Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Samband!!

Ég sver það, ég á í haltumér slepptu mér sambandi við þetta blogg hérna, alltaf að koma og fara, hætta og ekki hætta....veit aldrei hvað ég vil, ef ég væri þetta blogg væri ég löngu búin að sparka mér LoLCool!

Gleðilegt ár, gleðilegt ár.....

Ég verð að viðurkenna að í mér býr viss feginleiki yfir því að árið 2008 er horfið í aldanna rás. Þetta var ekkert sérstaklega auðvelt ár, þó að margt gott hafi gerst og ég haldið lífi og heilsu ásamt öllum fjölskyldumeðlimum kærleiksheimilisins. Þetta var ár ákveðinna átaka innra með sem utan og án þess að ég ætli mér að vera of bjartsýn fyrir hönd komandi árs, þá er nýtt upphaf alltaf gott og gott að fá tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt. Ég get ekki séð fyrir hvað gerist á þessu ári enda engin völva og eflaust verða sigrar jafnt sem ósigrar, þannig er það alltaf í lífinu. Ég vona að hlutirnir verði þó ekki of erfiðir og við náum að sigla þann sjó sem við búum okkur nokkuð örugglega. Ákveðnir póstar verða alltaf á sýnum stað eins og að: 
 
  • Vakna á hverjum virkum degi klukkan 7 til að koma börnunum í skólann.
  • Ég mun versla reglulega í matinn og taka bensín á bílinn.
  • Ég mun mæta í vinnu yfirleitt um hádegi til að hitta börnin í Neskirkju.
  • Þess á milli mun ég reyna að skrifa eitthvað í óloknu tímamótaverki.
  • Ég mun líklega reiða fram kvöldmat um sex leytið dag hvern, koma börnum í ró um átta og fara sjálf að sofa að loknum 10 fréttum.
  • Helgar verða án efa nýttar til vinnu, enda vinnur húsband um helgar, einstaka helgar verða þó fríhelgar þar sem við munum reyna að komast frá borgarljósunum í sveitakyrrð.
  • Páskar koma um svipað leyti og venjulega og þá verður löngun í brúnaðar kartöflur og rjómasósur komin á ný eftir jólin.
  • Sumarið kemur á eftir vetri og vori og líklega mun haust fylgja í kjölfarið!
  • Vetur kemur og síðan jól á ný.
Þetta er það sem hægt er að sjá fyrir með nokkurri vissu, annað er óvænt og ófyrirséð. Eitthvað mun verða til gæfu annað ekki. En nýtt upphaf og nýtt ár felur í sér smá kvíða en einnig felur það í sér vilja til að taka við því með reisn, upprétt og hreinskilin gangvart þeim aðstæðum sem koma upp hverju sinni.
 
Megi nýtt ár færa okkur gæfu, réttlæti og nýtt þjóðfélag sem við öll getum sætt okkur við eftir áföll liðins árs.
 
Sunna
 
 

Framtíð, nútíð og fortíð....

Þessa dagana á núið ekki upp á pallborðið hjá mér, framtíðin á stóran sess auk þess sem fortíðin treður sér að við og við. Það kostar ótrúlega mikla orku að reyna að rýna sífellt inn í framtíðina og sjá fyrir sér allar mögulegar og ómögulegar aðstæður. Þolinmæði er ekki mín stærsta dyggð og verður seint enda er ég ein af þeim sem get ekki lesið heila bók án þess að skoða endann fyrst. Það hreinlega fer með mig að vita ekki hvernig hlutirnir enda og ég bara þoli ekki langa bið. En núna bíð ég og bið góðan Guð að kenna mér að telja daga mína svo að ég megi öðlast viturt hjarta. Ekki spillir fyrir slatti af auðmýkt, dass af æðruleysi og ögn að hugarró!

Ég hef það þó á tilfinningunni að örlög mín ráðist fyrr en síðar og hver þau örlög verða munu móta næstu ár svo um munar. 

Guð gefi ykkur öllum góð og farsæl, slysalaus áramót og munið að brosa á nýársdag, ég fer alltaf í 24 stunda nýársdagsþunglyndi en reyni þó alltaf að brosa gegnum tárin.

Sunna

 


Gleðileg jól!

Ég óska öllum gleðilegra jóla og ég vona að við getum öll átt góða jólahátið, hvort sem við höldum upp á fæðingarhátíð frelsarans, ljósahátíð eða bara almenna friðarhátið Halo. Hafið það sem allra best og vonandi færir nýtt ár okkur betri tíð með blóm í haga LoLWink!
 
Kær kveðja, Sunna!

Jólagjöfin mín ár......jólablogg II

Ég les oft bæklinga fyrir jól um alls konar varning sem er í boði, ég spái og spuklera í framboði og velti svo fyrir mér eftirspurn heimilisins. 
 
Núna settist ég niður áðan og skoðaði Byko bækling og á baksíðunni eru hugmyndir að nytsamlegum jólagjöfum. Ein vakti althygli mína en það er forláta fitumælinga baðvog. Hún mælir sem sagt líkamsfitu. vökvahlutfall, vöðvamassa og beinmassa....alveg bráðnauðsynleg í pakkann undir tréð......
 
Ég segi það alveg satt að ef einhver gæfi mér svona jólagjöf myndi sá og hinn sami detta af jólakortalistanum mínum og ég myndi ekki tala við þann aðila í amk. ár! Að mæla fitu rétt eftir jól ásamt þyngd er ávísun á þunglyndi fram eftir ári og er ekki ábætandi ofan á kreppur og annað vonleysi Cool!
 
Fitumælingarbaðvog væri því hermdargjöf, ég veit vel hvar mína fitu er að finna og hefur hún komið sér vel fyrir hér og þar og dagleg áminning um fithlutfall væri mér gjörsamlega um megn.....ég kalla þetta því ekki (sorrí Byko) nytsamlega jólagjöf ....heldur einhver sá mesti voði sem ég get hugsað mér og bið því frekar um bók, þó ekki bókina um Óla pres....það er líka einhver sá mesti voði sem ég get hugsað mér og myndi alveg gera mér  hluti ..... Whistling
 
Nóg um ó-nytsamlegar jólagjafir, fleiri hugmyndir einhver??...
 
Næst skrifa ég um um nytsamlegar jólagjafir, ábendingar eru vel þegnar LoL

Eina ósk.....

..........Ég væri ekki í vafa hvers ég óskaði mér.....WhistlingCool!

Merkilegt...

....að á meðan allir blogga og blogga sem aldrei fyrr eins og enginn komi morgundagurinn og hafa sterkar og ákveðnar skoðanir á því sem er að gerast, þá hef ég ekkert að segja og blogga ekki neitt......Pinch.

Ég er samt hér og fylgist með í laumi, skil ekki eftir stór spor....hugsa og velti vöngum! Það virkar vel fyrir mig og hver veit nema ég fari og mótmæli á morgun ... ég hef alla vega aldrei verið nærri því en nú, áður fyrr fannst mér mótmæli asnaleg, bara örfáir unglingar og Sigurður A. Magnússon. Núna finnst mér mótmæli lífsnauðsynleg .... svona breytast viðhorf og skoðanir, kannski ég er að þroskast og læra og í fæðingarhríðunum vil ég vera á hliðarlínunni, til að læra meira.....

Farið vel með ykkur yfir helgina .... Heart


Þá er það ákveðið!

Kæra fólk nær og fjær!
Ég hef tekið þá ákvörðun, búin að velta henni fram og til baka og loksins náð landi sem betur fer enda búin að vera að veltast um í brimgarðinum (kreppuorðalag) síðustu vikur og daga. Ég ætla að að setja bloggferil minn í stopp og hætta að blogga hér og mun alls ekki heldur blogga þar. Ég bara hef einhvern veginn misst áhugann á þessu enda orðið langt á milli færslna og ég finn að ég hef ekki sama eldmóðinn og áður til að skrifa og ef ég skrifa finnst mér það einna helst vera svona merkingarlaust blaður um dittinn og dattinn. Ég hef samt sem áður enn gaman af því að lesa aðra og hef kynnst mörgum afar góðum bloggurum hér inni á þessum vettvangi og meira segja séð aftur fólk sem ég hafði ekki séð í mörg ár og hef haft gaman af að geta fylgst með inn um blogggluggann. Til ykkar vil ég segja, takk fyrir að vera alltaf skemmtileg, koma mér til að hlægja og allt þar á milli með ykkar skrifum. Þið hafið sannarlega létt mér lífið oft og tíðum þegar ég les skrifin ykkar Heart!
En þar sem ég er svo heimsk að trúa á Guð og finnast kirkjan frábær, þá ætla ég að helga mig því að ljúka náminu mínu og starfa áfram í Neskirkju að barna- og æskulýðsmálum. Ég veit að þetta er alls ekki inn í dag enda margir að nýta sér kreppuumræðuna til að sparka í kirkjuna og þjóna hennar en ég hef svo sem aldrei verið inn þannig að á því verður ekki mikil breyting svo sem til batnaðar. Það er svo merkilegt að það er mikil eftirspurn eftir þessari þjónustu og fullt af fólki sem kemur sjálfviljugt, já það þannig, ótrúlegt en satt, til kirkjunnar og þiggur það sem hún hefur upp á að bjóða, en það er margt fleira í boði en sunnudagsmessur...sem er líka alveg ótrúlegt að margra mati..það er svo margt ótrúlegt í henni veröld og ég mun bara fylgja þeirri sannfæringu sem ég hef og ég ætla að reyna að hætta að taka hluti inn á mig og þær rangfærslur sem vaða uppi án afláts með upphrópunum og köllum. 
Ég þakka samveruna og vona að þið sem hafið lesið hér rausið mitt, eigið eftir að eiga góða tíma og ég vona að þið komist í gegnum það sem fram undan er áfallalaust og ég bið góðan Guð sem ég trúi og treysti að vaka yfir ykkur alltaf og að eilífu!
Sunna Dóra!

Tvær ástæður fyrir því að ég get ekki búið í Afríku!

P1010307P1010337Eflaust finnst einhverjum þessi dýr vera pínöts en ekki henni mér. Ég er annars eins og sést af þessum myndum búin að endurheimta Afrikufarann heim á ný. Mig langaði einhvern veginn ekki að blogga um kreppu og banka og allt það Það er einfaldlega of mikil óreiða í hausnum á mér vegna alls þess sem á hefur dunið. Ég held að mín kynslóð þurfi svolítið að skoða málin alveg upp á nýtt enda þekkjum við almennt ekki annað en góðærið síðastliðinna ára. Frjálst aðengi að lánsfé, visa rað, bílalán, yfirdráttarheimildir, myntkörfulán og stanslausa veislu. Við erum innlit/útli kynslóðin sem kom í sjónvarpið og sýndi nýuppgerðar íbúðir og rándýra hönnun og ég veit ekki hvað og hvað. Mér hefur alltaf fundist gaman í veislum og en mér leiðast timburmenn og vill forðast þá eins og heitastan eldinn! Eitthvað held ég nú að timburmennirnir sem núna dynja á verði óumflúnir. Mín kynslóð kann held ég lítið á kreppur og þess vegna vil ég bara núna sitja á hliðarlínunni og fylgjast með. Ég finn með öllu því fólki sem er að tapa og missa vinnuna, þetta er held ég eitthvað sem er að gerast í öllu okkar nærumhverfi og engin er ósnortinn af þessu. Kannski syrgi ég líka innst inni blekkinguna og veisluna......kannski langaði mig til að trúa að allt þetta gæti gengið alveg hindrunarlaust! Eins og ég sagði að þá er allt í óreiðu í hausnum á mér og það kemur hér fram í sundurlausri færslu!
 
En ég verð alla vega á Íslandi áfram......ekki í Afriku, það var svona puntkurinn neð færslunni LoLCool!
 
blessíbilinu!

Hux

Ég hef ekki þolinmæði eða löngun í að lesa fleiri bölmóðsfréttir!! Eftir að hafa hlustað stanslaust í gær á neikvæðar fréttir alveg frá morgni til kvölds og síðan byrjar þetta aftur nú í morgunsárið, að þá er ég á því að ég veri pottþétt farin að bryðja töflur til að létta geðið innan tíðar ef það fer ekki eitthvað að rofa til eða þá að fréttamenn finni eitthvað skemmtilegt að segja frá.

Það er ekki nóg að allt sé á vonarvöl heldur er stefnir í að öll olía í landinu klárist og ofan á allt er komin hálka og ég á sléttum sumardekkjum. Það er sem sagt ekki eitt....það er allt W00t!

Ég er að huxa um að horfa á Disney myndir í allan dag og bíða eftir að það hlýni svo ég komist í matarbúð að kaupa slátur og mér sem finnst slátur vont LoLShocking! Held að hlutirnir geti ekki verið dapurlegri......farin að horfa á Bangsímon Whistling!

 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Hugsað upphátt

Höfundur

Sunna Dóra Möller
Sunna Dóra Möller
Guðfræðinemi sem stefnir á að útskrifast einhvern tímann og breyta svo heiminum í framhaldi af því!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Jóla
  • jólatrée
  • P1010337
  • P1010307
  • norðurferð 322

Annað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband