Gramsað í gömlu efni!

Ég hef verið að fara í gegnum gamalt efni sem ég hef verið að skrifa í náminu mínu, tilgangurinn var að finna eina ákveðna ritgerð, sem finnst þó ekki (maður finnur aldrei það sem leitað er að LoL). En í þessari leit fann ég annað sem vakti athygli mína, en fyrir einhverjum fjórum árum síðan tók ég kúrs í Shíisma hjá Magnúsi Þorkeli Bernharðsyni og vann ritgerð og í henni notaðist ég við grein sem birtist í Morgunblaðinu og var unnin af Karli Blöndal og kallaðist "Evrópa logar". Það sem var svo sláandi í þessari grein var umfjöllunin um stöðu múslimskra kvenna í Þýskalandi. Mér datt í hug að setja þann hluta ritgerðarinnar hér inn vegna þess að ég man hvað þessi grein sat lengi í mér og hvað margt óhugglegt kom í ljós varðandi aðbúnað og líf kvenna í innflytjendasamfélögum í Þýskalandi:
 

"Í Þýskalandi er annað uppi á teningnum. Þar hefur mikil áhersla verið lögð á pólitíska rétthugsun. Enginn hefur þorað að opna munninn og gagnrýna straum innflytjenda inn í landið, sem hafa flutt með sér heilan menningarheim. Í dag eru aðstæðurnar þannig að í þýsku samfélagi þrífst einskonar hliðarsamfélag, þar sem gilda aðrar reglur og siðir en meðal  þjóðverja almennt og mannréttindi virðast ekki eiga við, sérstaklega á þetta við um konur. Um þetta fjallar grein Der Spiegel “Hinar réttlausu dætur Allah”. Þúsundir múslimskra kvenna búa við ok feðraveldisins, læstar inni í íbúðum sínum, varnarlausar gegn ofbeldi og nauðungarhjónaböndum. Þær hverfa inn í hliðarveröld, þar sem húsbændur eru í hlutverki einræðisherra. Venjulegir þjóðverjar líta aldrei þessa veröld. Við þeim blasa á markaðnum litríkir básar Tyrkja, en það sem er undir yfirborðinu lítur aldrei dagsins ljós. Katrin Flies yfirmaður kvennaathvarfs í München, segir þetta:

 

“Margar konur vita ekki hvar þær hafa búið árum saman. Margar þeirra hafa verið giftar til Þýskalands. Þær hafa aldrei farið út úr hverfinu sínu og sumar ekki út af heimilinu.[1]

 

 

Þess er getið að strangtrúaðir múslimar séu áfjáðir í að setjast að í Þýskalandi vegna þess að hvergi annars staðar í Evrópu fá þeir að stunda trú sína með jafn ströngum hætti.

Í Tyrklandi er bannað að vera með höfuðklút í skólum og háskólum. Frakkar hafa bannað slæðuna í ríkisskólum. Í Þýskalandi aftur á móti eru engar hindranir. Það er ekki litið á Þýskaland sem innflytjendaland. Innflytjendur eru frekar meðhöndlaðir sem gestir en samborgarar. Það er enginn þrýstingur til að láta innflytjendur laga sig að samfélaginu.

Það er ekki vitað hversu  margar konur búa við ofbeldi og kúgun í Þýskalandi. Könnun, sem var gerð fyrir tveimur mánuðum sýndi að tyrkneskar konur í Þýskalandi eru mun oftar beittar ofbeldi en aðrar konur. Fjórðungur kvenna sögðust einhvern tímann hafa verið beittar ofbeldi en 38% tyrkneskra kvenna. Þær voru mun oftar beittar ofbeldi og meðferðin á þeim hrottalegri. Fjórðungur tyrkneskra kvenna sögðust ekki hafa hitt eiginmann sinn  fyrr en í brúðkaupinu og 9% voru þvingaðar í hjónaband. Þessar múslima konur eru fórnarlömb grimmilegs karlaveldis en einnig þýskrar bannhelgi. Viðkvæðið er þetta, að það má ekki gagnrýna aðra trú og aðra menningu. Þetta eru viðbrögð við reynslu nasistatímans þar sem allt sem var framandi var gagnrýnt, ofsótt og upprætt. Þessi sektarkennd sem býr með þjóðinni hefur orðið að hjákátlegri viðurkenningu allra annarra menningarheima og barnalegri fjölmenningarhyggju. Bassam Tibi prófessor og einn af stofnendum mannréttindasamtaka Araba segir:

 

“Ekkert lýðræðisríki má leyfa að konan sé gerð óæðri[2]”.

 

Sú staða að búa í einum menningarheimi innan veggja heimilisins á meðan að allt annar menningarheimur bíður fyrir utan dyra hefur reynst mörgum múslimakonum í Þýskalandi dýrkeypt.

Leyla, múslimakona frá Dortmund, sem á að baki 20 ára hjónaband, 20 ára barsmíðar af hálfu eiginmannsins og tengdaforeldranna, segir:

 

Hún óskar sér stundum að hún hafi aldrei yfirgefið Tyrkland. Þar er líf fólks miklu nútímalegra en í Þýskalandi. Þar fer fólk á diskótek og það fer út….Uppvöxtur hennar var með öðrum hætti sem tyrki í Þýskalandi. Þar safnast saman fólk úr lægri stéttum. Þeir taka með sér hefðbundna mynd feðraveldisins til nýju heimkynnanna. …. Leyla fékk ekki að vera með í leikfimi af ótta föður hennar við að meyjarhaft hennar myndi rofna því þá eru dætur orðnar verðlausar á hjónsbandsmarkaðnum. ….Þegar hún var 16 ára komu foreldrar hennar með eiginmann. Hún samþykkti, hún hefði samþykkt hvað sem er til að komast út úr fangelsinu…. Hana grunaði ekki að ástandið myndi versna. …. Hún var lamin hvað eftir annað. Hún vildi komast í kvennathvarf en móðir hennar sagði nei. Hún hafði ekki mátt til að rífa sig frá þessari neitun”[3].

 

Margt bendir til þess að í samfélögum múslima í Evrópu gildi Sharia lögin. Það er ekki langt síðan að spænskur Imam mæltist til þess að ekki væru notuð of gild barefli til að berja á fætur og hendur kvenna. ´

           

Í tyrkjahverfum í Berlín, Nürnberg og München ríkir mikill agi meðal hinna strangtrúuðu. Allir taka þátt í að vaka yfir konum. Eini staðurinn þar sem þær komast undan eftirliti er í skólum. Það þarf lítið til að ögra þessum samfélögum. Karlmönnum er innrætt að kona, sem ber ekki slæðu er dræsa eða hóra. Konur sem ganga um án höfuðklúts í þessum hverfum eiga á hættu að vera eltar af hópum drengja eða karla og vera hótað nauðgunum. Dæmi eru um hópnauðganir.

Í félagsþjónustu í Stuttgart hafa verið sett á svið saumanámskeið þar sem tyrkneskum konum er kennd þýska og um leið hvar þær geta leitað sér hjálpar. Ótti eiginmannsins er að þær verði of sjálfstæðar.

            Þessi samfélög í Evrópu munu fara stækkandi á næstu árum og áratugum. Múslimar hafa búið í Evrópu svo árum skiptir. Nú búa 15 milljónir múslima innan Evrópusambandsins. Þetta á þó ekki við um allar þær milljónir múslima sem búa í Evrópu. Ofstækið leynir sér ekki og þegar pólitísk morð eru framin til að þagga niður í andstæðingum er ljóst hve alvarlegt og eldfimt ástandið er orðið[4]."

 


[1] Sama. s. 10.

[2] Karl Blöndal, 21.Nóvember. “Evrópa logar”. Morgunnblaðið. s. 10

[3] Karl Blöndal, 21. Nóvember. “Evrópa logar.” Morgunnblaðið. s. 11

[4] Efni þessa hluta verkefnisins er endursögn á grein Karls Blöndal sem birtist í Morgunblaðínu 21.Nóvember 2004 á blaðsíðum 10-11.

 
Eigði annars góðan dag Heart!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þakka þér kærlega fyrir að birta þetta efni.

Ég er einmitt að velta þessu fyrir mér sí og æ hvernig þetta getur haldið áfram svona. Ég meina það þorir enginn að opna munninn um lifnaðarhætti múslíma hvað þetta varðar og með þögninni skapast kjöraðstæður fyrir heimilisofbeldi.

Eitthvað verður að gera, múslimasamfélagið verður auðvitað að blandast þjóðfélaginu án þess að fólk fái ekki að halda sérstöðu sinni, svo fremi að hún sé ekki á skjön við landslög.

Ferlegur viðbjóður.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.9.2008 kl. 12:18

2 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Mögnuð grein. Takk fyrir þetta.

Kristinn Theódórsson, 11.9.2008 kl. 16:27

3 Smámynd: halkatla

mjög fínt, en heyrðu, þetta þýðir að við höfum víst verið saman í bekk

halkatla, 11.9.2008 kl. 16:35

4 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég held að þetta sé einmitt spurning um að við á Vesturlöndum stöndum fast á þeim grundvallargildum sem okkar samfélag er byggt á, eins og gagnrýnin hugsun, frelsi og kvenréttindi. Ef við fórnum því eða lítum fram hjá þessum hliðarsamfélögum þá erum við að svíkja þessi gildi! Ég tel að það hafi verið gerð svo mörg mistök þegar kemur að innflytjendum í Evrópu að uppskeran er þessi, fólk verður að aðlagast og fyrst og fremst verður að passa að notkun Sharia verði ekki landslögum yfirsterkari þegar kemur að þessum hliðarsamfélögum múslima sem verða að hætt að vera hliðarsamfélög og aðlagast hinu ytra samfélagi. Þögnin og óttinn við að tjá sig um þessi mál er hættuleg vegna þess að öll viljum við ekki verða kölluð rasistar en það er ekki rasismi að vilja verna konur og börn gegn ofbeldi sem þessi og um þessi mál verður að tala!

Kristinn: Takk !

Anna: Veistu að þetta er alveg ótrúlegt...varstu ekki líka í nýtrúarhreyfingunum hjá Bjarna Randver...eða minnir mig vitlaust ! Gaman að þessu....

Sunna Dóra Möller, 11.9.2008 kl. 16:46

5 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Takk fyrir verulega gott innlegg. Þetta er óhuggleg staðreynd.

Edda Agnarsdóttir, 13.9.2008 kl. 09:38

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Takk fyrir Sunna mín, við þurfum að vera á varðbergi að verða ekki svona "Þýskaland" .. þar sem hlífisskildi er haldið yfir ofbeldismenn.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.9.2008 kl. 12:17

7 Smámynd: Halla Rut

Mjög góð greinn. Hann Kristinn hér að ofan benti á hana á öðru bloggi.

Ég segi eins og Jóhanna að ekki viljum við svona "Þýskaland" hér en því miður virðist engin vilji til að koma í veg fyrir það.

Vinur minn var með mann (múslíma) í vinnu hjá sér fyrir um 2 árum síðan. Maðurinn hafði unnið hjá honum í nærri því ár. Eitt sinn ók þessi vinur minn honum heim. Hann gekk með honum inn. Maðurinn bjó í einu herbergi með aðgang að klósetti og eldhúsi og voru nokkur önnur svona leiguherbergi líka. Allt í lagi fyrir svona einn karl fannst vini mínum en það sem honum brá hinsvegar við var þegar karlinn opnaði hurðina þá sat þar kona. Hún rauk strax á fætur og setti á sig slæðu. Karlinn fannst alveg eðlilegt að segja frá því að konan sem sagt sat þarna allan daginn þegar hann var í vinnu. Ekkert sjónvarp, ekkert lestrarefni ....EKKERT.

Þessi vinur minn var algjörlega miður sín eftir þetta. Trúði bara ekki að þetta værir að gera hér á Íslandi. Íslandi sem á að vera land kvennafrelsis og jafnræðis. En það er eins og þú segir í greininni að konur þeirra verða til hliðar við samfélagið og þær verða á allan hátt útundan. Reglur samfélagsins eiga ekki við þær.

Hún var í fangelsi hjónabands. Hún er örugglega ekki sú eina hér á landi og verður ekki sú síðasta.

Halla Rut , 13.9.2008 kl. 12:42

8 identicon

Mig grunar að þetta sé að tegja anga sína hingað.Það verður allt vitlaust ef það á að setja einhver mörk.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 22:01

9 Smámynd: inqo

Þetta var fín lesning, takk fyrir. Einhverjir eru örugglega búnir að stimpla þig "rasista" núna. Ég er bara farinn að halda að þetta sé vonlaust og vona að Ísland sleppi svona næstu 40 árin.

inqo, 14.9.2008 kl. 22:01

10 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Edda: Þetta er sannarlega óhugguleg staðreynd og það þarf sannarlega að vera vakandi yfir því að svona gerist ekki hér!

Jóhanna: Það er svo mikil hætta að hliðasamfélög myndist þegar íslamismi er annars vegar, vegna þess að það er hamrað á því að þeir aðlagist ekki frá áhrifamiklum imömum bæði í Evrópu og mið-austurlöndum. Það eru dæmi um það í Danmörku að múslimar hafi búið í landinu í 20-30 ár og tala ekki enn málið ....

Halla: Takk fyrir þitt innlegg...þetta er óhugguleg saga, ég þurfti að lesa hana tvisvar til að átta mig á að þú værir að tala um íslenskt dæmi! Kannski við séum ekki nógu vakandi vegna þess að við erum að passa okkur svo mikið á því að vera pólitískt rétthugsandi

Birna: Það er rétt að fólk er hrætt við þessa umræðu vegna þess að það verður einhvern veginn allt vitlaust þegar innflytjendaumræðan kemur upp og þá á kostnað málefnalegrar umræðu og það er afar slæmt.

Ingólfur: Ef að ég er rasisti út frá þessu greinarkorni þá bara ber ég þann stimpil .....þetta snýst frá mínum bæjardyrum um það grundvallar frelsi sem við búum við á vestulöndum og þau réttindi sem því fylgja....alræðishyggjan í Islamisma snýst ekki um frelsi heldur um ristkoðanir og brot á grundvallarréttindum fólks og þar sérstaklega kvenna og barna (nema þú sért drengur ). Islamismi er eðli málsins skv. ekki allir múslimar, þannig varast skal að setja alla undir einn hatt, líkt og við setjum ekki alla kristna...undir einn hatt  . En kannski er ég komin út á hálan ís hér. Það er bara svo grætilegt að til séu konur í vestrænum samfélögum sem hafa kannski aldrei komið út fyrir hússins dyr, vita ekkert hvar þær eru og þola barsmíðar á hverjum degi og við einhvern veginn horfum fram hjá þessu vegna þess að við erum óttaslegin við að taka á málinu!

En alla vegna, takk öllu fyrir athugasemdir!

 pées....bara fyrir forvitnissakir...á hvaða bloggi var vísað til þessa pistils !

Sunna Dóra Möller, 15.9.2008 kl. 09:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hugsað upphátt

Höfundur

Sunna Dóra Möller
Sunna Dóra Möller
Guðfræðinemi sem stefnir á að útskrifast einhvern tímann og breyta svo heiminum í framhaldi af því!
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Jóla
  • jólatrée
  • P1010337
  • P1010307
  • norðurferð 322

Annað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband