Náttúran í ljósi guðfræðinnar!

Komið nú öll blessuð og sæl á þessum fallega sunnudegi. Ég var að koma úr göngumessu í Garðakirkju þar sem að byrjað var með helgistund inni í Garðakirkju og gengið svo upp á Garðaholt í Grænagarð þar sem að húsráðandi, Sigðurður Þorkelsson sagði frá uppbyggingu þessa fallega gróðursæla svæðis. En hann og kona hans Kristín Gestsdóttir unnu sannkallað brautryðjenda starf í að rækta upp landið á þessum fallega stað.

Göngumessunni stjórnaði sr. Jóna Hrönn Bolladóttir mágkona mín en ég var svo heppin að fá að flytja hugleiðingu inni í Garðakirkju áður en að gangan lagði af stað. Ég fjallaði þar um náttúruna í ljósi guðfræðinnar og ég held sannarlega að það sé ekki til betri staður til að fjalla um slíkt en umhverfi Garðakirkju alveg óskaplega fallegt sem og kirkjan sjálf! Eins spillti ekki fyrir veðrið sem að lék við messugesti og sólin og Garðaholtið skörtuðu sannarlega sínu fegursta í morgun Smile!

En ég læt hér fylgja með hugleiðinguna sem ég flutti í morgun!

Þegar hugleitt er um náttúruna er óhjákvæmilegt að leiða hugann að allri fjölbreytninni sem að blasir við. Náttúran á sér ótrúlega litadýrð og ólíkar birtingarmyndir. Hér á landi á hver staður sín einkenni, ólík öllum öðrum og  ferðalangur á ferð um landið kemst ekki hjá því að fyllast lotningu yfir undursamlegu sköpunarverkinu sem að blasir við. Ógnarháir bergtindar, snarbrattar skriður, jöklar, eyðilegir sandar og gróðursælt láglendi mætir okkur og hvíslar að okkur að við erum hluti af þessari heild.

Vegna þess að við erum hluti af þessari heild laðar náttúran okkur að sér en um leið getur hún einnig ógnað okkur. Vegna þess ótta sem við berum í brjósti gagnvart ógnaröflum náttúrunnar reynum við að skilja hana og jafnvel að ná náttúrunni á okkar vald með því að beisla kraftinn sem í henni býr. Gagnvart náttúrunni erum við oft svo ógnarsmá og lítil og margir hafa horft á eftir ástvinum vegna þeirra krafta sem að náttúran getur leist úr læðingi og má þar nefna sem dæmi snjóflóð og sjávarháska, en það eru vel þekktar birtingarmyndir ógnarkrafta náttúrunnar hér á landi.   

En ef við leiðum hugann að sköpuninni sjálfri og myndum hennar í guðfræðilegu ljósi þá finnum við hvergi jafnsterkar náttúrulegar myndir og í Gamla testamentinu. Biblían sjálf hefst á lofsöng til sköpunarinnar þar sem því er líst hvernig Guð hefur skapað allt sem er og að kveldi vinnudagsins lýtur hann yfir allt sem er orðið og segir það harla gott. Skv. þessari frásögn skapar Guð reglu úr óreglunni, þegar hann aðgreinir ljósið frá myrkrinu.   

Sköpunarguðfræði gamla testamenntisins felur í sér að Guð hefur fært okkur, mannfólkinu jörðina til afnota. Hún felur í sér ráðsmennsku hlutverk okkar yfir þessari dýrmætu gjöf og í ráðsmennskunni felst að við tökum það til afnota sem að við þörfnumst til lífs, en um leið felur það i sér að við ofnýtum ekki vegna þess að okkar er skyldan að sjá til þess að komandi kynslóðir hafi nóg til að komast af. 

Í raun má segja að sköpunarguðfræðin feli í sér þrennt: Í fyrsta lagi má nefna gjöf viskunnar. Sköpunin krefst þess að við iðkum viskuna og það felur í sér að við erum ekki eigingjörn þegar kemur að sköpuninni heldur notum við viskuna til að vernda, umvefja og næra alla sköpunina. 

Í öðru lagi hefur sköpunin og sú regla sem hún felur í sér siðferðislega vídd. Heimurinn sem sköpun Guðs er ekki komin til, til að einhver geti sett sig gegn henni til eigin hagsbóta, misnotkun og gjörnýting geta skaðað auðlegð náttúrunnar sem gerir lífið á þessari jörð mögulegt. 

Í þriðja og síðasta lagi má segja að sköpunarguðfræðin feli í sér opinbera tilbeiðslu. En við sjáum þess svo glöggt merki á síðum gamla testamentisins hvernig sköpunin er lofsungin eins og til dæmis má sjá í Davíðssálmum. Opinber tilbeiðsla er samhengi þess þar sem að við getum tekið á móti auðlegð sköpunarinnar og þar sem að kraftur blessunarinnar verður lifandi innan heimsins. En það er í þessu samhengi sem að við komum saman hér í dag. Til að upplifa náttúruna í ljósi þess fyrirheitis að hún sé blessuð af Guði og hluti af heild sem við erum jú einnig hluti af. 

Guð kallar okkur til ábyrgðar í gegnum náttúruna og margar af stærstu köllunarfrásögum gamla testamentisins segja frá því hvernig Guð birtist einmitt í náttúrunni og talar við manneskjuna í gegnum hana, frægust er án efa sagan af köllun Móse þar sem að Guð birtist í brennandi runna.

Önnur frásaga í gamla testamentinu segir frá þegar Guð kallar Elía til ábyrðgar en Elía var á flótta undan Guði og hann óttaðist það sem að fyrir hann kynni að koma. Í fyrri konungabók 19.kafla segir:  Þá sagði Drottinn: Gakk þú út og nem staðar á fjallinu frammi fyrir mér. Og sjá, Drottinn gekk fram hjá, og mikill og sterkur stormur, er tætti fjöllin og molaði klettana, fór fyrir Drottni, en Drottinn var ekki í storminum.
12. Og eftir storminn kom landskjálfti, en Drottinn var ekki í landskjálftanum. Og eftir landskjálftann kom eldur, en Drottinn var ekki í eldinum. En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla.
13. Og er Elía heyrði það, huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og nam staðar við hellisdyrnar. Sjá, þá barst rödd að eyrum honum og mælti: Hvað ert þú hér að gjöra, Elía? 

Þessi stutti texti lýsir því á svo stórkostlegan hátt hvernig við eins og Elía gerum svo oft en það er einmitt að fela okkur fyrir augliti Drottins vegna þess að samviska okkar er slæm vegna sköpunarinnar. Vegna þessa ótta teljum við einmitt að Guð sé í ógnaröflum náttúrunnar og oftar en ekki kennum við Guði um það þegar illa fer. Við teljum að Guð sé að tala til okkar í hamförunum og þannig kalli hann á okkur.  

Við höfum jú margt á samviskunni, við höfum lagt undir okkur lönd og nýtt óbeisluð og stórkostlegt náttúruundur. Stöðugt leitum við leiða til að beisla og nýta. Þegar gróðrasjónarmið eru annars vegar, víkur allt annað og hinir þrír þættir sköpunarguðfræðinnar mega sín lítils í þeirri baráttu.  

Við höfum einnig margt á samviskunni gagnvart öðru fólki. Fólk sem að skv. Fyrri sköpunarsögu Gamla testamentisins er skapað í mynd Guðs. Sköpunarsagan vitnar um fjölbreytileika sköpunarinnar allrar, einnig okkar mannfólksins. Samt í dag erum við hrædd við þennan fjölbreytileika. Við erum hrædd við að vera öðruvísi og hrædd við það sem er öðruvísi. Alls staðar í heiminum er fólk kúgað, sett í þrældóm og jafnvel selt landa á milli mansali. Við óttumst þetta en um leið erum við á flótta líkt og Elía vegna þess að við þorum ekki að taka afstöðu og tala opinskátt inn í þessar aðstæður fólks í dag. 

Þess vegna leitum við að Guði í ógnaröflum náttúrunnar í stað þess að setjast niður í kyrrð hennar og hlusta eftir andblænum og hinni undursamlegu rödd sem að hvíslar: Hvað ert þú hér að gjöra?  

 

Jörðin grætur og kallar á þig í þögninni. Mannfólkið grætur og kallar á þig í þjáningunni. Kristur er á krossinum og biður Guð um að fyrirgefa okkur því að við vitum ekki alltaf hvað við erum að gera.  

Við stöldrum ekki við í nútímanum til að hugsa um afleiðingar gjörða okkar og þess vegna berum við ótta í brjósti. Ótta um það sem að verður og ótta um það sem að er.   

Jesaja spámaður og rit hans sem kennt er við síðari Jesaja er einn stærsti vitnisburður gamla testamentisins um sköpun og handleiðslu Guðs. Þar er því líst þegar að Guð leiðir Ísraelsmenn heim úr vonlausum aðstæðum þeirra á tímum babýlónsku herleiðingarinnar. Þetta rit er fullt huggunar og getur talað einmitt inn í aðstæður þar sem að óttinn hefur tekið völdin og aðstæður virðast vonlausar.   

 

Í 49. kaflanum í Jesaja segir: Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.
16. Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína, múrar þínir standa jafnan fyrir augum mér.
 
 

 

Sjá ég hef rist þig á lófa mína segir Guð og það merkir að hann mun  aldrei yfirgefa þig, hann mun aldrei yfirgefa sína eigin sköpun. Það er loforð sem að hann hefur gefið og hann þekkir hvert mannsbarn, hann þekkir hvern hluta af náttúrunni sem að við munum ganga hér um á eftir og hann gleðst yfir hverjum lofsöng sem er sunginn til heiðurs sköpuninni en kvelst um leið yfir því þegar henni eru unnin mein, Vegna þess að allt er hluti af honum og hann er hluti af öllu. Munum það þegar við göngum héðan út, þegar við hlustum eftir röddinni í andblænum og þegar við leggjum inn fyrir komandi kynslóðir. Verndum, nærum og umvefjum og nýtum okkur viskuna sem að Guð hefur gefið okkur til að skila af okkur góðu dagsverki.  

Þess biðjum við öll hér í dag í Jesú nafni!   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda

Hæ Sunna, þetta hefur verið skemmtilegur dagur hjá þér og þeim sem fengu að hlusta á þig. Það er margt hér sem stendur upp úr ræðunni þinni, þó sérstaklega "Elía" þetta er orð í tíma talað, því allt of mikið fer fyrir því í dag að Guði sé kennt um allt sem miður fer.  Guð er eins og þú segir Blíður, Undursamlegur og Kærleiksríkur hann er sá eini sem er algóður, þetta er eitthvað sem við verðum að muna.

Ávalt gaman að fræðast hjá þér. Þúsund þakkir og Guð blessi þig .

Linda.

Linda, 12.8.2007 kl. 17:16

2 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Þetta var sannarlega góður dagur Linda og batteríin mín fylltust svo sannarlega í þessu fallega umhverfi! Takk fyrir þessa góðu athugasemd og hlý og uppbyggjandi orð ! Kær kveðja, Sunna!

Sunna Dóra Möller, 12.8.2007 kl. 18:43

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Yndisleg hugvekja.  Orð í tíma töluð.  Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.8.2007 kl. 20:49

4 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Takk fyrir það Jenný !

Sunna Dóra Möller, 12.8.2007 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hugsað upphátt

Höfundur

Sunna Dóra Möller
Sunna Dóra Möller
Guðfræðinemi sem stefnir á að útskrifast einhvern tímann og breyta svo heiminum í framhaldi af því!
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Jóla
  • jólatrée
  • P1010337
  • P1010307
  • norðurferð 322

Annað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband