Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Lífsins ljós!

Ég sótti málþing áðan í þjóðminjasafninu um málefni samkynhneigðra og kirkju. Að þess málþingi stóð hópur presta ásamt samtökunum 78.

Þarna var þétt setinn salur af fólki, prestum, þingmönnum og fleirum sem að vilja kynna sér þessi mál.

Á morgun hefst kirkjuþing og þar liggja fyrir tvær tillögur um samvistir samkynhneigðra og það verður áhugavert að sjá hvernig kirkjuþing mun taka á þessu máli. Málaskrá kirkjuþings er hægt að sjá inni á kirkjan.is.

Ég hef oft skrifað hér um hjúskap samkynhneigðra og lýst þeirri skoðun minni að mér finnst að þetta eigi að vera heimilt og það eigi að vera ein hjúskaparlög fyrir alla óháð kynhneigð. Ég ætla ekki að fara hér út í biblíutúlkun eða hefðarrök eða andhefðarrök og allt það. Tel þá umræðu hafa farið hér fram áður og ég þar lýst minni skoðun skýrt og skorinort.

Ég vil nota tækifærið og lýsa þeim tilfinningum sem að fara í gegnum hugann á þessari stundu eftir þetta þing. Ég ætla algjörlega að tala á nótum tilfinningaraka og ekki einhverra kaldra trúarkenninga sem að ala á aðgreiningarhyggju og framandleika milli fólks.

Ég hef verið með hugann alveg á flugi og næ einhvern veginn ekki að klára eina hugsun til enda áður en að ný tekur við. Þarna komu fram og stigu í pontu góðir fyrirlesarar og allt konur Cool! Allt voru þetta flottar konur en það sem að stendur upp úr er frásögn manns og sonar hans sem að er samkynhneigður. Hann stóð þarna faðirinn og lýsti því hvernig hann óskaði þess að börnin hans nytu allra réttinda sem að hann sjálfur nýtur. Sonur hans var svo spurður út í nokkra hluti og það sem að situr eftir í mínum huga voru lokaorð hans þegar búið var að tala um mannréttindi og hans hug til kirkjunnar og hvað honum fyndistum um það, að samkynhneigðir ættu að sitja við sama borð: Já, annars hefði Guð ekki skapað mig!!!

Vitiði að þessi játning þessa drengs er eitthvað það sterkasta sem að ég hef orðið vitni að lengi og ég er enn viðkvæm eftir að hafa hlýtt á þessi orð.

Það töluðu fleiri þarna, ung lesbísk stúlka lýsti því að hún er að fara að gifta sig 22. mars nk. Hún þarf að fara og skrifa undir einhver skjöl í gegnum gler fyrst. Þá er hún komin í staðfesta samvist. Hún lýsti því hvernig hún vildi geta farið til einhvers sem að stendur ekki á sama um hana og hennar líf og tilfinningar. Einhvern sem að lætur sig hana og unnustu hennar varða. Það gerir konan/maðurinn ekki bak við glerið hjá sýslumanni.

Guðfríður Lilja átti líka flott innlegg þar sem að hún talaði um að ef að Jesús Kristur gengi inn í salinn í dag, sá sem að hafði það að markmiði að vera í kringum þá sem að minnst mega sín og þeirra sem að eru á jaðrinum og hann gaf þeim gildi í samfélaginu. Það fyrsta sem að hann hefði gert í dag hefði hann komið inn, þá hefði hann fyrst gengið inn og tekið í höndina og heilsað þessum hugrakka unga dreng sem að var ný búinn að tala.

Þetta er svo rétt hjá henni. Við erum búin að búa til kristindóm í dag sem að hafnar og meiðir. Kristindóm sem að aðgreinir og gefur sumum forréttindi og öðrum ekki. Kristindóm sem að segir: Þú ert í lagi....ekki þú.

Ég get ekki fellt mig við þennan kristindóm, ég get ekki fellt mig þessa aðgreiningarhyggju og gagnkynhneigðarhyggju sem að meiðir annað fólk. Ég vil ekki vera hluti af því að meiða og særa fólk og tilfinningar þess. Ég vil ekki vera þátttakandi í að viðhalda veruleika sem að aðgreinir og býr til framandleik úr andstæðum. Nú er ég ekki prestur og ekki einu sinni ennþá orðinn guðfræðingur, en þetta er veruleiki sem að mér finnst ekki áhugaverður þegar ég hugsa um þann möguleika sem að ég hef eftir mitt nám, þá að að geta sótt um embætti innan kirkjunnar. Hugur minn leitar ekki þangað í dag og er blendinn! Ég viðurkenni það og mér finnst það á ákveðinn hátt erfitt. Kirkjan er í mínum huga er griðastaður og vin í önnum dagsins. Hún hefur verið mér skjól og hún hefur gefið mér blessun og frelsi til að elska þann sem að ég valdi og varð ástfangin af. Þetta frelsi hafa ekki allir og við sitjum ekki öll við sama borð þegar kemur að frelsinu til að elska innan kirkjunnar. Þetta er sorglegur veruleiki en hann er raunverulegur!

Það er svo merkilegt að ég fyllist sorg vegna þessa, en um leið fyllist ég von. Ég hef von um að kirkjan muni hverfa til uppruna sín, til hans sem segir við hverja manneskju: Þú skiptir mig máli, vegna þess að þú ert mín góða sköpun. Ég hef samþykkt þig í heilagrí skírn og ég þekki nafnið þitt og ég veit hver þú ert, hvað þú stendur fyrir, hvers þú óskar og hvað þú þráir. Þú ert mitt elskað barn og ég tek þér eins og þú ert! 

Þeir prestar þjókirkjunnar sem að, að þessu máli komu í dag eiga heiður skilinn. Þeir eiga heiður skilinn fyrir sína vinnu og þrautseigju og vilja þeirra til að koma þessum málum í farsæla höfn. Þau hafa synt gegn straumnum en ég trúi að þau munu sjá vinnu sína njóta þeirra ávaxta sem að hún á skilið.

Það er vegna þessarar vinnu þessa presta að ég fylltist von í dag, von fyrir kirkjuna mína og von fyrir okkur öll að það komi tími þar sem að það sem að við eigum sameiginlegt verður forsendan í okkar samskiptum, ekki það sem að skilur okkur að. Þannig verði kirkjan okkur vettvangur fyrir okkur öll ekki bara suma útvalda sem njóta þeirra forréttinda af hafa fæðst með "rétta kynhneigð".

Takk fyrir mig í dag þið sem að stóðuð að þessu þingi og takk fyrir að gefa mér von um réttláta, sterka og flotta kirkju sem þorir að taka áhættu fyrir fólk!

Þetta er mitt lífsins ljós í dag Heart!

 


Hugsað upphátt!

Mér var hugsað til þess núna rétt í þessu eftir að hafa lesið bloggið hjá Jennýu Önnu (jenfo.blog.is) þar sem að hún er að tala um femínisma, að á þriðjudaginn kom drengur til mín í æskulýðsstarfi sem heyrði spjall mitt um femínisma við annan á staðnum. Hann kom til mín og spurði hvort að ég væri feministi! Ég sagði já og í ákveðnum tilfellum skilgreindi ég mig sem róttækan feminista.

Hann spurði þá hvort að það væri rétt að allir feministar hati karlmenn??

Það kom á mig og ég varð hálf hvumsa......hann sagði mér þá að allir sem að hann talaði við segðu sér að feministar hati karlmenn.

Ég reyndi að útskýra fyrir drengnum að svo væri ekki og þvert móti. Heldur ætti feminismi sér miklu dýpri rætur sem að snýst að menningarlegum, sögulegum og trúarlegum forsendum. Á sumum stöðum í heiminum væru konur sem að berjast fyrir réttindum annarra kvenna og sú barátta væri oftar en ekki upp á líf og dauða!

Mér var hálf um eftir þetta og fór að velta fyrir mér hversu neikvæða skírskotum hugtakið feminismi hefur almennt.

Fyrir mér er þetta ekki neikvætt hugtak og eitthvað sem er í mínum huga sterk afstaða, sem felur í sér að taka sér stöðu með konum og öðrum sem að vinna að jafnrétti almennt. Það er til dæmis ekki langt síðan kvennarýnin tók sér stöðu innan guðfræðinnar og nú er kynjafræðin að koma þar sterk inn líka sem sín tæki og tól. Þetta eru svo spennandi fræði og ég segi það heils hugar að kvennaguðfræðin sem slík er eitthvað það áhugaverðasta sem að ég hef komist yfir.

Það að þetta hugtak sé búið að fá svona neikvæða skírskotun, finnst mér í raun dapurlegt og í raun finnst mér að þau sem tala gegn femínisma á þeim nótum að í honum felist karlahatur, tala af vanþekkingu og fávisku.

Ég er á móti öfgum almennt, sama hvar að þær öfgar eru. Ég er á móti ofsatrú, ofsa karlrembu og ofsakvenrembu einnig Cool...bara almennt öllum ofsa.

Ég er ekki á móti róttækum feminisma enda geri ég mun á ofsa og róttækni.

Ég vona innilega að hægt sé að komast hjá því að ræða um feminsima á þessum nótum, að hann feli eingöngu í sér karlahatur. Drengurinn sem að ég talaði við sagði nú við mig að hann hefði ekki þessa skoðun en hann heyrði þetta alls staðar í kringum sig.

Skoðum málin betur áður en að settar eru fram svona fullyrðingar sem að eiga sér ekki forsendur.

Ég er feministi, ofurfeministi, róttækjur feministi.... en ekki ofsafeministi!

Ég elska þessi fræði, þau gefa mér heilmikið á hverjum degi. Ég hef mótað mér ákveðna afstöðu út frá þeim og þau hjálpa mér að skilja og skynja aðstæður kvenna út um allan heim.

Kona verður fyrir ofbeldi í heiminum í dag eingöngu vegna þeirrar forsendu að hún er kona.

Það er talið að þriðja hver kona í heiminum verði fyrir kynferðislegu áreitni einhver tímann á ævinni.

Kona á meiri hættu á að makinn beiti hana ofbeldi þegar hún er ófrísk, en þegar hún er það ekki.

Mjög margar konur er myrtar þegar þær fara fram á skilnað frá maka sínum sem að hefur beitt þær ofbeldi árum saman.

Ein stærsta kristna kirkjudeildin í dag, neitar að vígja konur sem presta eingöngu þeirri forsendu að þær eru konur. Það er kynið sem að skapar aðgreininguna hér.

Þetta ásamt mörgu öðru, er ástæðan fyrir því að ég er feministi!

Þar hafiði það!

tjussss......


Grúsk!

Kaj MunkÉg var að grúska í gömlum skrifum í tölvunni hjá mér og fann útdrátt sem ég vann úr lokaritgerð eiginmannsins en hann kláraði guðfræðina árið 2000 og vígðist sem prestur árið 2002 í Seljakirkju.

Bolli fjallaði um predikanir og leikrit Kaj Munk, danska prestsins og predikarans, sem að féll fyrir hendi nasista í seinna stríði.

Það er eitthvað við þennan texta sem ég ætla að setja hér, sem að lætur mig alltaf fá gæsahúð. En þessi texti er úr predikun sem að hann flutti þremur dögum áður en að hann var skotinn til bana.

Kaj Munk var einn af þeim sem þorði að tala gegn nasistum opinberlega og sparaði ekki hörðu orðin. Honum fannst þjóð sín huglaus að standa ekki gegn þessum ógnaröflum og talaði mikið um trúna og það að fylgja sannleikanum. En sannleikurinn krafðist þess að hann talaði inn í þessar aðstæður ofbeldis og kúgunar og fyrir það galt hann með lífi sínu. Sannleikurinn var Jesús Kristur.

Eftirfarandi er tekið í kandídatsritgerð Bolla: "Sannleikurinn gerir sínar eigin kröfur".

Það má kannski engan undra þau örlög sem Kaj Munk hlaut, þegar skoðað er hvað hann fór mikinn í ræðu og riti. Í nýjárspredikun sem hann flutti í Vedersökirkju þremur dögum áður en hann var myrtur kemur fram hve mikið honum gramdist gunguháttur Dönsku þjóðarinnar, sem gat ekki valdið öðru en frekari átroðningi annarra þjóða á óróatíma. Hann þoldi illa þá varkárni sem honum fannst danska þjóðin sýna öllum stundum. Honum fannst að kirkjan ætti ekki að þegja, heldur ætti hún að tala opinskátt eins og Kristur gerði. Stjórnmálaleg umræða gat vel farið fram innan veggja kirkjunnar að hans mati. Það væri jafn satt að segja að kristindómur væri ópólitískur og að segja að hann væri pólitískur. Sumum þætti það ögrun við ríkjandi ástand að spinna stjórnmálalegar skoðanir saman við Guðs orð á þessum óróatíma. Var Kaj Munk að storka örlögum sínum. Var það sanngjarnt af honum gagnvart eiginkonu og fimm börnum. Þessar spurningar eru áleitnar , en Kaj virðist sjálfur hafa verið vel meðvitaður um hvað koma skyldi og þess vegna er erfitt að sjá það út hvort það eigi að virða eða vanvirða þessa þrjósku hjá Kaj Munk að fylgja orðum sínum fram í rauðan dauðann.  

“Ég stend ekki hér til að predika hatur gegn einum né neinum. Mér er það alveg ómögulegt. Ég legg ekki einu sinni fæð á Adolf Hitler. Ég veit út í hvaða skelfingu og þjáningu heimurinn hefur kastað sér. Ég veit hvaða niðurlægingu land mitt hefur mátt þola. Ég veit að ég hef í nokkra mánuði ekki getað tekið á mig náðir án þess að hugsa: “Koma þeir til þess að ná í þig í nótt”. Þessi hugsun er ekki gleðileg fyrir þann sem elskar lífið, hefur nóg fyrir stafni og er hamingjusamur með eiginkonu sinni og börnum. En þrátt fyrir þetta get ég ekki hatað. Mannfólkið er af svo margvíslegum toga og er haldið ýmis konar andagift og frelsarinn hefur kennt okkur bænina: “Fyrirgef þeim: Því þeir vita ekki hvað þeir gjöra”.  

Nýjárspredikun í Vedersökirkju þremur dögum fyrir morðið á Kaj Munk.

Þessar spurningar sem að settar eru fram eru áleitnar jafnvel enn í dag! Er það réttlætanlegt að ögra þannig ríkjandi ástandi og tvinna pólitík saman við guðsorðið! Var þetta sanngjarnt gagnvart fjölskyldu og börnum hans, að taka þessa áhættu. 

Gerum við þetta í dag, tökum áhættu og tölum inn í aðstæður sem að okkur ofbýður, jafnvel þó að við leggjum okkur sjálf að veði. Gerir kristindómurinn þessar kröfur til okkar í dag eða er hann orðin trú velferðarsamfélagsins þar sem  forréttindi þeirra sem að falla inn í normið eru vernduð en það sem að er talið syndugt fellur utan þess. Er kristin kirkjan þannig hætt að gera kröfur til okkar um að spyrna gegn óréttlæti og við fljótum þannig sofandi að feigðarósi! Erum við á þann hátt hætt að fylgja sannleikanum??

Kaj Munk sagði sannleikann gera sínar eigin kröfur og hann kaus að fylgja þeim sannleika, værum við í dag tilbúin til þess sama?? 

Um leið og ég set lokapunktinn vil ég minna á undirskriftarlistann sem að Ásdís Sigurðardóttir kom af stað hér á blogginu til stuðnings baráttu aldraðra og öryrkja fyrir bættum kjörum. Sameinumst öll um að skrifa undir og styðjum baráttu þeirra sem að þurfa svo sannarlega á því að halda. Listinn er hér: http://www.petitiononline.com/lidsauki/
 

Góða nótt Heart 

 


Málþing um hjúskap og staðfesta samvist!

Mig langar að vekja athygli á eftirfarandi:

MÁLÞING UM HJÚSKAP OG STAÐFESTA SAMVIST

Mynd með frétt

Hópur presta í samvinnu við samtökin ´78 býður upp á málþing um hjúskap og staðfesta samvist í samfélagi okkar. Málþingið verður haldið í sal Þjóðminjasafns Íslands föstudaginn 19. október kl. 13:30 - 16:00. Allir áhugasamir eru boðnir hjartanlega velkomnir að taka þátt í umræðum um þessi mikilvægu mál.

Dagskrá:

13:40 - 13:55  Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir siðfræðingur fjallar um hjónabandið og mælir fram með þeirri skoðun að það skuli standa opið öllu fullveðja fólki í samfélagi okkar sem vill lifa saman í skuldbindandi ástartengslum. 

 

14:00 - 14:15 Hulda Guðmundsdóttir kirkjuþingsmaður og MA í guðfræði mun mæla fram með þeirri leið að hjónaband karls og konu og staðfest samvist fólks af sama kyni verði ekki sameinuð heldur skuli hvort um sig halda sérkennum sínum sem jafngild sambúðarform sem prestar fái umboð til að staðfesta að lögum.  

 

14:20 - 14:40 Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur mun lýsa lagaumhverfi hjónabands og staðfestrar samvistar.

Páll Óskar Hjálmtýsson og Monika Abendroth flytja ástarljóð.

15:00-15:15 Feðgarnir Kristján Kolbeins og Eyjólfur Kristopher Kolbeins lýsa samskiptum sínum, en sonurinn er hommi.

Kaffiveitingar og tónlist

15:40 - 16:30  Pallborðsumræður þar sem framsögumenn sitja fyrir svörum ásamt fulltrúum frá Samtökunum 78

 

 


Nammibindindi: Dagur 1!

Nú er sem sagt hafið nýtt tímabil í mínu lífi, en það er einn dagur í einu án sælgætis!

Í dag mun ég segja súkkulaði, lakkrís, hlaupi, ís og kökum stríð á hendur. Þetta allt hefur haft þau áhrif að öll fötin í fataskápnum  mínum hafa minnkað síðustu mánuði og ég á þessa dagana ekkert til að vera í og sé fram á að þurfa að fara í stórinnkaup á fatnaði, ef að ekkert verður að gert Undecided.

Núna sem sagt er fyrsta verkefni að fara í gegnum skápa og hreinsa út sælgætisbirgðirnar og henda í ruslið Crying.

Ég hef nú þegar hlaupið þrjá kólímetra í morgun og búin að fá mér einungis litla dós af melónu skyr.is Wizard.

Ég hef sett mér mánaðarmarkmið, það er að borða ekki nammi til 15. nóvember! Þetta þarf þó að gerast einn dag í einu fram að þeim tíma......Shocking!

Ég er sælgætisgrís og ég get ekki haft nammidaga vegna þess að ég framlengi alltaf nammidaginn minn um ca. þrjá daga...það er borða nammi á föstudögum, laugardögum og sunnudögum!

Þannig, nú er að duga eða henda öllu úr fataskápnum Cool!

En ég er pínu kvíðin fyrir föstudeginum......þá fyrst fer að reyna á sko....WhistlingHalo

tjussss....


« Fyrri síða

Um bloggið

Hugsað upphátt

Höfundur

Sunna Dóra Möller
Sunna Dóra Möller
Guðfræðinemi sem stefnir á að útskrifast einhvern tímann og breyta svo heiminum í framhaldi af því!
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Jóla
  • jólatrée
  • P1010337
  • P1010307
  • norðurferð 322

Annað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband