Upprisan!

Enn af fræðum sem liggja á borðinu hjá mér. Í dag er það upprisan. Já, það er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur enda er ég stórhuga með eindæmum í dag og þakka það góðum hádegismat á Salatbarnum og gönguferð í framhaldinu í Elliðaárdalnum! Nú er það fræðimaður sem heitir Stephen J. Patterson sem hefur orðið fyrir valinu og ég gef honum orðið. Eftirfarandi er tekið úr bók sem heitir "Beyond the Passion. Rethinking the death and the Life of Jesus":

Í dag þegar talað er um upprisu er átt við upprisu Jesú Krists. Það staðsetur okkur innan annars ramma en fornaldarhugmyndir voru í. Í fornöld áttu menn ekki erfitt með að trúa á upprisu per se. Upprisa var algengur þáttur í flestum trúarbrögðum fornaldar. Hér var um að ræða örlög margra spámanna, píslarvotta og hetja. Marteinn Luther King, Gandhi og Lou Gehrig hefðu verið sterkir kandídatar í að rísa upp skv. stöðlum fornaldar. Aftur á mótu var Jesús það ekki. Hann var ekki spámaður, dauði hans var aftaka ekki píslardómur. Hann lifði í fátækt og dauði hans var í skömm og langt frá því að vera hetjulegur. Upprisa í fornöld var ekki fyrir þannig lítils megnandi fólk. 

Í fornöld var sú grundvallarhugmynd að einhver deyi og vakni á ný til lífs ekki einstök. Jafnvel í Nt þá er hún ekki einstök sbr. söguna af upprisu Lasarusar í Jh. 11 og dóttur Jaírusar í Mk. 6.35-43. 

Páll lítur jafnvel ekki á upprisu Jesú sem einstaka, heldur sem fyrsta af mörgum sbr. 1. Kor. 15.20. 

Það er mikill munur á því hvernig fólk til forna og nútímamenn tala um trú sína á hinn upprisna drottinn. Fyrir nútímafólk er upprisa ómöguleg nema í tilviki Jesú Krists. Þess vegna er þetta orðinn einstakur atburður í ímyndun okkar, atburður sem sannar að við höfum rétt fyrir okkur varðandi Jesú, son Guðs. Til forna var upprisa vel möguleg. Það var það sem átti sér stað hjá hetjum og guðum. En Jesús passaði ekki vel inn í þá mynd.

Fornaldarfólk trúði á upprisuna en það hefði að öllum líkindum ekki litið á Jesú sem líklegan kandídat! Dauði hans var ekki dauði hetju. Hann var fæddur af almúgafólki og dó sem sakamaður. Samt var talað um hann á sama hátt og var talað um Herkúles, Aesklepíus eða Sesar. Hvers vegna?? 

Lítum fyrst á 1. Kor. 15.3. Þessi texti er líklega eldri en bréfið og líklegast eitthvað sem að Páll tók við frá öðrum. Honum var kennd þessi formúla og hér flytur hann hana áfram.  Raunveruleg rök Páls hér eru þau að Kristur hefur verið reistur frá dauðum – það er eitthvað sem að allir Korintubúar myndu samþykkja. Þetta var innihald vitnisburðar Páls sem að hann hafði fært þeim í upphafi.

Hafa skal í huga að hjá Páli var upprisa Jesú fyrsta af mörgum sem koma skyldi. Þetta var upphafið á miklu cosmísku drama þar sem að valdahlutföllum heimsins yrði kollvarpað. Hér kemur hugmyndin um upprisuna úr gyðinglegu umhverfi. Bæði upprisan og apókalyptismi ávarpa sama grundvallar álitamálið: Hvað gerist þegar líf og dauði eru ekki vitnisburður um hið góða og hið illa. Þegar hið illa lifir og hið góða deyr, hvar er Guð og skiptir þetta hann máli. 

Í gegnum 1. Kor. 15 talar Páll máli píslarvottanna. Þeir sem hafa dáið og þeir sem að hætta á dauða, munu ekki glatast. Þetta er mikilvægi upprisunnar. Hugmynd hans um upprisuna er líkamleg. Þetta var mikilvægt í ljósi líkamlegra þjáninga píslarvottanna. Píslarbókmenntir dvelja við líkamlegar þjáningar pyntinga, varnarleysi líkamans og nauðsyn þess að hefja sig yfir þær ógnir sem að steðja að líkamanum af hendi óvinarins.  Upprisa Jesú sem fyrsta af mörgum sem koma á eftir er fullvissa um að dauði píslarvottanna er ekki án tilgangs.  

Sannanir fyrir upprisu Jesú í sjálfu sér eru ekki miklar. Þær geta virkað miklar í dag fyrir kristna en það er vegna þess að hefðin hefur kennt okkur að líta á allt í Biblíunni sem hafið yfir allan vafa. Það er einnig vegna þess að það er ekki eins mikið í húfi fyrir okkur í dag eins og áður fyrr. Það blasir t.d ekki við okkur að líða píslarvætti. Andstæðan er frekar málið. Við erum hvött og verlaunuð af kirkjunni okkar og menningunni fyrir að trúa á upprisu Jesú.  

Hvað ef að það að trúa á Jesú merkti það í dag, að yfirgefa heimili sitt og hætta á lífstíl sem væri erfiður og gæti jafnvel sett okkur í lífshættu gagnvart ríkinu. Hvað ef að það merkti að ögra gildum menningar sem myndi ekki samþykkja það með yfirveguðum hætti. Hvað ef að yfirlýsingarnar um upprisuna í frumkristnu samhengi hefði verið nóg til að sannfæra fólk um að allar þessar fórnir væru virkilega þess virði. Höfundur efast um þetta!!

Fylgdarfólk Jesú þurfti meira en kraftaverk. Kraftaverk voru þekkt í fornaldarsamhengi og upprisa var hluti af trúarbrögðum þeirra. Fyrir fylgdarfólk Jesú, var trú á það kraftaverk að Guð reisti einhvern upp frá dauðum ekki vandamál. Vandamálið var að Guð reisti Jesú upp frá dauðum!! 

Það sem er merkilegt hér er það að Jesús hafði ákveðna sýn sem að laðaði að sér trygga fylgismenn. Hann hafði ástæðu sem var Guðsríkið. Allt það fólk sem að fylgdi honum trúði á það sem hann stóð fyrir, sem einn af hinum Guðs réttlættu. Ef að óvinurinn átti að finna hann og drepa, mun fylgdarfólk hans hafa trúað af öllu hjarta að Guð forfeðra þeirra, Guð réttlætis og réttvísi myndi endurleysa hann frá þjáningum sínum og reisa hann til lífs.  Þau trúðu að Guð myndi reisa Jesú frá dauðum af því að þau trúðu á Jesú. Það skipti þau ekki máli að hann var ekki hetja skv. stöðlum fornaldarinnar.

Fólkið sem að fylgdi Jesú var sjálft lítilsmegandi og utangarðs. Jesús var maður sem að sannfærði fólkið um að það sjálft skipti Guð máli. Þessi maður var hetjan þeirra, þeirra spámaður. Það er þess vegna, þegar að lokunum kom að þau lýstu yfir upprisu hans. Þau gátu gert það á þeim degi sem að hann dó og hugsanlega gerðu þau það. 

Átti eitthvað sér raunverulega stað??? 

Til viðbótar við píslarsöguna þá minnist Páll einnig á leyndardómsfulla hluti eins og birtingar! Jesús birtist Kefasi og síðan hinum 12. Síðan birtist hann meira en 500 bræðrum og systrum á sama tíma, einhverjir eru enn á lífi aðrir hafa sofnað osfrv.

Hið andlega líf sem að Jesús kom í kring með fylgdarfólki sínu fyrir dauða hans, hætti ekki þegar hann dó. Það hélt áfram. Nú gat fólkið ekki bara talað um anda Guðs á meðal þeirra heldur einnig anda Krists.  Það var í gegnum Jesú sem að fólkið reyndi fyrst Guð á þennan nýja hátt. Þegar fólkið hélt áfram að reyna anda Guðs eftir dauða Jesú, kallaði það fram það að fólkið reyndi anda Guðs, í gegnum anda Krists.

Þannig má skilja 1. Kor. 15 og staðhæfingu Páls að 500 hafi reynt hinn upprisna Krist á sama tíma. Þessi períkópa á líklegast ekki við að risavaxinn Kristur birtist frammi fyrir hundruðum. Þetta vísar til andlegs algleymis, sem var reynt af mörgum sem að kom saman í tilbeiðslu. Þessar stundir í andlegu algleymi, sem var reynd bæði einstaklingsbundið og í samfélagi varð nú reynsla af hinum upprisna Kristi. 

Fyrir marga varð þetta lýsandi reynsla í fylgdinni við Jesú. Það er þessi andlega reynsla sem að fæddi af sér kristindóminn sjálfann!! Þessar “birtingar” Jesú til sinna nánustu fylgdarmanna hans varð fyrir þá staðfesting á kennivaldinu til að halda áfram því sem að Jesú hafði þegar hafið. Þetta varð þeirra postulega vald! 

Spurning um ákvörðun! 

Þegar allt kemur til alls að þá eru að sjálfsögðu hinar andlegu upplifanir hina frumkristnu ekki sannanir fyrir því að Jesú reis upp frá dauðum eða að hann var sonur Guðs. Fyrir hina fornu er allt eins mögulegt að þessum sögum hefði getað verið hafnað, sem hreinum draugasögum.  

Nútímafólk gæti talað um þessar birtingarsögur sem fjölda-hysteríu eða sem sorgarreynslu að sjá aftur þann sem maður elskar eftir að hann er nýfallinn frá, eitthvað sem að algengt er að fólk tali um í dag. 

Tvíræðnin að baki þessum reynslusögum er enn og aftur merki þess að staðreyndin er sú að kristin trú á ekki uppruna sinn í þessum sögum.  Fylgdarfólk Jesú talaði um algleymis trúarreynslu sína á þennan hátt, sem reynslu af hinum upprisna Kristi, vegna sannfæringar sem að á rætur að rekja til annars upphafs. Sannfæring þessa fólks byrjaði löngur fyrir dauða hans. Á þeim degi þegar allt í einu það heyrði rödd Jesú og hann mælti og sagði eitthvað sem að hreyfði innilega við fólki. Í hans félagsskap lærði fólkið að þekkja Guð. Í rödd Jesú hljómaði rödd Guðs. Með starfi hans lærðu þau að þekkja ríki Guðs. Fólkið tengdist honum og sýn hans um nýtt ríki, nýjan heim sem var að fæðast. Það trúði á hann. Þegar hann dó þá vissi fólkið að andi Guðs sem að það hafði reynt í orðum Jesú og gjörðum yrði ekki út kastað.  

Fylgdarfólk Jesú trúði ekki á hann vegna upprisunnar. Það trúði á upprisuna vegna þess að það hafði fyrst trúað á hann og á hið andlega líf sem að hann bjó þeim. Þetta er að lokum það sem að upprisuyfirlýsingin snýst um. Hún snýst um þá ákvörðun að trúa á Jesú og gefa sjálfa sig andanum til að hann uppgötvi þig í hans lífi!!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

"Sannanir fyrir upprisu Jesú í sjálfu sér eru ekki miklar. Þær geta virkað miklar í dag fyrir kristna en það er vegna þess að hefðin hefur kennt okkur að líta á allt í Biblíunni sem hafið yfir allan vafa."

Mér finnst undarlegt að tala um "sannanir" þarna. En nú þegar biblían er ekki hafin yfir allan vafa og í ljósi þess að fyrstu birtingar Jesú voru andlegar, er þá ekki ljóst að helgisögurnar um líkamlega upprisu Jesú og tómu gröfina eru ekki sanar?

"Þannig má skilja 1. Kor. 15 og staðhæfingu Páls að 500 hafi reynt hinn upprisna Krist á sama tíma. Þessi períkópa á líklegast ekki við að risavaxinn Kristur birtist frammi fyrir hundruðum. Þetta vísar til andlegs algleymis, sem var reynt af mörgum sem að kom saman í tilbeiðslu. Þessar stundir í andlegu algleymi, sem var reynd bæði einstaklingsbundið og í samfélagi varð nú reynsla af hinum upprisna Kristi."

Þá höfum við að minnsta kosti tvo hluta í upphafi 1. Kór 15. sem sáu bara Jesú
andlega. Er þá ekki líklegt að það sama eigi við hitt fólkið á listanum?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 22.5.2007 kl. 23:19

2 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Sæll Hjalti!

Höfundur er í þessari ágætu grein að bera saman það sem er ólíkt milli hugmynda hinna fyrstu kristnu og trúabragða grísk-rómverska ríkisins. Hann skoðar í þessari grein birtingarsögurnar og opnu gröfina og kemst að því að þær eru ekki ólíkar því sem að var þekkt í öðrum trúarbrögðum. Það er að einhver birtist aftur eftir dauðann eða að gröf væri tóm. Hann er svo sem ekki að taka inn í myndina neitt annað í þessari rannsókn nema þennan samanburð! Ég ætla heldur ekki að gefa neitt út á það hér hvort að ljóst sé út frá þessari umræðu höfundar um sönnunargildi frásagnanna enda ekki hægt miðað við þær forsendur sem að höfundur er með, sem er samanburður milli trúarbragðanna. Mér finnst það ekki liggja ljóst eins og þú segir út frá þessu litla greinakorni að sögurnar séu ósannar. Ég tel það nú ansi stóra ályktun út frá litlu og eins og ég sagði ekki rannsóknarefnið hér!

Varðandi seinni ályktunina sem að þú dregur að þá segir höfundur að þessar andlegu upplifanir eigi líka við hina nánu vini Jesú, postulana, kefas. Jakob og Co! Talað er um að vera í anda Krists og í því felst upplifunin! Ég ætla hér ekki heldur að draga neinar ályktanir af þessum orðum höfundar! Enda ekki búin að lesa mér til um aðrar hugmyndir til að geta skoðað það í samhengi! Tilgangur minn var aðeins að reifa þessar hugmyndir hér sem að hann setur fram, ekki að leggja sönnunarmat á þær. Til þess þarf stærri rannsókn ásamt meiri tíma sem að ég hef ekki að þessu sinni! kveðja!

Sunna Dóra Möller, 23.5.2007 kl. 10:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hugsað upphátt

Höfundur

Sunna Dóra Möller
Sunna Dóra Möller
Guðfræðinemi sem stefnir á að útskrifast einhvern tímann og breyta svo heiminum í framhaldi af því!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Jóla
  • jólatrée
  • P1010337
  • P1010307
  • norðurferð 322

Annað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 66438

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband