Færsluflokkur: Bloggar

Afrek gærdagsins!

Afrek gærdagsins eru þessi:
 
  1. Fór í Bónus (sem er mitt annað lögheimili, hver elskar ekki Bónus Cool
  2. Bakaði Vöfflur LoL (át tvær með hlassi af rjóma og sultu Grin)
  3. Setti í eina þvottavél (Svartan þvott ef einhver var að velta því fyrir sér Whistling)
  4. Horfði á fyrstu fimm þættina af Klovn sem var að koma út með íslenskum texta (Þeir gera líf mitt svo miklu skemmtilegra Wizard)
  5. Bjó til heimatilbúna Pizzu (Var enn svöng þrátt fyrir vöfflur).
  6. Horfði hina fimm þættina af Klovn!
  7. Át með því ítalskan ís Halo.
  8. Sofnaði yfir "Name of the Rose" um 10 leytið Sleeping!
Jamm....át og gláp gera mann alveg dauðuppgefinn, það er algjörlega morgunljóst LoL! Ég veit ekki hvort þessi dagur ber í skauti sér eitthvað stórkostlegt...það verður víst að koma í ljós, ég býst þó við að ég borði aðeins minna. Tjuss...Heart


Tilkynning!!

Ég er að læra LoLGrinWizard!! 
 
 
 
 

Hux!

Það er ótrúlegt að sjá umræðu fara gjörsamlega úr böndunum og horfa upp á fullorðið fólk slengja fram marklausum fullyrðingum um heila starfstétt án þess að hafa grænan grun um hvað það er að tala Devil!  Ég býst við að það sé nú eins og endranær ekki þess virði að taka þátt, enda við sem vinnum í kirkjunni eintómir barnaníðingar og böðlar! Stundum vildi ég óska að svona ummæli dæmi sig sjálf, en merkilega eru samt margir til að taka undir svona alveg hikstalaust! 
 
Merkilegt nokk samt að þrátt fyrir allar fullyrðingar um hvað við erum mikið ofbeldisfólk (kirkjan sko), að þá er barnastarf Neskirkju á þessu hausti í miklum vexti og í raun erum við að horfa fram á sprengingu í öllum þáttum vetrarstarfsins hvað varðar skráningu foreldra á börnum sínum í starfið. Ég hef verið að störfum í kirkjunni núna í tvö ár og þetta er þriðji veturinn sem ég vinn í kirkjunni og ég er þakklát fyrir það traust sem okkur er sýnt og ég vona að svona verði þetta áfram. Það sem mér finnst merkilegast af öllu er það að það hafa aldrei verið jafn sterkar gagnrýnisraddir á barnastarf kirkjunnar og nú á síðustu misserum, en samt vex starfið með hverju árinu sem líður. Kannski eru þessar öfgafullu raddir um barnaníð og meint ofbeldi starfsmanna kirkjunnar hreinlega ekki að virka, eða virka alla vega í gagnstæða átt. Alla vega erum við sátt við okkar hlut og erum þakklát fyrir það traust sem okkur er sýnt af foreldrum og fyrir það traust sem ríkir á milli stofnana í vesturbæ 107! 
 
kveðja í bili, 
 
Sunna sem telur sig ekki vera ofbeldismanneskju svona almennt og yfirleitt LoL!

Skólastelpur!

Mattan mín, sem er yngsti fjölskyldumeðlimurinn á heimilinu og verður 6 ára eftir tæpan mánuð var að hefja skólagöngu núna í haust. Systir hennar, Sigrún Hrönn byrjaði um leið í þriðja bekk. Hún skipti m.a. annars um skóla og nú eru þær systur saman í skóla sem er hér rétt hjá. Ég leyfði þeim í fyrsta sinn að ganga sjálfar í skólann í morgun, Sigrún hefur aldrei gengið sjálf enda var gamli skólinn hennar lengra í burtu og Möttulíus var eðli málsins samkvæmt í leikskóla og við foreldrarnir komum henni þangað eldhress í bítið á hverjum morgni Cool. En í morgun fengu þær að ganga fylgdarlaust í skólann í fyrsta sinn. Ég stóð, hálf kvíðin og romsaði stöðugt út mér öllum umferðarreglum sem ég mundi eftir, brýndi fyrir þeirri eldri að leiða þá yngri aftur og aftur og aftur W00t. Þær stóðu bara skælbrosandi, fullar tilhlökkunar að fá loksins að fara sjálfar, enginn beygur í þeim báðum. Síðan fóru þær og ég sat hér hálf óróleg þar til klukkan var 10 mín yfir átta og ég hafði ekki heyrt neitt af þeim, þannig að ég dró þá ályktun að þær hefðu komist klakklaust á leiðarenda. Ekki laust við það að ég hefði andað örlítið léttara Cool!

Eftir þetta fór ég að hugsa hvernig þetta var þegar ég var lítil og ég labbaði allt sjálf og var meira segja farin að taka strætó niður í Laugardalslaug með frænku minni 8 ára gömul........ég veit ekki hvort að það er eitthvað einstaklingsbundið við mig en mér finnst ég einhvern vegin stundum ekki treysta mér til að sleppa af þeim hendinni strax og svo veit ég stundum ekki alveg hvort ég treysti umhverfinu heldur......kannski er hægt að skella skuldinni á breytta tíma, ég var að byrja í skóla ´81 og nú er 2008! Þetta eru alveg 27 ár W00t og það hefur margt breyst. Mér finnst bara svo óþægilegt að vera ekki alltaf til staðar til að passa þær....ætli ég sé ekki ofverndunarsinni þegar kemur að börnunum mínum, það er víst ekkert of gott fyrir þessa eðalbornu grísi hér við hirðina...Halo!

Hér er mynd af tilefnunum á leið skólann InLove: haust 002

 Þangð til næst...Ha´det Heart!

 

 


Tóm gleði í morgunsárið...

eða ekki....ég er ekki að drepast úr jákvæðni á þessum morgni, ég er svo kvefuð og það er ekkert sem fer eins illa í skapið á mér og kvef, endalaus tilfinning að ég sé næstum því að fara að hnerra og svo gerist ekkert, hósti sem skilar engu nema hálfgerðum jarðskjálfta í hvert sinn.....þetta er eitthvað svo tilgangslaust, þ.e.a.s. kvef....og eiginlega bara til óþurftar Devil!
 
Annars er að koma yfir mig pínu nennuleysi aftur, mér finnst allt pínu leiðinlegt...en ég vona að það sé "#$%&/ kvefið! Nú kenni ég því um allt, alltaf gott að hafa eittvhað til að skella skuldinni á Whistling!
 
Annars eru 5 dagar þar til Bolli fer til Kenýa. Hann átti að fara í janúar en þá var allt vitlaust þar og ekki talið öruggt að fara. Núna er það víst eins öruggt og Svalbarði, þannig að það verður stormað af stað á mánudaginn kemur í 18 daga ferð. Þeir segja víst sem þekkja til að það sé lítil hætta á ferðum og ferðamönnum stafi mest hætta af ef að þeir lenda í skotlínu þar sem eru ættbálkadeilur en það er víst mikið um það í Vestur-hluta landsins og þá eru menn að rífast um beljur. Þannig að það er gott að vera ekki mikið á ferli ef beljurifrildi er í sjónmáli. Bolli er síðan búin að fara í alls konar sprautur og nú á hann að fara að taka Malaríulyf og síðan tekur hann Asidophilus líka vegna þess að það fá víst allir í magann að einhverju leyti Shocking! Þetta verður án efa hin besta för og lærdómsrík enda ætlunin að skoða kristniboðsstöðvar og starf þeirra og einnig ætla þeir (nokkrir prestar sem eru að fara saman) inn í Úganda. Ég bara ber mig vel og trúi því að Bolli komi heill heim, reynslunni ríkari, með afrískan þjóðarbúning handa frúnni.....haldið að ég yrði ekki flott LoLGrin!
 
Með þeirri ósk um að geðið mitt lagist þegar líður á daginn vona ég að þið eigið góðan dag Heart!

Sveitaferð!

Við brugðum okkur, fjölskyldan í Skorradalinn um helgina í smá frí. Haustlitir, bláber og gæsir voru þema ferðarinnar, sem var afar góð og við erum bara nokkuð góð með okkur eftir þessa fínu helgi Wizard. Læt bara myndir tala sínu máli hér, er of kvefuð til að hugsa stórt í dag....Cool!
 
Bless í bili! 
 
pées.... myndirnar eru teknar við Hreðavatn...komust aldeilis í feitt berjaland þar....LoL!
 
haust 012haust 015haust 018haust 031haust 035haust 013haust 029haust 036



Gramsað í gömlu efni!

Ég hef verið að fara í gegnum gamalt efni sem ég hef verið að skrifa í náminu mínu, tilgangurinn var að finna eina ákveðna ritgerð, sem finnst þó ekki (maður finnur aldrei það sem leitað er að LoL). En í þessari leit fann ég annað sem vakti athygli mína, en fyrir einhverjum fjórum árum síðan tók ég kúrs í Shíisma hjá Magnúsi Þorkeli Bernharðsyni og vann ritgerð og í henni notaðist ég við grein sem birtist í Morgunblaðinu og var unnin af Karli Blöndal og kallaðist "Evrópa logar". Það sem var svo sláandi í þessari grein var umfjöllunin um stöðu múslimskra kvenna í Þýskalandi. Mér datt í hug að setja þann hluta ritgerðarinnar hér inn vegna þess að ég man hvað þessi grein sat lengi í mér og hvað margt óhugglegt kom í ljós varðandi aðbúnað og líf kvenna í innflytjendasamfélögum í Þýskalandi:
 

"Í Þýskalandi er annað uppi á teningnum. Þar hefur mikil áhersla verið lögð á pólitíska rétthugsun. Enginn hefur þorað að opna munninn og gagnrýna straum innflytjenda inn í landið, sem hafa flutt með sér heilan menningarheim. Í dag eru aðstæðurnar þannig að í þýsku samfélagi þrífst einskonar hliðarsamfélag, þar sem gilda aðrar reglur og siðir en meðal  þjóðverja almennt og mannréttindi virðast ekki eiga við, sérstaklega á þetta við um konur. Um þetta fjallar grein Der Spiegel “Hinar réttlausu dætur Allah”. Þúsundir múslimskra kvenna búa við ok feðraveldisins, læstar inni í íbúðum sínum, varnarlausar gegn ofbeldi og nauðungarhjónaböndum. Þær hverfa inn í hliðarveröld, þar sem húsbændur eru í hlutverki einræðisherra. Venjulegir þjóðverjar líta aldrei þessa veröld. Við þeim blasa á markaðnum litríkir básar Tyrkja, en það sem er undir yfirborðinu lítur aldrei dagsins ljós. Katrin Flies yfirmaður kvennaathvarfs í München, segir þetta:

 

“Margar konur vita ekki hvar þær hafa búið árum saman. Margar þeirra hafa verið giftar til Þýskalands. Þær hafa aldrei farið út úr hverfinu sínu og sumar ekki út af heimilinu.[1]

 

 

Þess er getið að strangtrúaðir múslimar séu áfjáðir í að setjast að í Þýskalandi vegna þess að hvergi annars staðar í Evrópu fá þeir að stunda trú sína með jafn ströngum hætti.

Í Tyrklandi er bannað að vera með höfuðklút í skólum og háskólum. Frakkar hafa bannað slæðuna í ríkisskólum. Í Þýskalandi aftur á móti eru engar hindranir. Það er ekki litið á Þýskaland sem innflytjendaland. Innflytjendur eru frekar meðhöndlaðir sem gestir en samborgarar. Það er enginn þrýstingur til að láta innflytjendur laga sig að samfélaginu.

Það er ekki vitað hversu  margar konur búa við ofbeldi og kúgun í Þýskalandi. Könnun, sem var gerð fyrir tveimur mánuðum sýndi að tyrkneskar konur í Þýskalandi eru mun oftar beittar ofbeldi en aðrar konur. Fjórðungur kvenna sögðust einhvern tímann hafa verið beittar ofbeldi en 38% tyrkneskra kvenna. Þær voru mun oftar beittar ofbeldi og meðferðin á þeim hrottalegri. Fjórðungur tyrkneskra kvenna sögðust ekki hafa hitt eiginmann sinn  fyrr en í brúðkaupinu og 9% voru þvingaðar í hjónaband. Þessar múslima konur eru fórnarlömb grimmilegs karlaveldis en einnig þýskrar bannhelgi. Viðkvæðið er þetta, að það má ekki gagnrýna aðra trú og aðra menningu. Þetta eru viðbrögð við reynslu nasistatímans þar sem allt sem var framandi var gagnrýnt, ofsótt og upprætt. Þessi sektarkennd sem býr með þjóðinni hefur orðið að hjákátlegri viðurkenningu allra annarra menningarheima og barnalegri fjölmenningarhyggju. Bassam Tibi prófessor og einn af stofnendum mannréttindasamtaka Araba segir:

 

“Ekkert lýðræðisríki má leyfa að konan sé gerð óæðri[2]”.

 

Sú staða að búa í einum menningarheimi innan veggja heimilisins á meðan að allt annar menningarheimur bíður fyrir utan dyra hefur reynst mörgum múslimakonum í Þýskalandi dýrkeypt.

Leyla, múslimakona frá Dortmund, sem á að baki 20 ára hjónaband, 20 ára barsmíðar af hálfu eiginmannsins og tengdaforeldranna, segir:

 

Hún óskar sér stundum að hún hafi aldrei yfirgefið Tyrkland. Þar er líf fólks miklu nútímalegra en í Þýskalandi. Þar fer fólk á diskótek og það fer út….Uppvöxtur hennar var með öðrum hætti sem tyrki í Þýskalandi. Þar safnast saman fólk úr lægri stéttum. Þeir taka með sér hefðbundna mynd feðraveldisins til nýju heimkynnanna. …. Leyla fékk ekki að vera með í leikfimi af ótta föður hennar við að meyjarhaft hennar myndi rofna því þá eru dætur orðnar verðlausar á hjónsbandsmarkaðnum. ….Þegar hún var 16 ára komu foreldrar hennar með eiginmann. Hún samþykkti, hún hefði samþykkt hvað sem er til að komast út úr fangelsinu…. Hana grunaði ekki að ástandið myndi versna. …. Hún var lamin hvað eftir annað. Hún vildi komast í kvennathvarf en móðir hennar sagði nei. Hún hafði ekki mátt til að rífa sig frá þessari neitun”[3].

 

Margt bendir til þess að í samfélögum múslima í Evrópu gildi Sharia lögin. Það er ekki langt síðan að spænskur Imam mæltist til þess að ekki væru notuð of gild barefli til að berja á fætur og hendur kvenna. ´

           

Í tyrkjahverfum í Berlín, Nürnberg og München ríkir mikill agi meðal hinna strangtrúuðu. Allir taka þátt í að vaka yfir konum. Eini staðurinn þar sem þær komast undan eftirliti er í skólum. Það þarf lítið til að ögra þessum samfélögum. Karlmönnum er innrætt að kona, sem ber ekki slæðu er dræsa eða hóra. Konur sem ganga um án höfuðklúts í þessum hverfum eiga á hættu að vera eltar af hópum drengja eða karla og vera hótað nauðgunum. Dæmi eru um hópnauðganir.

Í félagsþjónustu í Stuttgart hafa verið sett á svið saumanámskeið þar sem tyrkneskum konum er kennd þýska og um leið hvar þær geta leitað sér hjálpar. Ótti eiginmannsins er að þær verði of sjálfstæðar.

            Þessi samfélög í Evrópu munu fara stækkandi á næstu árum og áratugum. Múslimar hafa búið í Evrópu svo árum skiptir. Nú búa 15 milljónir múslima innan Evrópusambandsins. Þetta á þó ekki við um allar þær milljónir múslima sem búa í Evrópu. Ofstækið leynir sér ekki og þegar pólitísk morð eru framin til að þagga niður í andstæðingum er ljóst hve alvarlegt og eldfimt ástandið er orðið[4]."

 


[1] Sama. s. 10.

[2] Karl Blöndal, 21.Nóvember. “Evrópa logar”. Morgunnblaðið. s. 10

[3] Karl Blöndal, 21. Nóvember. “Evrópa logar.” Morgunnblaðið. s. 11

[4] Efni þessa hluta verkefnisins er endursögn á grein Karls Blöndal sem birtist í Morgunblaðínu 21.Nóvember 2004 á blaðsíðum 10-11.

 
Eigði annars góðan dag Heart!

Skipting John Kloppenborg á Q í Q1, Q2 og Q3. Tekið úr bókinni Excavating Q frá árinu 2000.

Ég fékk fyrirspurn fyrr í dag hvort hægt væri að finna samantekt yfir ummælin sem tilheyra Q1, sem er elsta lag ræðuheimildarinnar. Ræðuheimildin er tilgáta sem mjög margir fræðimenn telja að sé til og hún liggi að baki öllum samstofna guðspjöllunum þremur (Matteus, Markús og Lúkas). Til eru þeir fræðimenn sem telja að enn fremur skiptist ræðuheimildin í þrennt - Q1, Q2 og Q3. Q1 endurspeglar elsta stig ræðuheimildarinnar og um leið elsta samfélag fólks að baki guðspjöllunum þegar fólk var að byrja að fóta sig og læra lifa eftir boðskap Jesú fljótlega eftir krossinn. Þannig hér segja menn að megi finna elstu ummæli Jesú og í raun að hér komumst við næst hinum sögulega Jesú. Í þessu lagi er meðal annars ekki að finna neinar tilvísanir í Gyðingdóm og margir vilja meina að hér séu ekki heldur beinar tilvísanir í krossinn heldur sé um ummæli að ræða sem séu í ætt við hefð Kýnikea og stóuspeki. Næsta lag, Q2 er svo aðal ritskýringarstig ræðuheimildarinnar en hér kemur fyrst inn hin spámannlega hefð Gyðingdómsins og menn eins og Jóhannes Skírari koma fyrst fyrir. Fólkið að baki Q-heimildinni er ofsótt og leitar til spámmannlegu hefðarinnar til að skýra sínar eigin ofsóknir en spámenn gyðingdóms voru einnig ofsóttir margir hverjur. Lokastig Q er svo algjör samruni við musterið og gyðing-kristindómur varð til en hann lifði fram til ca. 400. Við sjáum dæmigerðan gyðing-kristindóm í Jakobsbréfi og Matteusarguðspjalli en efni í þessum tveimur ritum er um margt keimlíkt. 
 
Sá fræðimaður sem er höfundur þessarar tilgátu er John Kloppenborg en bækur hans "Formation of Q"; "Excavating Q" og "Q-Parallels" taka á þessum málum vel. 
 
Ég set hér inn smá umfjöllun úr Excavating Q, um Q1 og mun setja inn um Q2 og Q3 næstu daga!
 

(ath. Hér fylgja Q ummælin Lúkasarguðspjalli, hægt að fletta upp í því til að lesa ritningarversin).

 

Q1 er gott dæmi um leiðbeiningar bókmenntir. Þetta elsta lag ræðuheimildarinnar gefur góðar leiðbeiningar varðandi ákveðin þemu. Líkt og með leiðbeiningar þá innihedlur Q1 ummæli sem varpa ljósi á ýmis lykil atriði í leiðbeiningarferlinu. Dæmi um þetta er: Samband meistara og nema (Q 6.40, 46-49; 14.26-27); á mikilvægi góðrar leiðsagnar (Q 6.40, 41-42), góðrar ræðu (6. 43-45), og góðs fordæmis (Q 17.1-2).

 

Stórum hluta Q1 er umhugað um staðbundin málefni: Hvernig er tekist á við ágreining (Q 6.27-28, 29; 12. 2-7, 11-12; 17.3-4); lána og fá lánað (6.30), viðhalda nauðsynlegu lífsviðurværi (11:2-4, 9-13; 12.22-31), samstaða og sátt (15.4-7; 8-10; 17.1-2, 3-4), Viðhorf gagnvart auði (12.33-34; 16.13) og framkoma og hegðum “verkamanna” (9.57-62; 10.2-11, 16).

 

Q1 skortir alveg véfréttarstílinn. Rödd Guðs er ekki heyrð og Jesús talar ekki sem spámaður. Ríkjandi rökfærslan í Q1 er sannfæring sem er beitt í gegnum retorískar spurningar, fordæmi og samanburðir eru byggðir á venjulegri reynslu eða úr náttúrunni. Q1 hefur þó fulla trú á guðlegri forsjón, á því að Guð fylgist með í kærleika og á í gegnum þann möguleika að mannleg samsbönd geti umbreyst. En það eru engar tilvísanir í það að þessu sé miðlað gegnum Tóruna, musterið eða stigveldi presta eða þá að þetta sé byggt á véfréttum eða fyrirskipunum.

 

Ef spurt væri hver hefði verið í þeirri stöðu að ramma ummælaguðspjallið inn (Q1) þá væri svarið: Almennir þorpsbúar eða skrifarar.  Sú staðreynd að Q1 sé römmuð inn eins og leiðbeiningarskjal sem er algengt “skrifara” form og endurspeglar hugðarefni hinna skirftlærðu (scribe), þess vegna fer vel á því að Q1 sé afurð þessa þjóðfélagshóps.

 

Varast skal að staðsetja þessa menn of hátt í þjóðfélagsstiganum. Ummælaguðspjallið var upprunalega sett saman til að ávarpa fólk sem bjó við fátækramörk, sem tókst á við landlæg átök í þorpum og bæjum ásamt margs konar annars konar þrýstingi utan úr samfélaginu.

 

Taka skal fram að þessi kenning er alls ekki óumdeild og margir efast um hana og vilja taka Q sem eina heild og ekki búta hana niður í þessi lög. Mér finnst sjálfri þetta skemmtileg kenning og einn hlekkur í því að komast nærri því hvað býr að baki Guðspjöllunum í raun og veru. Þróun Q fylgir algjörlega þróun og sjálfsmótun hinna fyrstu kristnu og samfélags þeirra eftir dauða Jesú. Þetta tvennt er nátengt og verður ekki sundurskilið! Sama gerist að baki Jóhannesarguðspjalli, Raymond Brown hefur einnig greint þrjú stig í þróun þess og samfélagsins að baki fjórða guðspjallinu. Kannski ég skrifi eitthvað um það seinna!

Bless í bili!


Ætlaði að segja eitthvað merkilegt.....

En ég er búin að gleyma því W00t! Ætli ég segi ekki í staðinn bara eitthvað óttalega ómerkilegt og óspennandi, svona í "ekki-bloggs" stíl Cool!
 
Ég er sem sagt komin á fætur, búin að fá mér flatköku með osti, eplasafa og slatta af kaffi og nú sit ég og bíð þess að eitthvað gerist. Ég er búin að ganga tvo hringi um gólf í stofunni og leggja höfuðið í bleyti og hef komist að því að best sé að fara og týna fram nokkrar guðfræðibækur og lesa og reyna ef vel tekst til að skrifa smáræði. Hver veit nema ég geti lagt fram eins og eitt gott guðfræðiblogg enda komin langur tími síðan síðast....enda kemst ég ekki á blað þegar verið er að kjósa besta kristna bloggarann LoL...held reyndar að margir telji mig ekki kristna í þeim hópi  Tounge af því að ég er svo hrifin af heresíum og lítið hrifin af bláköldum bókstaf reglunnar Pinch! En eins og ávallt ber ég minn harm í hljóði vegna þess að ég er harðjaxl og töffari og er ekki að bera mínar tilfinningar á torg heldur sit ég hér fyrir framan tölvuna með pókersvip og töffaralegt glott a la Clint Eastwood.....LoL!
 
Eigiði góðan dag sem er aðeins haustlegur og ég fagna því, enda trúi  ég því statt og stöðugt að allir geitungar fjúki á haf út í þessu skemmtilega roki og brátt líður að því að ég geti farið að opna glugga á ný, enda er mér orðið frekar heitt í hamsi!
 
sjáumst síðar Heart!

Skúringar!

skúraEitt að því leiðinlegasta sem ég geri er að skúra gólf......en þessi gjörningur fékk alveg nýja vídd í dag þegar ég uppgötvaði hvað það er gaman að skúra við gömul júróvisjón lög. Hold me now með Jonny Logan lætur mann skúra á við fjóra fílelfda karlmenn og auðvitað er sungið með af hjartans list....við erum að sjálfsögðu að tala um tímamótaverk W00t!
 
Nú er allt skrúbbað og bónað og ég er bara iðandi af tómri lífshamingju!
 
Eigði góða rest af degi Heart!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hugsað upphátt

Höfundur

Sunna Dóra Möller
Sunna Dóra Möller
Guðfræðinemi sem stefnir á að útskrifast einhvern tímann og breyta svo heiminum í framhaldi af því!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Jóla
  • jólatrée
  • P1010337
  • P1010307
  • norðurferð 322

Annað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband