræðinemi sem stefnir á að útskrifast einhvern tímann og breyta svo heiminum í framhaldi af því!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Jóla
  • jólatrée
  • P1010337
  • P1010307
  • norðurferð 322

Annað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 66264

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband