3.6.2007 | 21:35
Predikun og frí!
Við fjölskyldan erum að fara í viku frí! Ætlum í sveitina og svo norður í fermingu. Við komum ekki aftur fyrr á á sunnudagskvöldið! Þannig að nú fer ég í blogg-frí........fæ eflaust blogg-fráhvörf þar sem að ég verð netlaus í 7 daga....! Vona að bloggvinir mínir leyfi mér að hanga inni og gefist ekki upp á mér og hendi mér út vegna bloggleysis .....ég hef svo gaman af því að lesa ykkur öllsömul hvert og eitt og einasta! Ég mun blogga á ný þegar ég sný heim alveg ótrauð!
En ég set hér inn predikunina sem að ég flutti áðan í kvöldmessu í Laugarneskirkju. Ágætis veganesti inn í vikuna! Ef að einhver sér eitthvað stórkostlegt að henni og sér sig tilknúinn til að gagnrýna hana þá mun ég ekki geta svaráð því fyrr en eftir viku þ.e.a.s ef að það er eitthvað til að svara fyrir ! Betra að hafa samt svona fyrirvara á sko....vera við öllu búin þar sem að sú fregn gengur eins og eldur í sinu hér inni á blogginu að kristnir séu ofsóttir á ný! Mér er farið að líða eins og fólkinu um 200-400 e. kr. Ég býst við að verða send í hringinn innan skamms og verða villidýrum að bráð......!
En hafið það sem allra, allra bestast! Síjúleiteralligeiter!
Matteus! 8.23-27!
Við skulum biðja:
Algóði Guð, hjálpa okkur að vera bænheyrsla þín þeim sem þjást og líða, sakna og syrgja. Hugga þau sem gráta, reis á fætur þau sem hrasa. Gef öllum börnum þínum hönd til að styðjast við, huga sem ann og hjarta sem skilur. Í Jesú nafni, Drottinn miskunna þú.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi, Amen.
Maður einn stendur við bryggju! Við blasir ólgandi sjórinn. Hann er hræddur. Hann óttast þau öfl sem búa í hinu ólgandi hafi. Hann er kvíðinn og óöruggur. Við bryggjuna liggur bátur í festum. Landgangurinn er úti og manninum er boðið að ganga um borð. Hann hugsar hvort að hann eigi að þora að taka skrefið og treysta bátnum til að stýra sér í örugga höfn. Á hinn bóginn veit hann að möguleiki er á að hann farist. Hann þarf að gera upp við sig hvort að hann sé tilbúin til að taka þá áhættu. Treystir hann eða lætur hann undan óttanum og stendur eftir við bryggjuna þegar báturinn lætur úr höfn.
Þessa líkingu af trúarglímunni notaði Marteinn Lúter þegar hann lýsti því þegar manneskjan ákveður að trúa og treysta Guði fyrir sjálfri sér. Lúter talaði um að sönn trú væri trú frá hjartans rótum. Trú sem að gerir manneskjunni kleift að taka skrefið, stíga um borð og treysta að Guð stýri í örugga höfn.
Báturinn hefur verið í kristinni trúarhefð tákn fyrir kirkjuna. Kirkjan sem er okkur dýrmæt og við komum til hennar í leit að skjóli fyrir veðrum og vindum mannlífsins. Við viljum að kirkjan sé okkar skjól og gerum tilkall til að hún taki á móti okkur í sorg og neyð. Þannig leggjum við traust á kirkjuna, við treystum því að hún sé fylgin boðskap þess sem stofnaði hana. Við treystum því að kirkjan feti í sömu spor og Jesús skyldi eftir sig á ferðum sínum um Galíelu. Um leið gerum við ekki ráð fyrir því að kirkjan okkar bregðist, vegna þess að hún á fastann og öruggann grunn til að standa á.
Við viljum að kirkjan sé trúverðug, því aðeins þannig getur hún verið það skjól sem að henni ber þegar hún hreskt um í stormviðrum þessa heims. Kirkja sem hefur gleymt hver hún er og tapað tengslum við þann grunn sem hún er byggð á missir trúverðugleik sinn og um leið glatar trausti fólksins. Kirkjan sjálf hefur lent í vindum þess heims.
Við eigum minningar um fólk sem að fór gegn kirkjunni sjálfri þegar því fannst hún vera komin langt af leið. Það þurfti að leiðrétta sjókortin og endurstilla kompásinn. Hin kristna saga hefur þannig gefið okkur minningar sem að fela í sér hugrekki! Fólk sem að kom fram og talaði inn í aðstæður óréttlætis og kúgunar. Rödd þessa fólks var ekki kveðin niður jafnvel þótt að það væri reynt af miklum mætti, þá lifir þetta fólk í minningu okkar.
Við þekkjum rödd Marteins Lúters sem réðist gegn hinni miklu móður, kaþólsku kirkjunni. Hann hafði ekkert nema orðið eitt að vopni og hafði sigur. Hann stóð óhræddur gegn hinu mikla veldi sem kirkjan var og að hans eigin sögn gat hann ekki annað. Sannleikurin, réttlætið og trúin voru honum það mikilvæg að hann var tilbúin til að hætta öllu fyrir trú sína á Jesú Krist.
Á 20. öldinni eigum við minningar um fleiri sem þorðu að standa andspænis öflum ofbeldis og kúgunar, Við þekkjum líf danska predikarans og prestsins Kai Munk sem fór í stríð með sannleikann að vopni á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Hann steig fram þegar aðrir hurfu í felur. Það hugrekki kostaði hann lífið. Líf guðfræðingsins Dietrich Bonhoffer er annað dæmi um mann sem reyndi að vinna gegn sömu öflum og Kai Munk í seinni heimstyrjöldinni og lét lífið fyrir það.
Marteinn Lúter King átti sér draum. Trú hans á réttlæti handa hinum fátæku, frelsi handa öllum og á sérstaka von um það að Guð hafi ekki eftirlátið þennan heim í hendur illra afla sem vinna gegn sannri mennsku þeirra sem sköpuð eru í mynd Guðs. Hann dó fyrir drauminn. Heimurinn var ekki tilbúinn fyrir þá sýn sem hann hafði um mannlega tilveru án aðgreiningar. Boðskapur hans lifir enn þann dag í dag og hefur haft áhrif um víða veröld.
Í öllum þessum röddum hljómar ein sameiginleg rödd. Það er rödd réttlætisins og kærleikans. Það er röddin sem að við heyrum í draumum okkar um betra líf. Það er röddin sem að hvíslar að okkur að það eru ekki allir jafnir í heiminum í dag þegar kemur að sjálfsögðum mannréttindum. Það er röddin sem að hvíslar að þér, hvað getur þú gert.
Að loknum draumi, vaknar þú oft upp og mannst ekki alveg hvað það var sem þig dreymdi. Þú gætir munað að það var eitthvað merkilegt, svo merkilegt að þú finnur fyrir sterkri tilfinningu sem að heltekur þig alla. Draumatilfinningin víkur þó oftast fyrir raunveruleikanum. Þegar sól rís og þú gengur til vinnu þinnar og allt fellur í sama, gamla, góða örugga horfið. Samt er innst inni í hugskotinu óljós minning um draum sem að lætur þig ekki í friði! Þú verður órólegri en venjulega þar til þig rámar í hvað það var sem þig dreymdi!
Þú gætir þá reynt að segja fólki frá að þig hafi dreymt stórkostlegan draum um heim þar sem að óréttlæti var horfið og allir höfðu jafna stöðu! Margir munu líklegast reyna að telja þér hughvarf og benda þér á þessa vitleysu! Svona heimur verður aldrei til! Það er bara tálsýn.
Aðrir munu hamra á að það séu þeirra mannréttindi að útiloka aðra frá því sem að þau hafa nú þegar. Þau munu hamra á hreinu orði Guðs og hreinni kenningu kirkjunnar. Þau elski samt syndarann en hati syndina.
Ef þig dreymir svona draum þar sem að þú ert að berjast fyrir réttlæti mundu þá eftir röddum fortíðarinnar. Mundu eftir þeim sem að fóru um borð í bátinn og lögðu af stað með trúna eina að vopni gegn óréttlæti þessa heims. Mundu eftir hinni einu sönnu rödd sem að hvíslar að þér að þú ert á réttri braut. Þú ert að fylgja hans sporum. Þetta er engin venjuleg rödd, heldur rödd þess sem þekkir hvernig það er að berjast gegn óréttlæti, bæði menningarlegu og trúarlegu. Hún þekkir þau sem eru utangarðs og þau sem að er hafnað vegna þess að það er eitthvað við þau sem að talið er óeðlilegt og óhreint skv. kenningum sem eiga ekkert skylt við kærleiksríkan og róttækan boðskap guðspjallanna.
Þú hefur tækifæri til þess að gefa þessari rödd líf í þínu lífi. Talað er um að Matteusarguspjall sé leiðarvisir um sanna eftirfylgd. Það er því ekki að ófyrirsynju að Guðspjallið endi á þeim orðum að Jesú sé með þér alla daga allt til enda veraldar. Hann hefur gefið þér loforð, loforð sem að stendur þér til boða að þiggja. Þú stígur því um borð í bátinn, þú leggur úr vör. Þú munt án efa bera nokkurn kvíða í brjósti til að byrja með, en það er eðlilegt þegar lagt er upp í ferð! Það munu mæta þér stormar, það getur enginn lofað því að alltaf sé stillilogn.
Við erum aðeins litlar manneskjur í svo ógnarstóru, flóknu og marbrotnu samhengi, sem stundum er ef til vill eins og að vera á lítilli bátskel í stórsjó. En gleymum því ekki að þó svo að við getum ekki alltaf gert stóra hluti, þá getum við hvert og eitt gert smáa hluti með miklum kærleika eins og hún Móðir Teheresa orðaði það. Gleymum því aldrei.
Þannig skulum við hugsa hlutina út frá því sjónarhorni að báturinn er hluti fyrir heild, tákn um stærri veruleika. Við erum öll á sama báti, hvort sem við erum söfnuður hér í Laugarnesskirkju, vinahópur á Genesaretvatni, þjóð eða mannkyn. Við erum sama marki brennd, eigum sömu örlög þegar grannt er skoðað.
Það sem mestu máli skiptir er það að við erum ekki ein í bátnum. Í bátnum er sá sem að allt getur. Hann sefur jú, hann hefur treyst okkur fyrir boðskap sínum. Það er þinn hluti samningsins þegar þú gengur um borð. Það er að berjast á sama hátt og Jesús gerði í sínu lífi. Við megum aldrei gleyma því að vegurinn að krossinum var ekki beinn og breiður. Hann er grýttur og krefst þess að þú hlustir á röddina og takir þér stöðu með þeim sem líða og þú berjist fyrir réttindum þeirra.
En þegar mest á gengur, getur þú kallað eftir hjálp! Þú kallar eftir rödd hans inn í þitt líf. Að hann standi með þér í baráttunni. Hann mun hvísla að þér: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu og sjá ég er með yður alla daga, allt til enda veraldarinnar! Þetta er vonin sem að fylgir baráttunni. Það er vonin sem að við öll höldum í, janfvel þó að við verðum aðeins vör við hana í draumi!
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda! Amen!
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:08 | Facebook
Um bloggið
Hugsað upphátt
Bloggvinir
- Jenný Anna Baldursdóttir
- halkatla
- Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir
- Hrafnhildur Ólafsdóttir
- Axel Eyfjörð Friðriksson
- Erla Björk Jónsdóttir
- Jóna Á. Gísladóttir
- Guðný Bjarna
- Sigríður Gunnarsdóttir
- Helga Dóra
- Brussan
- Hulda Lind Eyjólfsdóttir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Heiða Þórðar
- Laufey Ólafsdóttir
- Kristinn Theódórsson
- Kolgrima
- Heiða B. Heiðars
- Edda Agnarsdóttir
- Halla Rut
- Huld S. Ringsted
- Dísa Dóra
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Kolbrún Baldursdóttir
- Árni Svanur Daníelsson
- Viðar Eggertsson
- Þorgeir Arason
- Sigfús Þ. Sigmundsson
- Vefritid
- Dofri Hermannsson
- Baldur Kristjánsson
- Svavar Alfreð Jónsson
- Karl V. Matthíasson
- Toshiki Toma
- Guðmundur Örn Jónsson
- Róbert Björnsson
- Stefán Friðrik Stefánsson
- Ester Sveinbjarnardóttir
- krossgata
- Ólafur fannberg
- Baldvin Jónsson
- Guðsteinn Haukur Barkarson
- Bryndís Böðvarsdóttir
- Pétur Björgvin
- Linda
- Jóhann Helgason
- Helena Leifsdóttir
- Sæþór Helgi Jensson
- Alfreð Símonarson
- Hlekkur
- Mamma
- Þóra Ingvarsdóttir
- Bwahahaha...
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Ómar Bjarki Kristjánsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Jóhanna Magnúsdóttir
- Ruth
Annað
- Árni bróðir
-
Sunna Dóra
Hugsað upphátt!
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góða ferð í fríið Sunna Dóra mín og hafðu það sem allra allra best. Þín verður sárt saknað Takk fyrir þennan fallega pistil. Allt gott sem þú skrifar og svo mikil skynsemi í þínum skrifum og mannkærleikur. Knús til þín og skemmtu þér vel í fríinu
Margrét St Hafsteinsdóttir, 3.6.2007 kl. 23:01
Takk Margrét!
Sunna Dóra Möller, 4.6.2007 kl. 08:24
Fín prédikun hjá þér Sunna.
Ég er reyndar hiss á að þú skulir ekki fjalla betur um 1. og 2. notkun lögmálsins eins og dr.dr. Sigurjón hefur fjallað svo skilmerkilega um..... Nei, nett lögmálsgrín.
Guðmundur Örn Jónsson, 4.6.2007 kl. 13:13
Kæra Sunna! Takk fyrir frábæra predikun. Við hjónin lásum hana saman, vorum í Vídalínskirkju í gær að hlusta á ungt fólk flytja gospeltónlist. Þú ert glimrandi predikari. Bjarni og Jóna
Bjarni Karlsson (IP-tala skráð) 4.6.2007 kl. 15:44
Hafðu það gott í fríinu og takk fyrir skrifin þín ;)
Ester Sveinbjarnardóttir, 4.6.2007 kl. 22:36
Virkilega góð prédikun, takk fyrir að deila henni á vefnum.
kveðja
Arndís.
Arndís G. Bernhardsdóttir Linn (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 14:50
Takk öll fyrir falleg orð!
Sunna Dóra Möller, 13.6.2007 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.