Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Athyglisvert!

Ég fékk þessa athugasemd á bloggi einu hér, þar sem að mér varð á að fara út í umræður sem að ég hefði betur sleppt. Það er svo merkilegt hvernig fólk getur talið sig geta sagt hvað sem er og hvernig valdboð í umræðu getur verið yfirgengilegt.

"Sunna Dóra sem betur fer búum við í landi þar sem aðgengi að menntun er góð og fólk á ýmsa möguleika með starfsval. Þú hefur eflaust marga kosti en að verða safnaðarhirðir er ekki einn þeirra, ekki gera kirkjunni það að gerast prestur með þennan afbakaða Guð sem herra þinn og  væntanlegs safnaðar."

Hugsa sér hvað það er gott að til er fólk sem er til í að ráðleggja mér og beina mér inn á réttar brautir. Ég get verið Guði þakklát fyrir að ég er ekki uppi á myrkum miðöldum því að þá væri búið að brenna mig líklegast fyirr villutrú.

En ég er þakklát fyrir það að búa í upplýstu samfélagi, þar sem einmitt aðgengi að menntun er gott og í því upplýsta samfélagi er akkúrat rúm fyrir ólíkar skoðanir. Mikið er ég þakklát fyrir allar ólíkar raddir, fyrir ólíkt fólk, fyrir ólíkar skoðanir, fyrir allan þann fjölbreytileik sem að sköpun Guðs felur í sér. Guði sé lof fyrir lífð og tilveruna, fyrir allt það góða fólk sem að reynir að berjast fyrir að fá tilveru sína metna til jafns við tilveru annarra. Barátta ykkar er mér og öðrum fordæmi! Takk fyrir mig!! 

Með kveðju, Sunna Dóra!

 


Hugsi...

Ég hef verið ansi hugsi síðastliðna daga yfir ýmsu sem að ég hef orðið vitni af hér í þessum bloggheimi! Ég hef séð ýmislegu haldið fram í nafni kristinnar trúar og jú hef blandað mér í þær samræður. Sumu á maður kannski að sleppa, því þegar ég hef mætt heitri sannfæringu þá er annars vegar spurningum ekki svarað eða talað um að Jesú hafi varað við fræðimönnum.

Nú tel ég mig ekki fræðmann/konu þar sem að ég hef nú ekki lokið námi og ekki er ég prestur þar sem að ég hef ekki tekið vígslu eða lokið því starfsnámi sem að þarf til.

En þegar t.d. er talað um það að kristin hefð hafi verið konum oft fjandsamleg og hvað kvennaguðfræðin hafi lagt til málana, þá er talað um að kvennakrikjan starfi ekki eftir orði Guðs og gagnrýnd tilvist hennar innan þjóðkirkjunnar þar sem hún er jú með blessun Biskups.

Nú skil ég ekki margt og veit lítið um annað......en þegar gagnrýndir eru hlutir sem ekki er vitað nægilega mikið um og fullyrt um að konur séu nú heppnar þar sem að María Mey er æðst allra kvenna og nýtur hárrar stöðu innan kirkjunnar......þá bara verð ég alveg orðlaus. Það er nú kannski ágæt stundum að verða orðlaus en ég hef sjaldan mætt svona viðhorfum. Ég er kannski bara búin að vera svona lengi í vernduðu umhverfi Háskólans........

Annað sem ég skil ekki heldur er þegar rætt er um samkynhneigð á guðfræðilegum grunni þá fæ ég það fram að ekki er verið að fordæma grunnhneigðina sem slíka. Heldur aðeins kynmökin sem eru afleiðing hneigðarinnar. Nú verð ég aftur pínu hissa......ég spyr hvort í þessu felist ekki fordæming á hneigðinni og hvort að það sé verið að halda því fram að samkynhneigðir megi vera samkynhneigðir með því þá að stunda ekki kynlíf. Þá er svarið að það væri jú best! En þetta er alls ekki fordæming síður en svo......Nú spyr ég hvað er þetta annað en fordæming á samvistum samkynhneigðra þó að hún birtist svona undir rós. Allar hneigðir sem að tengjast kynverund okkar hafa þá afleiðingu sem er kynlíf. Er kannski verið að horfa svo mikið í kynlífið sjálft að tilfinngasambandið verður útundan. Það er ekki rætt um að fólk geti hreinlega hafa fundið sér sálufélaga til að eyða ævinni með. Með því að einblína inn í svefnherbergi að þá þarf fólk ekki að takast á við hin atriðin sem að skipta máli........

Annars held ég að vegna þess að hneigðin sjálf er alltaf umræðu efnið að þá gleymist elskan sem er forsenda fyrir því að fólk ákveður að deila kaupum og kjörum. Ég alla vega tel það forsendu að góðu sambandi að kærleikur sé og ríki á milli þeirra sem mynda samband, það mikill kærleikur að fólk getur ekki hugsað sér lífið án hvors annars. Hvernig fólk kýs síðan að tjá sína ást er eitthvað sem að kemur mér og öðrum ekki við. Grundvöllurinn er ástin og frelsið til að tjá þá ást án fordæmingar

kveðja,


Orðræða um kristna kynlífssiðfræði!

Siðfræðingurinn Mark D. Jordan hefur skrifað áhugaverða bók sem heitir "The Ethics of Sex". Hún meðal annars skrifuð út frá mótunarhyggju og áhugaverð einmitt sem slík.

Hann segir m.a. annars þetta:

"Preaching against sex may be the most familiar Christian speech of all in our pluralistic, secular societies. People who know nothing of Christan creeds or scriptures can recite the most notorious Christian sexual prohibitations. They will be deeply confused about Trinity and Incarnation, but they will rightly report that this or that Christian group condems artificial contraception, or masturbation, or second marriages, or genital pleasures between persons of the same sex. In the public imagination, Christianity can figure as nothing more than a code of sexual conduct, a code that likes especially to elaborate prohibitions.

Christians often reply to these stereotypes by shifting the blame to cultural conditions - say, the sensationalism of news reports about religion or a (contemporary?) tendency to reduce everthing in human life to sex. These replies may have merit, but we Christians would do better not to excuse ourselves so quickly. The stereotypes about our hypocrisy over sex or our hatred of it are reactions to the ways we have chosen to talk about sex - and especially to the ways in wich we have tried to stigmatize it so as to regulate it. If sexual acts can carry many motives, so can speech about sex. The speech of Christian sexual ethics seems often to have been moved by unchristian fears and fantasies. It has served to sanction old designs rather than to announce good news. Instead of confessing yet more sexual sins, or preaching yet against them, we might want to confess the sins we have committed in presuming to teach about sex as we have. We might want to consider our bad habits, our vices, when it comes to setting forth a Christian ethics of sex"


Fleyg orð..

"In my judgement, the church´s credibilty for offering a liberating, healing word, as well it´s efficacy in "setting captives free," depends on wether its commitment to ending violence is broadly inclusive and universal in scope. No one - not you, not I, not anyone else - should be left out, and no one should be made to suffer alone. If there is a single Christian duty, task or project, it is not to give to others, but to create and be in community in wich all people can give, contribute, and feel valuable. As I see it, that´s the kind of ministry truly worthy of our time, our commitment, and our very lives"

Marvin M. Ellison

 


Lokapredikun!

Í tilefni þess að það er sunnudagur ákvað ég að setja hér inn hluta úr lokapredikuninni minni sem var flutt í kapellu HÍ föstudaginn 20. apríl síðastliðinn. Textinn sem að lá undir er úr Lúkasarguðspjalli k. 17.11-19.

"Við getum hér horfið aftur um 2000 ár. Þar sem við erum stödd í þorpi einu á mörkum Galíelu og Samaríu. Þar standa álengdar 10 holdsveikir menn. Einn af þeim er útlendur í landi Ísraels, hann er samverskur. Samverjar voru fyrirlitnir af gyðingum, þeir voru óhreinir. Þessi maður í texta dagsins býr því við tvöfalda menningarlega kúgun. Hann er bæði holdsveikur og Samverji. Hann er algjörlega utangarðs og virðingin fyrir honum sem persónu er engin. Jesús á leið sína um þetta þorp á leið sinni til Jerúsalem en vegurinn sem hann er á, er sá vegur sem leiðir að krossinum og síðar upprisunni og sigrinum frá dauða til lífs.  Þessir menn sem eru utangarðs kalla til Jesú. Þeir hafa þolað virðingaleysi og þjáningar. Þess vegna eru þeir varfærnir, Þeir þora ekki nálægt honum heldur standa álengdar og kalla: “Jesús, meistari miskunna þú oss”. Kraftaverk á sér stað, hinir 10 hljóta líkn. Jesús horfir ekki eingöngu á það sem hrjáir þessa menn, hann er ekki að velta fyrir sér hvað lífsskoðanir þeir hafa valið sér eða hverju þeir trúa,  Hann horfir á persónuna. Hann sér manneskju sem á skilið að lifa mannsæmandi lífi. Hann rífur einangrunina og örvæntinguna sem umlykur líf þessara manna sem hafa staðið við veginn án þess að fólk hafi gefið þeim gaum. Fólkið hefur líklega hraðað sér framhjá þeim til að óhreinkast ekki, til að þurfa ekki að taka á sig þjáninguna sem að þessir menn hafa þurft að takast á við en það er þráin eftir því að njóta þeirrar virðingar sem hver manneskja sem sköpuð er í Guðs mynd á skilið.  Um leið og þessir 10 menn hljóta lækningu gefur Jesús þeim ákveðið frelsi. Þeir eru orðnir heilir á líkama, en lækningin er ekki bundin við líkamann einann. Í kraftaverkinu felst einnig tækifæri til að sálin verði heil. Með því að þiggja felst einnig að geta gefið.  “Hvar eru hinir 9” spyr Jesús þegar aðeins einn snýr til baka til að gefa Guði dýrðina. Aðeins einn þeirra sem er heill orðinn notar gjöf sína, nýtir kraftaverkið til að verða heill á líkama og sál. Í frelsinu sem Jesús hefur gefið hinum 10 felst það val að geta komið til baka og þakkað fyrir það sem hefur verið þegið. Það má vera að í stundargleði hinna níu vegna þess sem hefur átt sér stað,  þá gleymi þeir hreinlega að snúa við og þakka fyrir gjafir sínar. Það er svo merkilegt að það er sá einstaklingur sem að býr við mestu kúgunina sem að snýr við. Kannski er það eitthvað sem að ætti að snerta okkur öll, hvert og eitt. En er þetta bara dæmisaga eða gerum við þetta hvert og eitt á hverjum degi. Þiggjum frelsið og réttindin sem því fylgir en gleymum að réttindunum fylgja skyldur, við gleymum að gefa Guði dýrðina.  Líkt og Jesús sýndi þessum þjáðu mönnum forðum virðingu, leit á þá sem manneskjur, þá er það skylda okkar sem að höfum valið að vera kristin að gera slíkt hið sama. Við trúum á þann Jesú sem gekk um þorpið forðum og leit í augu þessara manna og gaf þeim líf. Nýtt líf og nýtt upphaf sem fólst í því að einangrunin var rofin. Þessir menn þorðu að kalla og þeim var svarað. Þeir sættu sig ekki lengur við það virðingarleysi sem að þeim var sýnt. Þegar þeir mættu Jesú á veginum fengu þeir von um að mennska þeirra yrði reist við á ný.  

Kirkjan okkar í dag á að vera þessi grundvöllur þar sem miskunn Guðs verður virk og um leið og hún verður virk gefum við Guði dýrðina. Við gefum fólki gaum, við sýnum því þá virðingu sem það á skilið, sama hvaðan það kemur. Við eigum að hafa rödd sem berst gegn virðingarleysinu sem ríkir í samfélaginu, við eigum að þora að hafa skoðanir þegar veist er að fólki sem að hefur tekið trú. Fólk sem hefur haft sama kjark og Samverjinn forðum sem sneri við og þakkaði fyrir það sem honum var gefið. Við höfum ákveðnar skyldur sem kristið fólk. Við eigum ekki að samþykkja það þegar veist er að persónu fólks og heilindi þeirra eru dregin í efa, vegna þess að trú þeirra ógnar hlutleysiskröfu efahyggjunnar.  Við eigum að vera óhrædd við það að fara út og boða þennan sannleika sem okkur var gefin þegar við mættum frelsara okkar og hann gaf okkur líf í ljósi trúar. Við eigum að vera óhrædd við að í okkur heyrist.  

Um leið leitumst við, við að mynda samfélag þar sem allir eru velkomnir, til þess að við gefum aldrei það til kynna að Guð blessi bara suma en ekki alla. Það er svo merkilegt að stundum birtist nefnilega trúin þar sem menningarheimar mætast, Guð fer yfir félagsleg, menningarleg og kynþáttabundin mörk til að minna okkur á að náðin er fyrir alla. Stétt, staða, kyn og kynhneigð skipta ekki máli þegar kemur að náð Guðs. 

Þetta er djarft og krefst kjarks, en með þessu fetum við sama veg og Jesús gerði forðum á leið til Jerúsalem. Við meðtökum miskunn hans með þakkargjörð. Í þakkargjörðinni felst að halda áfram því starfi sem hann hóf hér á Jörð. Það er langt í land, kristnir eru langt frá því að tala einni röddu í heiminum í dag, þar sem deilur varðandi skírnarskilning, sakramenntisskilng, hvort vígja megi konur til þjónustu og hvort gefi megi samkynhneigða saman í hjónabönd svo að eitthvað sé nefnt, hamlar því að kirkjan stendur sterk með eina sameiginlega rödd. Innanhúsþrætur eru ekki kirkjunni til góða. Það sundrar henni og hamlar framför hennar í heiminum.  

En djörf og hugrökk kirkja sem þorir, getur mætt öllum þeim gagnrýnisröddum sem á henni dynja vegna þess að hún veit að hún fetar veg sannleikans og lífsins. Það er vegferð kirkju sem sigrar að lokum allar hindranir og nýtur virðingar vegna þess að hún þolir ekki virðingarleysi og persónuníð. Hún vegsamar sköpunina sem er svo óendanlega fjölbreytt og rúmar alla jafnt. Hún er tilbúin að berjast fyrir manneskjunni. Það er það sem á endanum er hið æðsta gildi. Að manneskjan skipti máli. 

Guðspjallið hefur gefið okkur frelsi til að snúa við líkt og Samverjinn forðum, í því frelsi er vonin. Það er ekki ómælanlegt frelsi til að gera allt sem við viljum, vaða áfram án þess að neinar skyldur komi á móti. Í frelsinu sem Jesús gefur okkur felst ferðalag aftur að mörkum Galíleu og Samaríu, þar sem okkur er boðið að leggja við hlustir og opna augun fyrir manneskjunni sem kallar og þráir líf í trú, sama líf og við höfum þegið. Við getum á þann hátt nýtt okkur umbreytandi mátt orðins og sagt við þau sem eru okkur ókunn og eru utangarðs:  Statt upp og far leiðar þinnar, trú þin hefur bjargað þér. Þetta er frelsi trúarinnar!"      


Til umhugsunar!

Mig langar í kjölfar athugasemdar sem ég fékk hér við aðra færslu þar sem gefið er í skyn að ég sé nú aldeilis að misskilja stöðu kvenna í kristinni trúarhefð, að vitna hér í skrif Tertúllíanusar kirkjuföður (160-225). En hann notaði frásgöguna af fallinu í Gen. 3 til að vara systur sínar í Kristi við að jafnvel þær bestu á meðal þeirra eru í raun samverkakonur Evu. Hann skrifar í De cultu feminarum:

"Vitið þið ekki að þið eruð Eva? Dómur Guðs yfir þessu kyni lifir enn þann dag í dag, á þessari öld. Þess vegna lifir sektin enn af nauðsyn. Þið eruð hlið djöfulsins; Þið eruð þær sem brutuð innsiglið á bölvun trésins, þið voruð hinar fyrstu til að snúa baki við hinu guðlega lögmáli. Þið eruð þær sem að sannfærðuð þann sem að djöfullinn gat ekki spillt. Þið eyðilögðuð auðveldlega ímynd Guðs sem er Adam. Vegna þess sem þið verðskuldið, sem er dauði, þurfti sonur Guðs að deyja."

Meira afgerandi getur þetta nú ekki verið, held ég. En ég er nú bara guðfræðinemi, ég gæti nú verið að misskilja þetta líka Halo.

Kannski fæ ég aðra sýn eftir útskrift.....ég vona samt ekki Cool

 

 


Tilvitnanir!

Ég las í vetur bók eftir bandarískan siðfræðing, Marvin M. Ellison sem heitir "Same Sex Marriage". Ellison er einnig prestur í Presbyterian kirkjunni í USA ásamt því að vera samkynhneigður. Þessi bók er alveg frábær og opnar augu lesandans fyrir mörgu. Ég er ný búin að fá aðra bók eftir hann sem ég hlakka til að lesa að loknum verkefnum vorsins í skólanum.

Ég læt hér fylgja á eftir uppáhaldstilvitnanir mínar úr bókinni, úr mörgu var að velja en þetta toppar:

"Marriage ceremonies do not create marriages but bear witness to an already existing marriage. Hence, to allow ceremonies for heterosexual couples but prohibit them for gay and lesbian couple is unjust: it constitutes discrimination. Treating two classes of people differently is discriminatory, and such exclusionary laws degrade the human person because they create, ipso facto, a second class citizenship for gay and lesbian people in the church"

"Could it be, as the Christian Rights fears, that once the erotic genie is left put of the bottle, nothing would effectively stand in the way of rampant hedonism, sexual persmissiveness, and total moral chaos: Are gay people really that powerful to threaten the breakdown of the marital family and civilization itself?"

"Guardions of sexual status quo fear that this queer passion for justice-love may catch on and corrupt others, espescially the youth. After all, self-respecting and erotically empowered people are often willing to take risks for love and make a difference. They tend also to refuse to settle for less than what they and all other people deserve: a fabulously inclusive world (and church) that welcomes friends, lovers, strangers and seeks to turn this precious globe into a nurturing home for all. Be forewarned therefore: when people come to love justice this deeply, this passionately, they become justifiably and dangerously queer, no matter wether they are LGBT or not and most definitely, wether they are married or not"

Læt þetta vera nóg af Ellison í bili. En mig langar til að lýsa ánægju minni með viðtalið annars vegar við sr. Óskar á Akureyri sem var á stöð 2 í kvöldfréttum og svo viðtalið við prófessor Pétur Pétursson á RÚV. Það birti til við að hlusta á þá tala og sýnir að þessu máli er ekki lokið. 

nóg í bili

sunna


Enn af hjónabandinu!

Ákvað að birta hér fleiri skrif um hjónabandið sem að ég vann í vetur þegar ég var að skoða hjónabandssiðfræði sérstaklega hjá Dr. Sólveigu Önnu Bóasdóttur!

Sköpunartextinn í Gen. 1-2 talar um að karlinn og konan séu sköpuð til jafns í guðsmynd. Sagan hefur þó túlkað stöðu kynjanna  á annan hátt. Þar hefur regla sköpunarinnar sem birtist hjá Páli t.d. í Ef.5. verið notuð frekar. Konan hefur alla tíð innan kristinnar hefðar verið túlkuð sem annars flokks og þarf ekki að leita lengra en til Tómasar Akvínó og fleiri til að sjá að þeir líta á konuna sem afbrigðilegan karl. Eini tilgangur konunnar var að geta af sér hið fullkomna sem var karlmaðurinn. Karlinn var normið en konan var ab-norm. Þetta er nú ekki í samhengi við það sem Gen: 1.26-28 til dæmis vitnar um. Þó hefur sagan úr t.d. Gen2 verið vinsælli en þar er konan sköpuð úr rifi karlmannsins. Hér er um langa hefðarsögu að ræða þar sem órétti hefur veruð beitt markvisst til að halda konunni niðri. Það að tala um einhverja rómantíseraða mynd af karli og konu sem sköpuð eru jafnt í mynd Guðs á grundvelli rintningarinnar er tálsýn. Því að hefðin og túlkunin segja allt annað. Við getum alltaf fundið okkur texta til að styðja þá túlkun sem að hentar hverju sjónarmiði fyrir sig á hverjum tíma. Skikkan skaparans hefur ekki alltaf verið jákvæð fyrir konur í heiminum á hverjum tíma!! Því miður.

 Varðandi hjónabandið. Að þá er það svo merkilegt sama hvað hver segir að það hefur alltaf í gegnum hina kristnu sögu verið annars flokks. Það fólk sem gat ekki verið skírlíft átti að giftast, því að það var betra en að brenna af girnd. Meydómurinn t.d. er ídólíseraður og verður að einhvers konar helgimynd. Gregoríus frá Nyssa skrifaði ritgerð 381 sem hann kallar “hvatning til skírlífis”.  Það kemur fram að skírlífi færir einstaklingi Guðs-líkindi, þátttöku í hreinleika og óspillanleik Guðs. Í játningum Ágústínusar talar hann um afturhvarf sitt til kristinnar trúar. Í því felst m.a hverning hann snýst til skírlífis og hafnar hjónabandinu, það er hið kristna ideal. Hvatning miðaldamanna til að vera skírlífur var betra á svo margan hátt en hjónabandið. Hjónabandið var í raun ekki mikið meira en tilfærsla á eignarrétti. Í samhengi Gt sjáum við það skýrt. Konan var eign föður síns og varð svo eign mannsins síns við hjónaband. Þess vegna til dæmis var hórsök svo alvarlega því hún braut á eignarétti en ekki vegna þess að hún var særði tilfinningar fólks.  

Ef haldið er áfram að fjalla um hjónabandið þá getum við vitnað í Lúter kallinn sem er nú höfuð okkar kirkjudeildar. En hann réðst að hjónabandinu í Babýlónsku Herleiðingunni. Þar er hann að skrifa um sakramennti kaþólsku kirkjunnar. En niðurstaða hans var sú að sakramenti kirkjunnar eru aðeins 2 og það er mjög mikilvægt í þessari umræðu, en það eru skírnin og kvöldmáltíðin. Lúter segir: “Nowhere do we read that he man who marries a wife receives any grace of God. There is not even a divinely instituted sign in marriage, nor do we read anywhere that marriage was instituted by God to be a sign of anything”

 Skv. Lúter var hjónabandið veraldleg stofnum og tilheyrði frekar sviði löggjafans frekar en kirkjunnar. Hjónabandið er ekki “ordinatio” heldur “benedictio” eða blessun. Við skulum ekki gleyma því að prestar vígja hjón í umboði ríkisins í hjónabandathöfnum. Vígsluvaldið skv. lögum er ekki frá Guði heldur löggjafanum. Handsalið við altarið er veraldlegt og tengist sáttmálanum sem hjónin samþykkja og taka með honum á sig ákveðin réttindi og skyldur. Löggjafinn getur því með réttu tekið þetta vígsluvald af prestum og eftir stendur þá blessunin ein og fyrirbænin. Og hver erum við að meina fólki um slíka blessun. Það má vel vera að það komi til þess að ríkisvaldið setji í nánustu framtíð lög þess efnis um að samkynhneigðir megi ganga í hjónaband og breyti lögunum skv. því! Hvað ætlar kirkjan að gera þá???? Við verðum að horfast í augu við það að margt hefur breyst, fjölskyldan er ekki sú sama og hún var. Hér eru í auknum mæli um samsettar fjölskyldur að ræða, einstæð foreldri, fólk sem velur að vera eitt, fólk sem er gift en ákveður að eignast ekki börn, fólk að sama kyni sem vill innsigla samband sitt frammi fyrir guði og fleira og fleira. Myndin sem blasir við er ekki lengur eins einsleit og hún var. Samfélagið hefur breyst. Í mínum huga er þetta mál ekki eingöngu málefni samkynhneigðra og baráttu þeirra fyrir því að ganga í hjónaband. Þetta er hluti af miklu stærri máli, sem snýst um réttlæti og skilgreiningu kirkjunnar á því hver hún er og fyrir hvað hún á að standa. Fetum við veg krossins sem krefst þess af okkur að við tökum okkur stöðu hjá þeim sem samfélagið ýtir á jaðarinn. Þorum við að standa á jaðrinum með þessu fólki og taka ok og byrðar þeirra áokkur. Eða ætlum við að taka undir með faríseunum og fræðimönnunum og ganga fram hjá þeim sem liggur og getur enga björg sér veitt líkt og segir frá í sögunni af miskunnsama samverjanum.  

Það er enn og aftur stórt spurt!!


Hugleiðingar um hjónabandið!

Mig langaði af þessu tilefni að birta skrif um hjónabandið sem að ég sett á blað fyrr í vetur:

Það vill bregða við að þegar rætt er um málefni hjónabandsins að upp komi sá skilningur í samræðum og skrifum að menn telji að í hjónabandinu liggi fólgið hjálpræði.  Það er alveg ljóst að við verðum að átta okkur á því að skv. lúterskum skilningi er hjónabandið ekki hlut af hjálpræðisverkinu. Ég benti á tilvitnun Lúters úr Babýlónsku herleiðingunni þar sem hann talar um að umfjöllunin um hjónabandið innan Biblíunnar hafi ekki í sér fólgið það tákn sem er merking þess að um guðlega stofnun sé að ræða. Við þurfum að horfast í augu við það að innan kaþólskrar hefðar er hjónabandið sakramenti. Við yfirgáfum þann skilning fyrir um 500 árum síðan. Það er nú bara þannig. Þannig að allt tal um hjónabandið sem hluta af hjálpræðisverkinu verður að eiga sér stað innan annarrar hefðar og annars samhengis.  

Annað atriði sem mig langar líka til að taka upp varðandi hjónabandið er það að innan gagnkynhneigðra hjónabanda þrífast hlutir sem sjaldan eða aldrei er rætt um. Við getum t.d talað um þær syndir sem fyrirfinnast innan hjónabandsins en ekki utan þess. Það væri kannksi merkileg umræða!! Marie M. Fortune talar um þessar syndir í bók sinni Sexual Violence. Hún talar þar um aðgreiningu sem fundist hafa í leiðbeiningarritum varðandi kristið siðferði frá 15. öldinni fram á 19. öldina. Það er talað um syndir sem eru í samræmi við eðlið og þær sem eru andstæðar eðlinu. Forsendan fyrir hinum eðlilegu kynferðislegu syndum er sú að þær hafi æxlunarmöguleika. Það er að barn getur orðið til. Þess vegna er hórdómur; framhjáhald; sifjaspjell; nauðgun og brottnám allt álitið eðlilegar kynferðislegar syndir. Þrátt fyrir að þær eru syndir þá eru þær samt minna syndugar heldur en hinar, sem eru gegn því sem eðlilegt er. Í þann flokk falla sjálfsfróun; Saurlifnaður; samkynhneigð og dýrslegar hvatir. Ekkert af þessum syndum hefur möguleika á æxlun. Þess vegna eru þetta óeðlilegar syndir og voru litnar alvarlegum augum. Þetta syndastigveldi notar æxlunarhyggjuna sem forsendu til að dæma alvarleika synda. Þess vegna er til dæmis talað um að samkynhneigð sé í sama flokki og kynferðislegt ofbeldi. Innan þessar ramma eru sifjaspjell; naugðun og brottnám álitið syndugt ekki vegna þess að brotið er á líkamsrétti einstaklingsins heldur vegna þess að verið er að tala um verknaði sem eiga sér stað utan hjónabands. Þetta er minna syndugt samt heldur en verknaður sem í sjálfu sér hefur ekkert fórnarlamb. Til dæmis þá samkynhneigð og dýrslegt eðli. Af þessu leiðir að ekki er hægt að nota æxlunarhyggjuna sem forsendu fyrir siðfræði kynlífs og hjónabandsins, það hlýtur að liggja beint við. Með því erum við að réttlæta alvarlegustu brotin á líkamsrétti einstaklinga, sem eru oftar en ekki viðkvæmari fyrir þessum brotum eins og konur og börn. Það er kannski ekki skrýtið að við sjáum í dómaframkvæmd lágmarksrefsingar fyrir kynferðisbrot vegna þess að enn  þann dag í dag eimir eftir að þessari feðraveldishugsun þegar kemur að líkamsrétti kvenna og barna. 

Ef litið er á hjónabandið sjálft þá er það heldur engin trygging fyrir því að líkamsréttur sé virtur. Hjónabandsnauðganir eru algengar; heimilisofbeldi, bæði andlegt og líkamlegt. Kona er t.d. aldrei í jafnmikilli hættu á að verða fyrir ofbeldi af hálfu mannsins síns en þegar hún er ófrísk. Margt annað á sér stað innan hjónabandsins sem getur varla verið eðlilegt eða fjölskyldunni til góðs. Nú í dag stunda hjón t.d. makaskipti; kynlíf með fleirum en einum; eru í opnum hjónaböndum og ég veit ekki hvað og hvað. Getur þetta verið samfélaginu og hjónabandinu sem stofnun í samfélaginu til góðs. Er þetta hin dýrmæta stofnun sem við verndum af svo miklum krafti að við horfumst ekki í augu við þær brotalamir sem eru á hjónabandinu nú þegar.  

Ef að samkynhneigð er svo mikil synd að ekki má veita þeim rétt til að eigast hvað þá um allar þær syndir sem konur eru beittar með þögulu samþykki samfélagsins; hvað með öll börnin sem eru beitt ofbeldi í skjóli friðhelgi heimilsins. Hvað um öll þau brotnu hjónabönd sem ganga ekki upp vegna þess að fólk stendur ekki undir þeim kröfum sem það gerir um hið fullkomna líf og um leið gerir maka sinn ábyrgan fyrir því lífi einnig.  

Álit fólks á samkynhneigðum hefur oftar en ekki verið það að þeim er einmitt  líkt við kynferðisbrotamenn eins og t.d. Fortune talar um. Ellison segir að fyrir 20 árum síðan var andstaða við ást milli fólks af sama kyni vegna þess að talið var að samkynhneigðir gætu ekki átt í langtímasambandi og sinnt börnum. Nú í dag er ráðist á samkynhneigða vegna þess að þeir eru í langtímasamböndum og eru að ala upp börn. Í fortíðinni var veist að samkynhneigðum vegna þess að þeir voru álitnir sjálfselskir; lauslátir og óáreiðanlegir. Ellison segir jafnframt að menn tali um í dag að það megi vígja samkynhneigða sem presta en þegar talað eru um hjónbaband þá verður allt vitlaust.  

Ellison segir einnig að í menningu þar sem fólk er í auknum mæli að velja það að gifta sig ekki er það kaldhæðið að við eyðum svo mikilli orku í að koma í veg fyrir að fólk gifti sig. Hann segir einmitt að með því að leyfa hjónaband samkynhneigðra gæti það aukið á stöðugleikann í samfélaginu. Hann segir að staðreyndin er sú, að samkynhneigðir eru til, þeir eru að fullu mennskir, þeir elska og skapa fjölskyldur og sambönd sem hafa gildi. Spurningin er sú hvernig getur kirkjan og samfélagið náð utan um þessar félagslegu aðstæður þannig að samkynhneigð sambönd og fjölskyldur þeirra geti þrifist?? 

Þetta er 1.000.000 dollara spurningin og í henni felst einnig spurningin um trúverðugleika samfélagsins og kirkjunnar. Við erum fljót að veifa mannréttindasáttmálum þegar svo hentar, en gleymum þeim svo þegar óþægileg mál koma upp sem við erum “ekki  tilbúin” til að takast á við. Við erum það lítið tilbúin að meira segja æðsta löggjafarstofnun landsins, Alþingi, samþykkti að bíða eftir að kirkjan væri tilbúin þegar tillaga kom upp um að leyfa með lögum hjónaband samkynhneigðra. Hversu eðlilegt er það í lýðræðissamfélagi að mannréttindi þjóðfélagshópa séu virt að vettugi hjá löggjafanum og þeirri stofnum sem ætti að vera mest annt um að jöfn réttindi allra séu hið æðsta gildi! 

Það er stórt spurt..

Sunna

 

 

 


Að taka afstöðu!!

Ég er sammála þessu sem kemur fram í ályktun 40-menninganna fyrir prestastefnu sem að stendur yfir á Húsavík:

"Hjónaband samkynhneigðra varpar ekki á nokkurn hátt skugga á fagnaðarerindi Jesú Krists og náðarmeðul hans. Þvert á móti væri það í anda boðskapar Krists og myndi stuðla að því að styrkja hjónabandið í ólgusjó þjóðfélagsbreytinga. Útilokun samkynhneigðra frá hjónabandinu mun hins vegar minnka trúverðugleika þjóðkirkjunnar og veikja tilkall hennar til slíks heitis"

Leiðari Morgunblaðsins í morgun fjallar um þetta málefni og ég tek undir með lokaorðum hans þar sem kirkjan er hvött til að hætta hálfkákinu og taka hreina afstöðu í þessu efni!

Sunna


« Fyrri síða

Um bloggið

Hugsað upphátt

Höfundur

Sunna Dóra Möller
Sunna Dóra Möller
Guðfræðinemi sem stefnir á að útskrifast einhvern tímann og breyta svo heiminum í framhaldi af því!
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Jóla
  • jólatrée
  • P1010337
  • P1010307
  • norðurferð 322

Annað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband