Lífsins ljós!

Ég sótti málþing áðan í þjóðminjasafninu um málefni samkynhneigðra og kirkju. Að þess málþingi stóð hópur presta ásamt samtökunum 78.

Þarna var þétt setinn salur af fólki, prestum, þingmönnum og fleirum sem að vilja kynna sér þessi mál.

Á morgun hefst kirkjuþing og þar liggja fyrir tvær tillögur um samvistir samkynhneigðra og það verður áhugavert að sjá hvernig kirkjuþing mun taka á þessu máli. Málaskrá kirkjuþings er hægt að sjá inni á kirkjan.is.

Ég hef oft skrifað hér um hjúskap samkynhneigðra og lýst þeirri skoðun minni að mér finnst að þetta eigi að vera heimilt og það eigi að vera ein hjúskaparlög fyrir alla óháð kynhneigð. Ég ætla ekki að fara hér út í biblíutúlkun eða hefðarrök eða andhefðarrök og allt það. Tel þá umræðu hafa farið hér fram áður og ég þar lýst minni skoðun skýrt og skorinort.

Ég vil nota tækifærið og lýsa þeim tilfinningum sem að fara í gegnum hugann á þessari stundu eftir þetta þing. Ég ætla algjörlega að tala á nótum tilfinningaraka og ekki einhverra kaldra trúarkenninga sem að ala á aðgreiningarhyggju og framandleika milli fólks.

Ég hef verið með hugann alveg á flugi og næ einhvern veginn ekki að klára eina hugsun til enda áður en að ný tekur við. Þarna komu fram og stigu í pontu góðir fyrirlesarar og allt konur Cool! Allt voru þetta flottar konur en það sem að stendur upp úr er frásögn manns og sonar hans sem að er samkynhneigður. Hann stóð þarna faðirinn og lýsti því hvernig hann óskaði þess að börnin hans nytu allra réttinda sem að hann sjálfur nýtur. Sonur hans var svo spurður út í nokkra hluti og það sem að situr eftir í mínum huga voru lokaorð hans þegar búið var að tala um mannréttindi og hans hug til kirkjunnar og hvað honum fyndistum um það, að samkynhneigðir ættu að sitja við sama borð: Já, annars hefði Guð ekki skapað mig!!!

Vitiði að þessi játning þessa drengs er eitthvað það sterkasta sem að ég hef orðið vitni að lengi og ég er enn viðkvæm eftir að hafa hlýtt á þessi orð.

Það töluðu fleiri þarna, ung lesbísk stúlka lýsti því að hún er að fara að gifta sig 22. mars nk. Hún þarf að fara og skrifa undir einhver skjöl í gegnum gler fyrst. Þá er hún komin í staðfesta samvist. Hún lýsti því hvernig hún vildi geta farið til einhvers sem að stendur ekki á sama um hana og hennar líf og tilfinningar. Einhvern sem að lætur sig hana og unnustu hennar varða. Það gerir konan/maðurinn ekki bak við glerið hjá sýslumanni.

Guðfríður Lilja átti líka flott innlegg þar sem að hún talaði um að ef að Jesús Kristur gengi inn í salinn í dag, sá sem að hafði það að markmiði að vera í kringum þá sem að minnst mega sín og þeirra sem að eru á jaðrinum og hann gaf þeim gildi í samfélaginu. Það fyrsta sem að hann hefði gert í dag hefði hann komið inn, þá hefði hann fyrst gengið inn og tekið í höndina og heilsað þessum hugrakka unga dreng sem að var ný búinn að tala.

Þetta er svo rétt hjá henni. Við erum búin að búa til kristindóm í dag sem að hafnar og meiðir. Kristindóm sem að aðgreinir og gefur sumum forréttindi og öðrum ekki. Kristindóm sem að segir: Þú ert í lagi....ekki þú.

Ég get ekki fellt mig við þennan kristindóm, ég get ekki fellt mig þessa aðgreiningarhyggju og gagnkynhneigðarhyggju sem að meiðir annað fólk. Ég vil ekki vera hluti af því að meiða og særa fólk og tilfinningar þess. Ég vil ekki vera þátttakandi í að viðhalda veruleika sem að aðgreinir og býr til framandleik úr andstæðum. Nú er ég ekki prestur og ekki einu sinni ennþá orðinn guðfræðingur, en þetta er veruleiki sem að mér finnst ekki áhugaverður þegar ég hugsa um þann möguleika sem að ég hef eftir mitt nám, þá að að geta sótt um embætti innan kirkjunnar. Hugur minn leitar ekki þangað í dag og er blendinn! Ég viðurkenni það og mér finnst það á ákveðinn hátt erfitt. Kirkjan er í mínum huga er griðastaður og vin í önnum dagsins. Hún hefur verið mér skjól og hún hefur gefið mér blessun og frelsi til að elska þann sem að ég valdi og varð ástfangin af. Þetta frelsi hafa ekki allir og við sitjum ekki öll við sama borð þegar kemur að frelsinu til að elska innan kirkjunnar. Þetta er sorglegur veruleiki en hann er raunverulegur!

Það er svo merkilegt að ég fyllist sorg vegna þessa, en um leið fyllist ég von. Ég hef von um að kirkjan muni hverfa til uppruna sín, til hans sem segir við hverja manneskju: Þú skiptir mig máli, vegna þess að þú ert mín góða sköpun. Ég hef samþykkt þig í heilagrí skírn og ég þekki nafnið þitt og ég veit hver þú ert, hvað þú stendur fyrir, hvers þú óskar og hvað þú þráir. Þú ert mitt elskað barn og ég tek þér eins og þú ert! 

Þeir prestar þjókirkjunnar sem að, að þessu máli komu í dag eiga heiður skilinn. Þeir eiga heiður skilinn fyrir sína vinnu og þrautseigju og vilja þeirra til að koma þessum málum í farsæla höfn. Þau hafa synt gegn straumnum en ég trúi að þau munu sjá vinnu sína njóta þeirra ávaxta sem að hún á skilið.

Það er vegna þessarar vinnu þessa presta að ég fylltist von í dag, von fyrir kirkjuna mína og von fyrir okkur öll að það komi tími þar sem að það sem að við eigum sameiginlegt verður forsendan í okkar samskiptum, ekki það sem að skilur okkur að. Þannig verði kirkjan okkur vettvangur fyrir okkur öll ekki bara suma útvalda sem njóta þeirra forréttinda af hafa fæðst með "rétta kynhneigð".

Takk fyrir mig í dag þið sem að stóðuð að þessu þingi og takk fyrir að gefa mér von um réttláta, sterka og flotta kirkju sem þorir að taka áhættu fyrir fólk!

Þetta er mitt lífsins ljós í dag Heart!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Það fyrsta sem að hann [Jesús] hefði gert í dag hefði hann komið inn, þá hefði hann fyrst gengið inn og tekið í höndina og heilsað þessum hugrakka unga dreng sem að var ný búinn að tala. Þetta er svo rétt hjá henni.

Nú veit ég ekki hvers vegna þú telur að Jesús hefði gert þetta, frekar en t.d. að segja stráknum að samkynhneigð væri synd og að hann ætti að iðrast. Þú ert líklega að gefa þér það að Jesús hafi varla verið svo vitlaus að vera ósammála þér. En miðað við ummæli hans í Nt, þá var hann varla frjálslyndur þegar kom að kynlífi. Eflaust hefur Jesús talið samkynja kynlíf verið mikla synd og þar af leiðandi verið á móti staðfestri samvist og öllu sem því líkist.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.10.2007 kl. 21:52

2 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Látum það vera þína skoðun Hjalti, það er ekki mín! Jesús talar aldrei um kynlíf í guðspjöllunum! Þú segir eflaust hefði hann verið á mótu slíku! Ætli þú sért þá ekki sekur um jafnmiklar getgátur og ég!

Sunna Dóra Möller, 19.10.2007 kl. 21:59

3 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Talaði Jesús aldrei um kynlíf? Samt veist þú að hann myndi vera sáttur við samkynhneigð.

Ég myndi samt flokka ummæli hans um að skilnaður væri bara leyfður ef konan hefði drýgt hór (skv Clarence Glad ef hún væri ekki hrein mey við giftingu). Þetta flokkast varla sem 'frjálslynt' viðhorf.

En gætirðu frætt mig um hvort sú skoðun að það væri ekkert að samkynja mökum hafi verið algeng hjá gyðingum í Palestínu á dögum Jesú?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.10.2007 kl. 22:15

4 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Talaði Jesús aldrei um kynlíf? Samt veist þú að hann myndi vera sáttur við samkynhneigð.

Ég myndi samt flokka ummæli hans um að skilnaður væri bara leyfður ef konan hefði drýgt hór (skv Clarence Glad ef hún væri ekki hrein mey við giftingu). Þetta flokkast varla sem 'frjálslynt' viðhorf.

En gætirðu frætt mig um hvort sú skoðun að það væri ekkert að samkynja mökum hafi verið algeng hjá gyðingum í Palestínu á dögum Jesú?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.10.2007 kl. 22:27

5 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Veistu það Hjalti að ég nenni ekki út í samræður um kynlíf, hvort sem að það er samkynja eða gagnkynhneigt kynlíf. Sambönd snúast um meira en það. Samband snýst um tilfinningar og jafnræði á milli þeirra einstaklinga sem að inn í það ganga. Kynlíf er afleiðing en ekki forsenda. Ég hef eitt heilli færslu og 125 ath.semdum í að ræða kynlíf og veistu að mér er sama um kynlíf fólks og hvað það almennt gerir í svefnherberginu sínu. Það að takmarka alltaf umræðu um samkynhneigð niður í umræður um kynlíf er orðið ansi þreytt og gerir lítið úr fullveðja, sjálfráða einstaklingum. Það kemur okkur ekki við hvað fólk gerir í svefnherberginu, hvort sem að það er gagnkynhn. eða samkynhn.

Það er allt í lagi að prófa að færa umræðuna upp á hærra plan og frá þessum endalausu analíseringum um hvort að ákveðnar kynlífsathafnir sé eðililegar eða ekki, hvort að þetta sé synd eða hitt sé synd!

En það kemur okkur  aftur á móti við hvort verið er að meiða fólk með aðgreiningu og mismunun.

Þess vegna ætla ég ekki niður á þetta plan í þessari færslu, tel mig hafa svarað því annars staðar og þú getur flett þeirri færslu upp. Efast ekki um samt að þú verðir mér ósammála í flestum atriðum og að þú munir enn og aftur telja mig trúlausa á Jesú guðspjallanna eins og þú hefur oftar en einu sinni líst yfir.

Varðandi spurninguna þína, svo þú sakir mig ekki um undanfærsluhátt, þá veit ég og hef lesið að samkynja mök voru þekkt og samþykkt í ákveðnu samhengi í Rómverskri menningu. Það eru flestir höfunar sem að skoða þennan heim á þessum forsendum í dag þessu sammála.  Gyðingar voru að sjálfsögðu hluti af þeim menningarheimi, sérstaklega gyðingar í dreifingunni. Eflaust hefur einhver menningarsamruni átt sér stað. Hvort að þessi þáttur rómverskrar menningar hafi verið samþykktur af gyðingum treysti ég mér ekki til að svara án þess að fletta því upp. En það lifir enginn í menningarlegu tómarúmi, hvorki núna né þá!!

Með vinsemd, Sunna Dóra.

Sunna Dóra Möller, 19.10.2007 kl. 22:30

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sunna Dóra, þú gefur mér von um að kirkjunni sé viðbjargandi.  Fólk eins og þú.  En það verður að segjast eins og er að nú þegar biskupinn hefur minnt meðlimi komandi k-þings á að vera trúir kona-maður týpunni í trúnni (bibbu, whatever)þá langar mig ekki að eiga mikið saman við þetta batterí að sælda.  Ég fæ ekki skilið hvernig fólk sem telur sig kærleiksríkt, alltumvefjandi og kristið, getur varið og hvatt til mismununar af þessu tagi.  Það er svo langt frá því sem Kristur boðaði. 

Ég hef svo mikla skömm á þessu að mér verður hálf illt.

Samt hef ég aldrei leitað Guðs í söfnuðum.  Hann er innra með mér og það er mér nægjanlegt. Stofnun sem hefur þaggað konur, strokað þær út, gert þær að minna en engu, er ekki að mínu skapi.  Við erum helmingur mannkyns.  Kirkjan skiptir samt heilmiklu máli og er stór hluti af lífi fólks og hún hlýtur að eiga að vera til fyrir okkur öll, Guðs börn.  Á meðan svo er ekki, þá er hún ísköld stofnun sem á ekkert betra skilið en íhalds- og úrtölupostulana, sem eru að springa af hræsni og mannfyrirlitningu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.10.2007 kl. 03:19

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Það eru margar konur sem hafa upplifað kirkjuna sem útilokandi fyrir sig eins og Jenný Anna lýsir hér, því hafa þær fundið farveg í Kvennakirkjunni þar sem virkilega er talað til kvenna. Margir prestar eru farnir að temja sér inklúsívt tungumál (tungumál beggja kynja)  en það þarf stórátak til að restin af kirkjunni sé ekki ,,bara ,karlakirkja" ....   ,,Fögnum og verum glaðir" .. verði ,,Fögnum og verum glöð" ..

Takk fyrir innleggið þitt Sunna Dóra! .. Komst því miður ekki á ráðstefnuna vegna anna í vinnu - en hef mikinn áhuga á þessu málefni eins og öðrum málum sem leiða til bættra mannréttinda.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 20.10.2007 kl. 10:07

8 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Jenný: Ég veit að þetta umhverfi er ekki hvetjandi og það er rétt að biskup hefur verið að brýna fólk fyrir kirkjuþing komandi. En það er viðtal í 24 stundun í dag við Kristínu Þórunni Tómasdóttur sem segir reyna eigi að fella tillögu biskups! Það er fróðlegt að skoða það sem hún segir þar. Það á að sporna við því að kirkjan samþykki það fyrir fullt og allt að skilgreiningin á hjónabandi verði einhliða samband karls og konu. Þetta gefur manni að sjálfsögðu von og það er fullt af fólki núna innan kirkjunnar og eru það prestar sem að láta ekki þagga sig niður og eru að þora að hafa skoðun og fara þannig opinberlega gegn skoðun biskups. Þetta kostar kjark og hugrekki og ég segi að það væri nú stundum gaman að sjá fólk í stjórnmálum fara svona gegn ríkjandi stefnu flokka sinna í erfiðum málum. Það er mjög sjaldan að maður sér stjórnmálmann fara gegn formanni sínum á svona hátt! Sjáum bara fundinn um daginn í Valhöll um daginn þegar Geir mætti og allt í einu var bara allt útrætt! Þannig að þetta er ansi magnað hvað þessir prestar eru að gera og kostar sitt án efa!

En að öðru: margar konur finna sig ekki innan kirkjunnar og saga hennar er ekki falleg þegar kemur að konum alveg eins langt aftur og nánast augað eygir. Hún hefur átt stóram þátt í að gera lítið úr konum og núna í gær til dæmis er Jón Valur á sinni síðu að vara við útrás kvenpresta úr guðfræðideildinni sem að eru uppfullir af feminisma og samkynhneigðarhyggju. Hann segir að svona konur verði búin að yfitaka öll embætti kirkjunnar áður en við vitum af og þá væntanlega að hans mati er voðinn vís. Þetta er svo dapurlegt að sjá á 21.öldinni en þetta er veruleiki sem að konu búa við innan kirkjunnar. Þetta er eitthvert stærsta réttlætismál fyrr og síðar að konu fái að komast að innan kirkjunnar og sinna sinni köllun til jafn við karlmenn. Margar konur hafa kosið að fara, hafa yfirgefið kirkjuna, margar hafa stofnað kvennakirkjur og margar eru enn innan hefðar að berjast.

Mín skoðun er sú að breytingarnar eiga sér stað innan frá og þess vegna er ég á þeirri skoðun að konur sem eru tilbúnar að berjast eigi að vera og berjast fyrir sínum réttindum innan kirkju. En aftur á móti sé ég ekki kaþólsku kirkjuna breytast og velti hreinlega fyrir mér stundum hvort að baráttan innan hennar muni hafa árangur. En mér finnst samt að það eigi ekki að gefast upp, þá eru skilaboðin sú að þetta karlaveldi sé í lagi og í því felist viðurkenning á völdum karlanna innan kirkjunnar.

En ég skil vel að það finni sig ekki allir innan kirkju og margir eiga sína trú og sinn Guð bara með sjálfum sér, í sínu hjarta. Það er val hvers og eins og ég ber virðingu fyrir því. Ég skil svo vel þitt sjónarmið, en ég bara einhvern veginn verð að hafa von um að kirkjan breystist og verði sú stofnun sem að henni ber, opin öllum, alltaf og alls staðar. Á meðan ég hef þessa von, það þá fæ ég kraft til að lesa og læra meira og meira! Ef ég hef hana ekki, þá finnst mér, ég gefast upp!

Ég veit að þetta er öfugsnúið og án efa eitthvað ruglingslegt en ég læt þetta flakka !

Þetta er nú líka örugglega orðin meiri langlokan en takk fyrir Jenný og Jóhanna!

Eigiði góðan dag

Sunna Dóra Möller, 20.10.2007 kl. 11:15

9 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Takk Ólafur fyrir þín orð! Mjög flott innlegg hér í þessa umræðu !

Sunna Dóra Möller, 20.10.2007 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hugsað upphátt

Höfundur

Sunna Dóra Möller
Sunna Dóra Möller
Guðfræðinemi sem stefnir á að útskrifast einhvern tímann og breyta svo heiminum í framhaldi af því!
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Jóla
  • jólatrée
  • P1010337
  • P1010307
  • norðurferð 322

Annað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 66423

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband